01.02.1968
Neðri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

104. mál, sala Þykkvabæjar I í Landbroti

Flm. (Ágúst Þorvaldsson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 233, flytjum við hv. 3. þm. Sunnl. og ég að beiðni ábúandans á Þykkvabæ I í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Frv. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Hreppsnefndinni í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu er heimilt að selja Bjarna Bjarnasyni ábýlisjörð hans, Þykkvabæ í Landbroti, fyrir það verð, sem um semst eða verður ákveðið eftir mati dómkvaddra manna.

2. gr. Hreppsnefndin skal sjá svo um, að söluverði jarðarinnar verði varið í sem nánustu samræmi við tilgang gjafabréfs hjónanna Helga Þórarinssonar og Höllu Einarsdóttur.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Forsaga þessa máls er sú, að árið 1913 afhentu hjónin Helgi Þórarinsson og Halla Einarsdóttir Kirkjubæjarhreppi jörðina Þykkvabæ I að gjöf með ýmsum skilyrðum, sem sett voru í gjafabréfinu og í skipulagsskrá, sem síðar hlaut staðfestingu konungs. Í 8. gr. gjafabréfsins segir m.a. þetta:

„Reglum þeim, sem settar eru að framan um gjöf þessa, getur enginn breytt nema löggjafarþing Íslendinga og þó því aðeins, að eigi verði hjá því komizt sakir breyttrar tíðar og óviðráðanlegra atvika.“

Eitt af þessum skilyrðum var þannig, að það mátti ekki veðsetja jörðina, og það reyndist svo, þegar til lengdar lét, að það var erfitt að búa á jörðinni, vegna þess að það var ekki hægt að taka nein lán til framkvæmda. Næsti ábúandi á eftir þeim hjónum var sonur þeirra, Þórarinn Helgason, sem er kunnur maður. Hann bjó á jörðinni og það fór svo, að árið 1948 var í raun og veru orðið ómögulegt fyrir hann að vera þarna sakir þess að hann gat ekki framkvæmt þær umbætur, sem þá voru nauðsynlegar til þess að fylgjast með tímanum í ræktun og umbótum. Og þá fór annar gefandanna, sá, sem lengur lifði, þ.e.a.s. Halla Einarsdóttir, fram á það með bréfi, að hreppurinn, — Kirkjubæjarhreppur, — gæfi jörðina eftir eða gæfi eftir breytingu á gjafabréfinu. Það varð nú aldrei úr þessu, og núna hefur búið á jörðinni í 17 ár sonardóttir gefendanna og maður hennar, Bjarni Bjarnason. Nú eru öll hús á jörðinni orðin úr sér gengin og nauðsynlegt að endurreisa þau í nýjum stíl, sem hæfir nútímanum, en til þess þarf að veðsetja jörðina. Hreppsnefndin hefur gert einróma samþykkt um það, að hún vilji verða við óskum ábúandans um það að selja honum jörðina, og hún hefur gert svohljóðandi samþykkt:

„Beiðni hafði komið fram frá ábúanda Þykkvabæjar I í Landbroti um að fá meðmæli hreppsnefndarinnar með umsókn, er hann hyggst senda til Alþingis um að fá keypta ábýlisjörð sína. En samkv. gjafabréfi hjónanna Helga Þórarinssonar og Höllu Einarsdóttur fyrir hálfri jörðinni Þykkvabæ í Landbroti o. fl. til handa Kirkjubæjarhreppi, er birt var í Stjórnartíðindum 1914, B-deild, bls. 137–140, getur enginn breytt reglunum um gjöf þessa nema löggjafarþing Íslendinga. Hreppsnefndin samþykkir einróma að mæla með sölunni fyrir sitt leyti. Jörðin selst með öllu, sem henni fylgir og fylgja ber samkv. gjafabréfinu ásamt skólahúsi hreppsins á staðnum. Verði af sölu mun hreppsnefndin sjá svo um, að andvirðinu verði varið í samræmi við tilgang gjafabréfsins, en ekki notað á neinn annan hátt, sem almennur eyðslueyrir.“ Þetta er gert á Kirkjubæ á Síðu 14. des. 1965 og undirskrifað af öllum hreppsnefndarmönnunum, Siggeir Lárussyni, þáv. oddvita, Siggeir Björnssyni, Páli Pálssyni, Sigurði Sveinssyni og Sigfúsi H. Vigfússyni.

Við flm. höfum látið prenta hér með frv. þau skjöl, sem okkur voru send í sambandi við þetta, þ.e.a.s. samþykkt hreppsnefndarinnar, gjafabréf hjónanna Helga Þórarinssonar og Höllu Einarsdóttur, sem inniheldur jafnframt skipulagsskrána, og síðast höfum við látið einnig prenta hér með sem fskj. III bréf Höllu Einarsdóttur, sem er dagsett 8. júlí 1946, þar sem hún fór fram á það, að ráði allra sinna nánustu frænda og vina, að gjafabréfinu yrði breytt. Nú vildi ég fyrir hönd okkar flm. fara fram á það við þá hv. n., sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, að hún taki málið til afgreiðslu sem skjótast, og að afgreiðsla þess geti orðið nokkuð fljótt, nokkuð löngu áður en þingi yrði slitið í vor, vegna þess að bóndinn, sem hér er um að ræða, hefur í hyggju að fara af jörðinni í vor, ef ekki getur orðið úr því, að hann fái jörðina keypta, og hann þyrfti þess vegna að vita þetta nokkuð tímanlega, hvort úr kaupum getur orðið.

Ég leyfi mér að leggja til, að hv. landbn. fái málið til athugunar, og því verði vísað til hennar og 2. umr. að þessari umr. lokinni.