13.11.1967
Neðri deild: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

51. mál, vegalög

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Mér sýnist, að árangurinn af tali mínu til hæstv. ráðh. ætli ekki að verða mikill, þar eð mér finnst hann alltaf fjarlægjast raunveruleikann, eftir því sem hann talar oftar, en ég vil samt gera eina tilraun ennþá til þess að reyna að koma hæstv. ráðh. á rétt spor.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé nú verkefni fjárl. ríkissj., sem áður hafi verið verkefni útflutningssj. Þetta eru nýjar upplýsingar. Ég vildi benda hæstv. ráðh. á að lesa bókina „Viðreisn“. Þá bók gaf ríkisstj. út í byrjun árs 1960, og sagði þá frá því þar, að áhrifin, sem það hefði að leggja niður útflutningssj. á útgjöld ríkissj. það ár, væru 113 millj. kr. Þetta mun vera á bls. 31, og því mun ekki hafa verið haldið fram í bókinni „Viðreisn“, að verkefni útflutningssj. væru tekin upp hjá ríkissj. Til hvers var þá verið að gera gengisbreytingu 1960 og aftur árið 1961? Ég held, að hæstv. ráðh. þurfi að gera sér grein fyrir þessu.

Út af tölum okkar um útgjöld til vegamála miðað við heildarútgjöld fjárl. áranna á 5. og 6. tug þessarar aldar, vil ég benda hæstv. ráðh. á að kynna sér Fjármálatíðindin og annað, sem um þetta hefur verið sagt, og mun hann þá finna réttar forsendur fyrir þessu, en ekki þær, sem hann gerir sér upp núna. Ég verð að játa það, að ég fékk ekki heila frásögn út úr frásögn hans hér af fjárl. 1958 í samanburði við vegamálin, því að ég kannast ekki við þær tölur, sem hann þar nefndi. Mér heyrðist hann nefna þar aðeins tölur til nýbygginga þjóðvega, en ekki önnur útgjöld til vegamála. Það gefur ekki réttan samanburð.

Út af því, sem hæstv. ráðh. talar um, að ég segi hér um Framsfl. og vegamálin, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það hér upp, þar sem segir:

„Framsfl. hefur alltaf látið vegamálin mikið til sín taka. Hann hefur öðrum flokkum fremur haft á 3.–6. áratug þessarar aldar forystu um vegagerð landsmanna“.

Ég endurtek, að svo hafi verið, og það verður ekki hrakið, þó að hæstv. ráðh. komi hér oftar í ræðustól.