18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

80. mál, söluskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Áður en þetta frv. var tekið til umr., kom fyrri flm. til mín og bað mig um að hlusta á framsöguræðuna fyrir frv., og það hefði ég nú sennilega gert, þótt ég hefði ekki verið beðinn um það, því að það er oft uppbyggilegt að hlusta á þennan hv. þm. En ég ætla nú ekkert að fara að gerast sérstaklega talsmaður fyrir þessu frv. og ekki heldur að mæla gegn því sérstaklega. Ég get tekið undir með hv. 1. flm. um það, að það væri vitanlega æskilegt að leggja niður söluskattinn. Það væri æskilegt, ef við gætum lagt niður flestalla skatta og búið í skattlausu landi og notið þeirra tekna, sem við öflum, án þess að láta af því nokkuð í ríkissjóð. En það er nú annað mál. Þetta frv. leggur nú ekki það til, heldur það, að söluskattur verði afnuminn af fiski og landbúnaðarvörum, vinnsluvörum úr mjólk og af kjöti. Það er ekki greiddur söluskattur af nýmjólkinni, eins og kunnugt er.

Mér virtist gæta lítils háttar misskilnings hjá hv. ræðumanni, þegar hann var að tala um söluskattinn. Annars vegar gaf hann það í skyn, að þetta væri nú eiginlega slæmt fyrir bændur, að söluskatturinn væri og hins vegar, að það væri slæmt fyrir neytendur. Það væri þess vegna gott að losna við hann. En hv. ræðumaður fullyrti rétt á eftir, að ríkissjóður hefði engan hagnað af þessum skatti, vegna þess að hann greiddi niður vöruna. Og ef þetta er rétt ályktað hjá hv. þm., gætu neytendur ekki tapað, þótt söluskatturinn sé á vörunni og bændurnir ekki heldur, vegna þess að varan á að seljast þá alveg eins vel, þótt það sé innheimtur söluskattur, ef hún er lækkuð, sem því nemur, með niðurgreiðslu úr ríkissjóði. En þá má segja, að það sé kannske eðlilegt, að þm. haldi því fram, að það sé til lítils barizt, ef þetta jafnar sig alveg upp, því að það má reikna með því, að þegar söluskatturinn var ákveðinn á þessum vörum, hafi verið ætlazt til þess, að það yrði eitthvað meira, sem kæmi í ríkissjóðinn. Það dæmi hef ég ekki reiknað, og vil ekkert fullyrða um það, hvernig það kæmi út, ef það væri reiknað endanlega. En ástæðan til þess, að ég sá nú ástæðu til að segja hérna nokkur orð, var sérstaklega vegna fullyrðingar hv. þm. um það, að bændur mundu ekki fara að lögum, ef söluskatturinn væri innheimtur áfram. Þarna er ég á allt öðru máli. Ég held, að bændur fari að lögum, jafnvel þótt þeir vildu losna við söluskattinn, og eftir að lög voru samþ. 1965 um sláturhús og meðferð sláturafurða, er algerlega bannað að slátra heima til sölu, Það verður að slátra í sláturhúsum, sem hafa fengið viðurkenningu dýralækna og landbrn., og ég er alveg sannfærður um það, að það munu bændur gera og með því að gera það, er sala beint frá bændum til neytenda alveg útilokuð, og ég held, að bændur hafi ekki tilhneigingu til þess að gera þetta, því að þeir eru löghlýðnir og það er ekki viðeigandi að halda þessu fram. Hv. þm. talaði um folaldakjötið, það væri kannske helzt það, sem bændur reyndu að selja beint til neytenda. En vegna þess að það verður að slátra folöldunum í sláturhúsunum og bein sala er bönnuð, á þetta ekki heldur að koma til. Og það er meira en söluskatturinn, sem dregst undan, ef sett er beint, það er skattur til Búnaðarmálasjóðs, bændahallarinnar og stofnlánadeildar landbúnaðarins. Og ég er sannfærður um það, að yfirleitt eru bændur svo heiðarlegir, að þeir vilja ekki standa í því að svíkja þetta, auk þess, sem það brýtur alveg í bága við heilbrigðislöggjöfina að slátra utan við sláturhús, sem eru viðurkennd. Og ég vil, að þetta komi fram hér í hv. Alþ., þegar því er dróttað að bændum, að þeir muni brjóta löggjöfina þannig margvíslega, að ég tel, að þeir muni ekki gera það og bændur eigi ekki skilið að fá þessar aðdróttanir. Það má vera, að þetta hefði farið fram hjá mönnum, þótt því hefði ekki verið mótmælt og þetta gerði ekki til, en það er algerlega ástæðulaust að hlusta á þetta og láta því vera ómótmælt.