01.02.1968
Neðri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

106. mál, smíði fiskiskipa

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Í grg. þessa frv. er þess getið, að samtök járniðnaðarmanna hafi nýlega beint þeim tilmælum til Alþingis, að sett yrðu lög eða lögfest áætlun um byggingu a.m.k. 50 fiskiskipa innanlands á næstu 4 árum. Með þessu frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr. og við 3 þm. Alþb. flytjum, viljum við Alþb.-menn taka undir þessa beiðni járniðnaðarmanna, þar sem við teljum, að hér sé hreyft mjög nauðsynlegu máli.

Aðalefni frv. er það, að lagt er til, að atvinnumrn. verði falið að hafa forgöngu um, að smíðuð verði 50 fiskiskip í innlendum skipasmíðastöðvum á árunum 1968–1971 eða næstu 4 árum. Þá er gert ráð fyrir því, að ráðh. geti skipað sérstaka 5 manna n., sem hafi á hendi allan undirbúning að þessum framkvæmdum, og sem geti ákveðið um gerð, útbúnað og stærð þeirra skipa, sem smíðuð yrðu. Lagt er til, að þessi n. verði skipuð með þeim hætti, að skipaskoðunarstjóri verði formaður n., en tveir nm. verði skipaðir samkv. tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna, einn samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands og einn samkv. tilnefningu Sjómannasambands Íslands. Við teljum, að þannig skipuð n. ætti að vera vel fær um það að ákveða, hvernig skip hér yrðu byggð, því að skipaskoðunarstjóri hefur auðvitað sérstaka aðstöðu til þess að hafa góða kunnugleika á öllum þessum málum, en svo ættu sem sagt einnig að koma til till. af hálfu fulltrúa útgerðarmanna og einnig af hálfu fulltrúa sjómanna.

Í frv. er það lagt til, að gerðir þessara skipa verði þó ekki af fleiri tegundum en þremur, þannig að hægt sé að koma fyrir nokkurri seríusmíði eða nokkur skip verði örugglega alveg af sömu gerð og þannig hægt að koma við nokkuð hagkvæmari vinnubrögðum við smíðina. Þá er lagt til, að allir tollar af efni og áhöldum til skipanna verði felldir niður eða endurgreiddir, en líklegra er nú, að sá háttur verði hafður á, að endurgreiða tollana eftir sérstakri aðferð, eins og í rauninni gert hefur verið undanfarið varðandi nýsmiði, sem fram hefur farið í landinu.

Í 5. gr. frv. er svo gert ráð fyrir að heimila ríkisstj. að taka allt að 200 millj. kr. lán erlendis eða innanlands eftir því sem henta þætti í sambandi við þessar framkvæmdir, og gengið út frá því, að atvmrn. semji við Fiskveiðasjóð Íslands um nauðsynleg lán í sambandi við þessa skipasmíði. Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að þessi skip skuli öll seld útgerðarmönnum eða útgerðarfélögum, samvinnufélögum eða bæjarfélögum og að það sé tryggt, að skipunum fylgi um 85% lán miðað við fullnaðarkostnað. Þetta eru svona meginatriði frv.

Ég veit, að það er engin þörf á því hér í þessari hv. d. að flytja langt mál til rökstuðnings því, að við þurfum að halda uppi skipasmíði hér í okkar landi. Það er svo augljóst, að við verðum að hafa allvel útbúnar skipasmíðastöðvar til þess að annast viðhald og breytingar á okkar tiltölulega stóra fiskiskipaflota. Hjá því komumst við ekki með nokkru móti. Við þurfum því hér að hafa smíðastöðvar, sem eru allvel útbúnar, því að í þessum stöðvum er ekki aðeins um það að ræða að annast minni háttar daglegt viðhald, heldur verður þarna einnig til að koma í mörgum tilfellum meiri háttar viðgerðir á skipum, tjónaviðgerðir og sérstakar eftirlitsviðgerðir, sem fram verða að fara eftir þar til settum reglum, en slíkar viðgerðir eru oft býsna umfangsmiklar. Þessi þjónustuaðstaða verður að vera fyrir hendi hér í landinu, og eins og nú er komið, verðum við þar jöfnum höndum að geta sinnt slíkri þjónustu, hvort sem um er að ræða tréskip eða stálskip. Þessi þjónusta er að verulegu leyti fyrir hendi, þó að oft sé nú á það minnzt, að hún sé ófullnægjandi og geti varla annað þeim verkefnum, sem hún verður að taka við oft og einatt. En reynslan hefur sýnt mönnum það, að það er erfitt að halda uppi, svo að vel sé, þessari þjónustustarfsemi án þess að rekin sé í sambandi við hana meiri eða minni nýsmíði skipa. Þar kemur m.a. það til, að viðgerðarþjónustan er alltaf nokkuð breytileg, og það geta myndazt eyður í verkefnin hjá stöðvunum, og þá getur vitanlega komið sér vel, að fella nokkuð saman það vinnuafl, sem er í nýsmíðinni og hitt, sem verður að kalla á ýmsum tímum út til viðgerðaþjónustunnar, en auðvitað er ekkert um það að ræða, að þegar unnið er að byggingu nokkuð stórra skipa, þarf þó að sinna nýsmíðinni með föstu og stöðugu framlagi vinnuafls, þó að vitanlega sé hægt að halda þar vel á, þó að það sé nokkuð misjafnlega mikið vinnuafl, sem bundið er í sjálfri nýsmíðinni á hverjum tíma.

Nokkuð hefur verið byggt hér af fiskibátum í innlendum skipasmíðastöðvum á undanförnum árum, en mjög misjafnlega mikið á hinum ýmsu tímum. Sú smíði, sem hér hefur farið fram, hefur sýnt það alveg tvímælalaust, að við getum byggt jafngóð og vönduð fiskiskip innanlands eins og þau, sem við kaupum aðallega erlendis frá. Á því leikur enginn vafi. Hitt hafa menn hins vegar efazt meir um, hvort við værum fyllilega samkeppnisfærir við erlendar byggingarstöðvar um byggingarkostnað. En á því er enginn vafi, að þar veltur mjög á því, hvernig ástatt er með verðlag hér innanlands og ýmis önnur atriði grípa þar einnig inn í. En ef við getum komið málum þannig fyrir, að við gefum innlendri smíði sams konar aðstöðu og erlend skipasmíði á við að búa, eru allar líkur til þess, að við getum verið samkeppnisfærir á þessu sviði, hvað viðkemur byggingu fiskiskipa.

Þá er einnig á það að minnast, að það er enginn vafi á því, að það er margt, sem mælir með því, að Íslendingar annist sérstaklega sjálfir byggingu sinna fiskiskipa og sæki þau ekki að öllu leyti til annarra þjóða, en það er sú sérstaða, sem við eigum hér við að búa í sambandi við okkar sjósókn og okkar fiskimennsku. Við höfum iðulega gert aðrar kröfur til útbúnaðar á skipum en meira að segja þeir nágrannar okkar, sem þó búa við líkasta aðstöðu til fiskveiða, og það er mjög nauðsynlegt, að það séu einmitt menn í nánum tengslum hér við fiskimennina, að það séu landsmenn sjálfir, sem reyni að þreifa sig áfram með nýjungar á þessu sviði, og það er því mín skoðun, að það sé sérstök nauðsyn á því, að við leggjum kapp á að halda hér uppi í landinu skipasmíði miðað við okkar fiskveiðiflota. Ég tel, að verulega sé mikill munur á því og hinu, hvað við eigum að ganga langt í því að fara að taka að okkur byggingu almennra flutningaskipa eða farþegaskipa. Þar er aftur komið inn á verksvið, þar sem við verðum að viðurkenna, að aðstaða hinna erlendu byggingarstöðva er allt önnur. En vissulega getur þó einnig komið til greina, að hér fari fram í landinu nokkur bygging slíkra skipa.

En skipasmíðin hér innanlands hefur átt örðugt uppdráttar af ýmsum ástæðum. Oft hefur það verið af því, að verðlag hér innanlands hefur verið mjög ósambærilegt við verðlag í okkar viðskiptalöndum, og af þeim ástæðum hefur í rauninni ekki verið grundvöllur til þess að keppa um verðlag við erlendu stöðvarnar. En þannig hefur þetta þó ekki alltaf verið og er ekki alltaf. En þá er annað, sem mjög hefur reynt á nú hin síðari ár, en það er varðandi það fjármagn, sem til þarf í sambandi við byggingarframkvæmdir. Erlendu byggingarstöðvarnar hafa yfirleitt haft aðstöðu til þess að selja okkur hin nýbyggðu skip með þeim hætti, að þær hafa getað veitt okkur lán, sem nema yfirleitt í kringum 70% af fullu andvirði hinna nýsmíðuðu skipa til a.m.k. 7 ára, og það jafnvel með heldur lægri vöxtum en almennt hafa þekkzt hér innanlands. Þessar lánareglur hinna erlendu skipasmíðastöðva hafa gert það að verkum, að aðilar hér innanlands, fyrst og fremst Fiskveiðasjóður, hafa talið sig miklu fremur geta mætt óskum útgerðarmanna um stofnlán til fiskiskipa, ef þeir kaupa skipin með þessum kjörum erlendis frá, en ef Fiskveiðasjóður á að snara út öllu andvirði lánsins út á hið nýja fiskiskip til innlendu skipasmíðastöðvarinnar. Það er því enginn vafi á því, að eins og háttar til í þessum málum nú, er nauðsynlegt, ef á að koma hér af stað einhverri verulegri skipasmíði innanlands, að útvega allmikið fjármagn til þess að standa undir lánum sambærilegum þessum erlendu, sem ég hef nú verið að minnast á. Ég held því, að eitt af því, sem þurfi að gera í þessum efnum, sé það, að íslenzk stjórnarvöld verði að standa fyrir því að taka talsvert mikið erlent lán, t.d. á fyrsta stigi, sem nemur 200–300 millj. kr., og nota það lán í þessu skyni með sérstökum samningi við Fiskveiðasjóð til þess á þennan hátt að gefa íslenzku skipasmíðastöðvunum kost á því, að þær geti raunverulega starfað á svipuðum grundvelli og skipasmíðastöðvarnar hér í okkar nágrannalöndum gera. Svona er þessu t.d. fyrirkomið í Noregi. Þar eru okkar fiskibátar byggðir í mjög mörgum tilfellum í litlum, og að manni sýnist, mjög ófullkomnum skipasmíðastöðvum. Á ýmsum stöðunum, þar sem ég hef komið, er í rauninni vafasamt að tala um það, að þar séu skipasmíðastöðvar fyrir hendi. Útbúnaðurinn er ekki meiri en svo. Það er enginn vafi á því, að þær stöðvar, sem þar eiga hlut að máli, hafa ekki aðstöðu til þess að veita þau lán með þessum tiltölulega dýru skipum, sem þau veita, nema vegna þess að í gegnum þeirra ríkisvald hefur verið komið upp kerfi, sem aðstoðar þessar stöðvar á þennan hátt, að þær geta veitt þau lánskjör, sem íslenzkir fiskiskipakaupendur njóta. Af þessum ástæðum er það, að við leggjum til í þessu frv. að veita ríkisstj. þegar í stað heimild til þess að taka a.m.k. 200 millj. kr. að láni erlendis eða þá innanlands, að því leyti til, sem það þætti hentugt, en ég vek athygli á því, að það getur ekkert verið því til fyrirstöðu að taka erlent lán í þessu skyni, því að þau eru, þó að með öðrum hætti sé, tekin hvort sem er í þessu skyni. Þegar við kaupum hin fullsmíðuðu skip, t.d. frá Noregi, erum við að taka erlend lán og það til heldur stutts tíma í sambandi við bygginguna, og það gætum við vitanlega alveg eins gert, þó að ríkið tæki eitt stærra lán fyrir nokkurn tíma, sem notað yrði í þessu skyni, og þá samið á sérstakan hátt við Fiskveiðasjóð um það, að þessi lánsupphæð yrði notuð á sambærilegan hátt og lánin, sem fylgja hinum fullsmíðuðu skipum erlendis frá.

Það er skoðun okkar flm., að þetta stóra hagsmunamál, sem innlend skipasmíði er fyrir marga aðila, verði ekki leyst, nema með forgöngu ríkisvaldsins. Það verði að vera ríkið, sem ákveður það fyrst að ráðast í byggingu tiltekins fjölda skipa, útvega fjármagn til framkvæmdanna, semur síðan við Fiskveiðasjóð um lánsfyrirkomulag og gengst fyrir því, að samið sé við þær innlendu skipasmíðastöðvar, sem taldar eru hæfar til þess að taka að sér svona verk, um það að ráðast í þessar framkvæmdir. Og framkvæmdir af þessu tagi þurfa að vera í það stórum stíl, að þær spanni í rauninni yfir nokkur ár, því að það skiptir skipasmíðastöðvarnar öllu máli, hvort verið er að semja við þær um smíði á einu skipi eða e. t. v. smíði á allmörgum skipum, að ég tali nú ekki um það, ef samningarnir geta verið um smíði á nokkrum skipum af nákvæmlega sömu gerð í hverri skipasmiðastöð fyrir sig. Forganga ríkisstj. í svona málum hefur átt sér stað hér áður. Það var einmitt þetta, sem gerðist á nýsköpunarárunum eða 1945. Þá var það, að ríkið hafði forgöngu um það að láta byggja fyrir Íslendinga yfir 30 togara í Englandi, sá um samningana og hafði forgöngu um að ákveða gerð og stærð skipanna og síðan á eftir um sölu skipanna til þeirra, sem áttu að reka þau. Og þetta gerðist einnig með forgöngu ríkisins í sambandi við byggingu allmargra fiskibáta úti í Svíþjóð um þetta sama leyti, og var einnig framkvæmt hér með sérstökum samningi, sem þá var gerður einnig við allmargar skipabyggingastöðvar hér innanlands. Í fleiri tilfellum hefur þetta komið til, svo að fordæmin liggja alveg fyrir um það, að ríkisvaldið taki að sér forgöngu í svona efnum. Það er vitað, að í nokkrum einstökum tilfellum nú síðustu árin hefur tekizt með nokkurri aðstoð af hálfu ríkisvaldsins að koma af stað byggingu fiskiskipa, þótt í smáum stíl sé. Þannig hafa verið byggð stór og myndarleg síldveiðiskip í byggingarstöð á Akureyri og einnig hér sunnanlands. Með því að ríkisstj. hafði þar nokkra forgöngu um, tókst að leysa fjármál byggingarstöðvanna í þeim einstöku tilfellum í gegnum viðskiptabanka hér og Fiskveiðasjóð. En sú fyrirgreiðsla öll var það takmörkuð og þannig, að hún gat í rauninni ekki náð nema til nokkurra einstaklinga, og hún getur ekki nægt sem nein allsherjarregla. Ég held, að það, sem til þurfi að koma, sé einmitt það, sem lagt er til í þessu frv., að það sé ákveðið, að ríkisstj. hafi forgöngu um allmyndarlegan áfanga í þessum efnum með því að gera samninga við byggingarstöðvarnar og útvega nauðsynlegt fjármagn, svo að hægt sé að koma þessum framkvæmdum á hliðstæð stig, eins og þekkist hér í okkar viðskiptalöndum, þaðan sem við höfum aðallega keypt okkar fiskiskip.

Ég skal nú ekki hafa um þetta öllu fleiri orð hér, en ég vænti þess, að þessi mál öll séu búin að fá þannig viðurkenningu, m.a. hjá stjórnarvöldum landsins, að þau taki frv. eins og þessu vel. Þó að e. t. v. þyki rétt að breyta hér einhverjum þeim ákvæðum, sem fitjað er upp á í þessu frv., er ekkert nema gott um það að segja, ef megintakmarkinu yrði náð, sem felst í því að koma hér af stað allmyndarlegu átaki við að byggja hér nokkuð mörg fiskiskip í innlendum skipasmiðastöðvum og að útvegað verði nægilegt fjármagn, til þess að hægt sé að standa að þessu á myndarlegan hátt, en við flm. leggjum áherzlu á það, að við teljum, að þetta verkefni verði ekki leyst nema með beinni forgöngu ríkisins. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til fjhn.