13.11.1967
Neðri deild: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

51. mál, vegalög

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 53 höfum við nokkrir þm. Framsfl. flutt frv. til l. til breytingar á vegal. frá 1963. Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir þessu frv. okkar og þá fyrst minna á það, að það hefur jafnan verið stefna Framsfl. að beita sér fyrir miklum framförum í vegamálum. Framsfl. hafði forystu um það öðrum flokkum fremur, að vegakerfið var teygt út um landið, og hefur það verið og er hans stefna, að það skuli ná til allra landsins byggða, og að hringvegur umhverfis landið verði lagður.

Í öðru lagi er það stefna Framsfl., sem mótuð var á síðasta flokksþingi, að vegir úr varanlegu efni yrðu gerðir á fjölförnustu brautunum. Nú munu vera um 300–400 km af vegum landsins, sem eru það fjölfarnir, að samkv. l. eiga þeir að verða gerðir úr varanlegu efni. Verkefnin í vegamálum eru því, þrátt fyrir það, sem búið er að gera, mikil framundan. og ég mun því snúa mér að því að gera grein fyrir því, hvernig við Framsfl.-menn hugsuðum okkur, að þessu verki yrði komið í framkvæmd.

Í fyrsta lagi leggjum við til að efla vegasjóðinn með því, að allir sérskattar, sem nú eru lagðir á umferðina í landinu, gangi til hans. En eins og kunnugt er, eru leyfisgjöld af bifreiðum tekin í ríkissjóðstekjur, en ekki látin ganga til vegasjóðs. Tekjur af leyfisgjöldum urðu árið 1966 hartnær 200 millj. kr. og munu verða eitthvað svipaðar á þessu yfirstandandi ári. En okkur er það ljóst, að þó að þessi breyting yrði á gerð, mundi það ekki nægja til þess að vegasjóðurinn gæti leyst af hendi þau verkefni, sem hans bíða. Gert var ráð fyrir því, þegar vegal. voru sett, að ríkissj. legði vegasjóði til fé, en það hefur verið fellt niður af fjárl., þó að lítils háttar sé á núverandi vegáætlun, en það er vitanlegt, að nauðsyn ber til þess, að ríkissjóður leggi af öðrum tekjum en sérsköttunum fé til vegasjóðs, m.a. til þess að mæta viðhaldi þjóðveganna, sem fer hraðvaxandi og er nú komið á 2. hundrað millj. kr. Ennfremur verður það nauðsynlegt að taka lán til þess að ljúka þeim verkefnum, sem óleyst eru í landsbrautum og þjóðbrautum, og gerum við ráð fyrir, að vegasjóður taki það lán, ef tekjur hans verða auknar, eins og hér er gert ráð fyrir.

Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir því, að til þess að leysa það verkefni að gera vegi úr varanlegu efni, verði að taka ríkislán, sem ríkissj. sjálfur á að standa undir. Okkur er það ljóst, að eins og nú horfir, verða ekki gerðir vegir úr varanlegu efni, nema aukið fé komi til. Það, sem hendi næst liggur fyrir í sambandi við vegi úr varanlegu efni, er að gera rannsókn á því, úr hvaða efni við eigum að gera okkar þjóðvegi, sem þannig eru gerðir. Það eru þrjár aðferðir, sem koma til greina og reyndar hafa verið hér á landi. Elzt þeirra er malbikið, sem flestar götur Reykjavíkur eru gerðar úr. Í öðru lagi er það steinsteypan, sem Keflavíkurvegur er gerður úr, og í þriðja lagi er það olíuborin möl, sem nokkuð er farið að reyna hér í þéttbýlinu og lítils háttar á þjóðvegum.

Við teljum brýna nauðsyn bera til þess, að þessar aðferðir verði prófaðar og þær metnar með tilliti til þess, hversu dýrar þær eru og endingargóðar. Það skal ekki um það sagt á þessu stigi málsins, hvaða aðferðir verða heppilegastar til þess að leysa þessi verkefni, en brýna nauðsyn ber til að gera samanburð á þeim og taka í því efni það, sem skynsamlegast má telja miðað við aðstæður. Verkefnin í að gera hraðbrautir eru orðin verulega mikil nú, þar sem vegurinn austur fyrir Selfoss tilheyrir þeim flokki vega, sem hraðbrautir eiga að heita samkv. vegal. og sama er að segja um Vesturlandsveg allt upp til Borgarness. Þá er það öllum ljóst, sem til þekkja, að mikla nauðsyn ber til þess að gera norðurleiðina alla til Akureyrar úr varanlegu efni. Ástand veganna, eins og það er hjá okkur nú, þolir ekki þá umferð, sem við leggjum á þá nú orðið.

Það mun verða spurt í þessu sambandi, hvernig ríkissjóður eða þjóðin eigi að mæta þeim verkefnum, sem fram undan eru í vegagerð. Því er til að svara að það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að mæta verkefnunum, sem við er að fást og leysa þau, og það mun ekki verða um það deilt að það ber brýna nauðsyn til þess að takast á við þau verkefni, sem um er að ræða í vegagerð, og hjá því verður ekki komizt að leysa þau. Í því sambandi vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að minna á það álit, sem fram kom í skýrslu vegamálastjórnarinnar um framkvæmd vegáætlunar 1966, en þar segir svo á bls. 4:

„Á fjölförnustu malarvegunum hefur í ár verið mun lakara ástand heldur en á s.l. ári, og er þá orðið vonlaust verk að halda þessum vegum sæmilega akfærum með malarslitlagi.“

Þetta o. fl. sannar okkur það, að það er ekki að ástæðulausu, að við gerum kröfur til þess, að meira átak sé gert í vegamálum en nú er. Það er öllum ljóst, að með þeim fjárveitingum, sem nú eru á vegáætlun til hraðbrauta, verður ekkert í þessu gert frekar en nú er, og það ástand þolum við ekki.

Í sambandi við möguleikana, sem við höfum til þess að leysa þessi verkefni nú og áður, vil ég benda á það, að tekjur þær, sem ríkissj. hefur af umferðinni nú og áður, eru ólíkar. Það var svo, að á árunum allt frá því að við fórum að vinna að vegamálum, urðum við að leggja fram fé af ríkissjóðstekjum án þess að ríkissj. hefði nokkrar verulegar tekjur af umferðinni aftur, og þannig var það á 3., 4. og 5, áratug þessarar aldar, að allt að 10–12% af heildarútgjöldum ríkissjóðs fóru til vegamála.

Nú er þetta mjög breytt, eins og oft hefur verið á drepið, og ekki sízt er það eftirtektarvert, þegar það er haft í huga, að tekjur ríkissjóðs af umferðinni hafa vaxið jafnt og þétt hin síðustu ár. Árið 1965 hafði ríkissj. um 680 millj. kr. í tekjur af umferðinni og 1966 um tæpar 900 millj. kr. og þó heldur meira, ef tillit er tekið til söluskattstekna, sem ríkissj. hefur haft umfram þessar tölur. En á þessu tímabili hafa farið til vegagerðar í landinu 261 millj. kr. árið 1965 og 1966 309 millj. kr. Ríkissj. hafði því tæpar 500 millj. kr. í tekjur af umferðinni umfram það, sem til hennar fór aftur og rúmar 400 millj. árið áður. Þetta sannar það, að meiri geta á að vera til þess nú að leysa verkefni í vegagerð en áður hefur verið.

Nú hefur því oft verið haldið fram, þegar þessum málum hefur verið hreyft hér á hv. Alþ. af okkur stjórnarandstöðunni, að við yrðum þó að sjá fyrir tekjum þeim, sem ríkissjóður missti við þessa breytingu, sem við leggjum til með þessu frv. Eins og ég áður sagði, er það hlutverk stjórnvalda að sjá fyrir tekjum til þess að leysa þau verkefni, sem knýjandi eru hverju sinni, og ég held, að við þurfum ekki að deila um það hér á hv. Alþ., að þörfin til þess að leysa úr vegamálunum er mikil, og fram hjá því verður ekki horft.

Bifreiðum landsmanna hefur fjölgað mjög ört á síðustu árum og munu nú vera um 40 þús. talsins, og jafnframt því hefur svo umferðin aukizt meira en bifreiðunum hefur fjölgað, og þungaflutningar á landleiðum fara vaxandi ár frá ári. Ég vil líka minna á það í þessu sambandi, að það þykja engin tíðindi hér á hv. Alþ. nú, þó að fjárl. hækki um 1 milljarð milli ára, og fyrir því er séð af stjórnvöldum að mæta þeirri tekjuþörf, svo að þær 200 millj., sem hér er lagt til, eru ekki nema lítill hluti af því. Ég vil líka minna á það, að við höfum deilt hér á hv. Alþ. um þá ráðstöfun hæstv. ríkisstj. að fella niður fjárveitingu til vegasjóðs, eins og var hér á fyrstu vegáætluninni. Hv. stjórnvöld sáu ekki ástæðu til að leiðrétta þetta, en þegar verkefni eins og kísilgúrvegur kom til, voru til fjármunir til þess að leggja þann veg. Þess vegna er það mín skoðun, að þannig megi á þessu máli taka sem öðrum, að ef ekki skortir vilja til þess að leysa verkefnin, muni takast að leysa þau. Þörfina þarf ég ekki að fjölyrða um, og ég get endað þessi orð mín með því að undirstrika það, að möguleikarnir til þess að leysa vegamálin nú eru meiri en áður, vegna þess að umferðin sjálf gefur orðið það miklar tekjur, og ég er sannfærður um, að stjórnvöld landsins geta gert stórt átak í vegagerðinni, ef vilja skortir ekki þar til.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.