16.04.1968
Neðri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

104. mál, sala Þykkvabæjar I í Landbroti

Frsm. (Jónas Pétursson) :

Herra forseti. Frv. þetta hefur legið alllengi til meðferðar hjá landbn. Það kom í ljós ýmislegt, sem athugunar þyrfti við, þegar n. fór að kynna sér málið, en það er eins og frv. ber með sér um heimild til hreppsn. í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu að selja jörðina Þykkvabæ í Landbroti, en um þessa jörð er í gildi sérstakt gjafabréf og skipulagsskrá. Það er skemmst af því að segja, að nokkrir af ættingjum þeirra hjóna eða afkomendum, sem gáfu jörðina í upphafi, komu að máli við n. og höfðu ýmislegt við þessa meðferð að athuga. Síðan var haft samband við hreppsn. Kirkjubæjarhrepps að nýju um málið, og það barst frá hreppsn. bréf, sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér helztu atriðin úr, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og fram kemur í grg. frv., eru aðstæður mjög breyttar frá því, sem var, þegar gjafabréfið er samið og jörðin afhent, og í ljós hafa komið ýmsir annmarkar fyrir ábúanda vegna ákvæða þess. Þetta mun hafa átt sinn þátt í því, að uppbygging á jörðinni er skemmra á veg komin en víðast annars staðar hér um slóðir. Við svo búið getur ekki lengur staðið, en slík fjárfesting í íbúðar- og útihúsum, sem þar er þörf á, verður ekki gerð án mikils lánsfjár. Á undanförnum árum hefur hreppurinn veitt ábúanda heimild til að veðsetja jörðina til nokkurra framkvæmda, sem þó eru lítt til frambúðar nema hlöðubygging, enda langstærsta lánsupphæðin hennar vegna. Veðsetningarheimild þessi er veitt samkv. breytingu, sem Alþingi gerði á gjafabréfinu með l. nr. 55 9. apríl 1956. Nú er það augljóst, að ábúandi mun ekki halda áfram að borga af lánum, sem hann hefur tekið vegna framkvæmda á jörðinni, ef hann af einhverjum ástæðum hætti þar búskap. Og í þessari breytingu við gjafabréfið er ekkert ákvæði um, að næsta ábúanda beri skylda til að taka við þessum lánum, enda vafasamt, að nokkur ábúandi fengizt á jörðina með þeim skilmálum, þar sem árleg greiðsla af þeim getur orðið mikil, og ábúandi getur á engan hátt fengið þær greiðslur endurgreiddar, ef hann verður að fara af jörðinni. Hættan á, að þessi lán falli á hreppinn, er því öllum auðsæ og þess vegna hlýtur hreppsnefndin við þær aðstæður, sem hér er lýst á undan, að kippa að sér hendinni um meiri veðsetningarleyfi en þegar hafa verið veitt. Með þessar staðreyndir í huga er það eðlilegt, að núv. ábúendur telji sig ekki geta búið á jörðinni nema fá hana keypta. En það væri mjög gagnstætt hugsjón gefendanna, ef ákvæði gjafabréfsins verði til að hindra það, að jörðin yrði vel hýst eða jafnvel héldist í ábúð. Eftir viðræður, sem hreppsnefndarmenn hafa nú átt við ábúendur og Þórarin Helgason, Þykkvabæ, vill hreppsn. leggja til, að sú breyting verði gerð á frv., að kaupandinn verði Inga Þórarinsdóttir, kona Bjarna, Bjarnasonar, þar sem hún er afkomandi gefenda, en þeir ætlast einmitt til að ábúðaréttur jarðarinnar gangi óskiptur til einhvers afkomenda sinna, ef kostur er.“ Þær upplýsingar, sem koma fram í þessu bréfi hreppsn., gefa það ótvírætt til kynna, eins og þeir segja, að við svo búið getur ekki staðið, og n. komst einhuga að þeirri niðurstöðu, að það væri nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frv., eins og fram kemur í áliti n. á þskj. 550, en þar leggur n. til, að l. gr. orðist svo:

„Hreppsnefndinni í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu er heimilt að selja Ingu Þórarinsdóttur húsfreyju að Þykkvabæ I jörðina Þykkvabæ I í Landbroti fyrir það verð, sem um semst eða verður ákveðið eftir mati dómkvaddra manna. Jörðin skal vera séreign Ingu Þórarinsdóttur samkv. kaupmála, er gerður verður að lögboðnum hætti. Kaupandi jarðarinnar, Inga Þórarinsdóttir, skal gera jörðina Þykkvabæ I að ættaróðali samkv. ákvæðum 1. kafla l. um ættaróðal og óðalsrétt:

Ég skal játa það, að það er eiginlega sérstakur vandi að taka á svona máli, þar sem fyrir liggur gjafabréf, og það er í raun og veru sagt að því megi aldrei breyta, jörðin skuli vera ævarandi eign hreppsins. En þó er í skipulagsskrá, sem jafnframt er gerð fyrir ræktunarsjóð, sem stofnaður var fyrir afgjald jarðarinnar, sagt, að reglum þeim, sem settar eru að framan um gjöf þessa, getur enginn breytt nema löggjafarþing Íslendinga og þó því aðeins, að eigi verði hjá því komizt sakir breyttrar tíðar eða óviðráðanlegra atvika, en gæta skal þess þá vandlega, að breytingin samrýmist svo sem auðið er tilgangi þeirra með gjöfinni. Ég skal ekki um það dæma, hvort það er hægt að segja, að þetta eigi við gjafabréfið sjálft. En mér skilst, að með þeirri breytingu, sem gerð var á því hér á Alþ. 1956, hafi því þó verið slegið föstu. að slíkt væri á valdi Alþ. Hitt er svo augljóst mál, að þessi breytta tíð, sem þarna er talað um, er nú komin, og eins og kom fram í bréfi hreppsnefndar, virðist það vera óhjákvæmilegt að gera á þessu breytingu, og ég vildi vænta þess og við allir, sem að þessum málum höfum staðið, að þannig mundu líka gefendurnir líta á, ef þeir mættu nú láta sinn vilja í ljósi, eins og tímarnir hafa breytzt. En landbn. mælir sem sagt með því, að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef áður lýst. En ég vil þó jafnframt lýsa því yfir og undirstrika alveg sérstaklega, að að svo miklu leyti, sem önnur ákvæði og vilji, sem fram kemur í gjafabréfinu, heldur gildi sínu enn, verði það virt og afhending jarðarinnar og notkun í framtíðinni verði í sem fyllstu samræmi við þau fyrirmæli og þær óskir, sem þar koma fram. Og ég vil sérstaklega að lokum undirstrika það, sem þar er lögð áherzla á, að óheimilt sé að selja eða afhenda nokkurn hlut undan jörðinni, eins og þar er nánar fram tekið.