30.11.1967
Efri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

35. mál, framfærslulög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. við þetta frv., er það flutt að ósk borgaryfirvalda Reykjavíkur, og er sú ósk fram komin í beinu framhaldi af endurskipulagningu félagsmálastarfsemi á vegum borgarinnar. Í aths. er fskj. prentað, sem skýrir í rauninni, hvað fyrir mönnum vakir með flutningi þessa frv., en með þeirri samþykkt, sem þar greinir frá, voru ýmsir þættir félagsmálastarfsemi borgarinnar sameinaðir undir eina stjórn og slík sameining kallar á breytingar nokkurra ákvæða í núgildandi lögum varðandi þær stofnanir, sem hér er um að ræða, og þ. á m. þá breytingu á framfærslulögunum, sem nú er hér til umr.

Frá skipan félagsmálaráðs, sem samkv. frv. mundi þá taka við störfum framfærslunefndar, er greint í samþykkt þeirri, sem frv. fylgir sem fskj., eins og ég áður sagði, og sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um það atriði. Á það má benda, að meginmarkmið þeirrar breytingar eða endurskipulagningar, sem hér hefur átt sér stað, er það, að einn og sami starfsmaður eða starfshópur, sem á vegum borgarinnar starfar, fjalli um öll þau málefni félagslegs eðlis, sem varða hvern einstakling eða hverja fjölskyldu, en eins og hefur háttað, hafa málefni eins og sama aðila oft verið til meðferðar í fleiri stofnunum eða hjá fleiri aðilum og hefur það að sjálfsögðu oft torveldað heppilegustu lausn þeirra vandamála, sem þarna er verið að fást við.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en eins og nál. á þskj. 73 ber með sér, hefur heilbr.- og félmn. lagt til, að frv. verði samþ., en einn nm., Björn Jónsson, var fjarverandi, þegar málið var afgreitt í n.