18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

80. mál, söluskattur

Flm. (Björn Pálsson) :

Herra forseti. Það er leiðinlegt, að landbrh. er farinn út. Ég ætlaði að svara örfáum atriðum, sem hann benti á. Það er ekki karlmannlegt að hlaupa af fundi, þegar á að svara og ólíkt hæstv. landbrh. Hæstv. ráðh. var að reyna að fetta fingur út í það, að ég teldi, að þetta væru jöfn viðskipti, ríkissjóður tapaði engu á að fella þennan skatt niður, þannig að það skipti ekki máli með söluskattinn á kjötið, — nú, hæstv. ráðh. er kominn — , þetta skipti engu máli, hvorki fyrir neytendur eða framleiðendur eða ríkissjóð. Ég benti jú á það, en tók ýmislegt fram, sem væri neikvætt við að hafa þennan skatt. En nú vil ég stinga upp á einu við hæstv. ráðh. og það er, að við förum að eiga svoleiðis viðskipti daglega, að ég borga honum 100 kr. í smámynt á hverjum degi og svo borgi hann mér þær aftur daginn eftir. Ætli hæstv. ráðh. yrði ekki leiður á þessum viðskiptum? Þetta væri eins og Bakkabræður væru að eiga viðskipti, við þekkjum sögurnar um þá. Þannig eru viðskiptin með söluskattinn á kjötinu, þetta er kleppsvinna. Fyrst eru menn píndir til að greiða þetta gjald, svo er það endurgreitt aftur af ríkissjóði. Auðvitað týnist alltaf eitthvað í leiðinni, eins og mundi vafalaust gerast hjá mér og hæstv. landbrh., ef við værum að dingla með 100 kr. af smámynt í vasanum og telja þetta daglega, skatturinn er tóm vitleysa. En hann er meira en það, hann er ranglátur líka, því að það eru ekki greiddar niður allar kjöttegundir, og þá kemur hann ranglátlega niður. Hvorugur aðilinn græðir, en svo eru ýmis atriði í kringum þetta, sem eru skaðleg, m.a. það, sem ég vildi leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á, að þetta stórhækkar verðið á vörunni, bæði mjólkurvörum og kjötvörum. Og hærra verð þýðir, að minna er keypt, og þá þarf að flytja það út. og þá fyrir enn lægra verð, og þá verður ríkissjóður að greiða enn meira með því eða framleiðandinn fær ekki það, sem hann á að fá, annað hvort. Og þetta er ekkert lítill liður. Hvað haldið þið t.d., að það sé mikið, sem leggst á ostana, sem er dýr vara? Holl og góð vara, en þetta verður allt saman til að hækka verðið og draga úr sölu og sérstaklega mun þess gæta núna, þegar erfiðleikar eru í atvinnulífi og tekjur fólksins mjög takmarkaðar. Það er reynt að spara allt, sem hægt er. Við sáum það á smjörinu, þegar það var komið í 130 kr. kg. Það var hætt að kaupa það. Smyglið jókst, notkunin minnkaði. Þegar það var lækkað ofan í 60–70 kr., var farið að kaupa það, þá seldist það upp. Þetta er ekki lítið atriði. Það er meira en þetta sé fíflaskapur að vera að greiða þetta fyrst í ríkissjóð og síðan aftur úr ríkissjóði, þetta hefur neikvæð áhrif á markaðinn fyrir vörurnar og eykur smyglhættu. Við vitum, að það var farið að smygla töluverðu af smjöri og kjöti jafnvel líka. Ég skal ekki segja, hvort það er nú, því að menn eru hræddir við að sjúkdómar berist með því, a.m.k. frá vissum löndum, en þetta er stórt atriði. Og við verðum að athuga það bændurnir, að það er ekki nóg að hækka og hækka vöruna, það þarf að vera einhver til að kaupa hana. Ég hef ekki verið meiri kröfumaður fyrir bændur en aðrir, og ekki farið fram á ósanngjarna hluti fyrir þá, eftir því sem ég hef álitið. En ég veit, að þeir þurfa að lifa eins og aðrir menn, og það er ekki nóg að hækka allt og hækka, það þurfa einhverjir að geta keypt. Það er alveg eins og vaxtakenning hæstv. landbrh. og ríkisstj. Þeir héldu því fram, að það væri alveg sama, þó að vextir af stofnlánum hækkuðu, bændur fengju bara þeim mun meira fyrir afurðirnar. En það eru bara ekki alveg jöfn viðskipti, því að það er þeim mun minna keypt, eftir því sem varan hækkar. Og í 8 ár eru þeir búnir að reka þessa vitlausu vaxtapólitík, og ég veit ekki, hvort þeir eru búnir að koma auga á ennþá, að hún er vitlaus. Hvað ætli það hafi þýtt fyrir sjávarútveginn, þessi vaxtahækkun? Þetta hefur átt sinn þátt í að auka verðbólguna, en ekkert jákvætt verið við það, alveg eins og það er ekkert jákvætt við að leggja þennan skatt á kjötið. En það er mikið neikvætt við það.

Það er alveg rétt hjá hæstv. landbrh., að með því að selja beint frá framleiðendum til neytenda, sleppum við við Bændahallargjald og gjald í stofnlánasjóðinn. Og þetta eru 2% samanlagt, heildargjöldin, og gjald til Stéttarsambandsins. Þetta er nú þessi þokki, sem er búið að hlaða á okkur. Það er 9½%, sem er tekið, eða 2% í þessa smáhluti og síðan 7½% í söluskattinn. Það er 10%, sem lagt er á toppinn. Fyrir folaldsskrokk, sem seldur er á 3500 kr., er það 350 kr., og fyrir lambsskrokk, sem er seldur á svona ca. 1200 kr., er það 90 kr. Þetta er búið að bæta á vöruna. Hvað haldið þið, að þetta hafi neikvæð áhrif fyrir markaðinn? Það stórdregur úr sölunni.

Viðvíkjandi því, að ég hafi verið að gera lítið úr bændum eða telja þá einhverja væntanlega lögbrjóta, ef þeir færu að slátra heima. Ég veit það vel, að það er bannað að slátra heima. En það er bara svo, að með svona vitlausum ráðstöfunum eru menn neyddir til þess. Hæstv. landbrh. virtist nú ekki vera fróður í þessu efni, vegna þess að í stórum stíl var slátrað heima og selt neytendum s.l. haust. Hæstv. ráðh. hefur bara ekki hugmynd um þetta. Og þeir fengu 30–35 kr. fyrir kg. þeir, sem gerðu þetta, og borguðu enga skatta. Hinir, sem eru að basla við að leggja inn í kaupfélögin, a.m.k. hjá mér, fá 17 kr. strax, og ég veit ekki, hvort við fáum nokkurn tíma meira, ef til vill eru 5 kr. í viðbót. Ég kalla þetta sjálfsbjargarviðleitni, en ekki lögbrot, ef menn fara þessa leið. Og ég tel það hól um menn en ekki last, og það er alveg eins gott fyrir okkur að skjóta folöldin úti um móana og láta þau liggja, eins og vera að basla við að slátra þeim fyrir 1000 kr.

Það, sem stórdró úr, að menn fækkuðu hrossunum í haust, þó að margir væru heylitlir, var það, að þeir fengu ekkert fyrir þau. En ef þessu fer fram með þessa söludreifingu og þessa skattálagningu á kjötvörur, sem ekkert eru greiddar niður, eins og hrossakjötið, er bezt fyrir bændur að skjóta hrossin niður í móana og lofa þeim að fúna eða hafa þau í áburð í flögin, það skiptir ekki máli. Það getur enginn maður framleitt af neinu viti hrossakjöt og fá svona 1000 kr. fyrir folaldið.

Ég held, að hæstv. ráðh. fylgist ekki alveg með þeim breytingum, sem eru að verða, en þar sem hann hefur verið kaupfélagsstjóri hélt ég, að hann skildi þetta betur en almenningur og ætti að vera það ljósara, af því að hann hefur fengizt við þetta. Ég tel það ekki neinum manni til hóls að hlýða endalaust ranglátum lögum. Ég tel það honum til skammar. Það er sjálfsagt, ef lög eru vitlaus og ranglát, að brjóta þau niður með því að fara ekki eftir þeim. Og það er ekki nein glæpamennska. Og hæstv. ráðh. þyrfti að hafa vaktmann á Holtavörðuheiði til þess að gá að, hvað er á bílunum, vita, hvort það færi ekki einhver kroppur þar yfir næsta haust, sem ekki væri slátrað í sláturhúsi og væri jafnvel óstimplaður.