19.02.1968
Neðri deild: 63. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

117. mál, olíuverslun ríkisins

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Ég hef flutt hér á nokkrum þingum frv. sama efnis og það frv., sem hér liggur nú fyrir til umræðu, um Olíuverzlun ríkisins. Málið hefur ekki fengizt afgr. hér á hv. Alþ., en mér þykir full ástæða til þess að leggja það ennþá hér fram í von um, að það fái nú að þessu sinni fullnaðarafgr. hér á hv. Alþ.

Með þessu frv, er lagt til, að ríkið taki í sínar hendur allan innflutning á olíuvörum til landsins, taki að sér heildsölustarfsemi með þessar vörur og síðan að verulegu leyti einnig smásöluna og dreifinguna á þessum vörum út um landið.

Það er vitað, að það eru aðallega þrjú stór olíufélög, sem nú hafa með olíusölu landsmanna að gera. Það má segja, að svo sé komið, að þessi þrjú félög hafi í raun og veru einokunaraðstöðu í sambandi við þessi viðskipti. Það hefur sérstaklega orðið áberandi nú hin síðari ár, þegar þessari verzlun er orðið háttað á þann veg, að það er ríkið sjálft, sem annast í rauninni með

milliríkjasamningum innkaup á mestallri olíu til landsins, og aðrir hafa ekki með slíka samninga að gera, en sá háttur hefur hins vegar verið hafður á, að þegar ríkið hefur gert slíkan milliríkjasamning um kaup á olíu, hefur sá samningur verið afhentur olíufélögunum þremur til framkvæmda, og þannig hafa þau fengið algera einkaaðstöðu til innflutnings á olíu og til þess að hafa með höndum olíuverzlunina í landinu. Aðrir, sem meira að segja skv. lögum hefðu átt að hafa það með höndum að annast olíuverzlun, eins og t.d. olíusamlög, sem mynduð hafa verið skv. sérstökum 1. frá Alþ., hafa ekki getað fengið olíu til þess að verzla með, nema með því að eiga samninga við eitthvert af þessum þremur olíufélögum, og þau hafa því getað sett þessum olíusamlögum þá kosti, sem þau hafa viljað og ákveðið, t.d. í þeim skilmálum, sem þau hafa sett, útsöluverð á olíu og allar sölureglur olíusamlaganna, og þannig hafa olíusamlögin orðið í framkvæmd að vera nokkurs konar umboðsaðilar olíufélaganna.

Þessi þrjú stóru olíufélög hafa, eins og kunnugt er, byggt upp í rauninni þrefalt olíudreifingarkerfi um allt land, því að þau starfa sjálfstætt hvert út af fyrir sig þannig séð, og það fer ekki fram hjá neinum, sem virðir þessi mál fyrir sér, að það er þegar búið að leggja í margfalt meiri stofnkostnað í sambandi við olíuverzlunina í landinu, en hefði verið þörf á, ef um t.d. einn aðila hefði þar verið að ræða. Það er t.d. alveg augljóst, að olíufélögin hafa nú á síðustu árum lagt í mikinn stofnkostnað í sambandi við benzínafgreiðslustöðvar hér í Reykjavík og í stærstu kaupstöðum landsins, langt umfram það, sem þörf hefði verið á, ef ekki hefði verið um að ræða ákveðna verzlunarsamkeppni á milli þessara aðila í sambandi við afhendingu á þessari vöru.

En þrátt fyrir þessa samkeppni á milli félaganna hefur það þó komið mjög greinilega í ljós, að það er ekki um neina venjulega og heilbrigða verzlunarsamkeppni á milli þeirra að ræða. Þau fylgja í rauninni alltaf sömu verðlagningu, koma sér algerlega saman um alla aðalsöluskilmála, og virðist þar ekki vera um neina samkeppni að ræða. Og þó stórir olíukaupendur,jafnvel opinberir aðilar, hafi leitað eftir tilboðum í sambandi við mikil olíuviðskipti, hefur það komið greinilega í ljós, að þar standa olíufélögin alltaf saman og senda öll inn sams konar tilboð, þar er aðeins um það að velja, hvort maður vill fremur verzla við eitt eða annað, en um verulega samkeppni er ekki þarna að ræða, sem kemur til dæmis fram í mismunandi verði eða söluskilmálum. Það má því segja, að sameiginlega hafi þessi þrjú félög einokunaraðstöðu í sambandi við þessa þýðingarmiklu verzlun, sem verzlun með olíu er.

Nú liggur það fyrir, að olíuvörur eru einhverjar nauðsynlegustu vörur, sem landsmenn þurfa á að halda. Það er meira flutt inn og verzlað með af olíuvörum á Íslandi en á nokkurri annarri vörutegund. Við verðum að nota mjög mikið af olíu í sambandi við rekstur á okkar aðalatvinnuvegum, og þá ekki sízt sjávarútveginum. Einnig er svo háttað hér í okkar landi, að við verðum að hita upp bæði íbúðarhúsnæði og annað húsnæði, sem upp þarf að hita, opinberar byggingar og annað þess háttar, að verulegu leyti með olíukyndingu. Þetta hefur orðið til þess, að olíunotkun í landinu er mjög mikil hlutfallslega, miðað við íbúafjölda. Hér er auðvitað um mjög viðkvæma vöru að ræða í allri verðlagningu og sem segja má, að virki tiltölulega fljótlega á hag svo að segja hvers manns í landinu.

Nú á síðari árum er farið mikið að ræða um það, að nauðsynlegt sé að koma fyrir meiri hagræðing á ýmsum sviðum í okkar atvinnulífi en verið hefur, og einmitt núna síðustu árin hefur verið mikið um það rætt, að það væri orðin knýjandi nauðsyn að taka t.d. ýmsa þýðingarmikla þætti í atvinnurekstri landsmanna til rækilegrar endurskoðunar og umskipulagningar. Nú er t.d. það boðað, að rétt sé með endurskipulagningu að stefna að því að leggja niður allmörg hraðfrystihús í landinu, allmargar fiskvinnslustöðvar, af því að þessar fiskvinnslustöðvar séu orðnar of margar, þær séu ekki nægilega hagkvæmar í rekstri, og með beinum opinberum fjárhagsráðstöfunum er unnið að þessu nú, skv. yfirlýsingum frá opinberum aðilum. Ég efast að vísu ekkert um það, að það er orðið þannig háttað á nokkrum stöðum, að þar hefur verið um nokkra yfirbyggingu að ræða í sambandi við fiskvinnsluna, sérstaklega með tilliti til þess, hvernig undirstaðan í þeim iðnaði hefur þróazt að undanförnu, og við gætum vel komizt af með eitthvað færri frystihús en eru rekin í landinu, en þó er mér það ljóst, að í mjög mörgum tilfellum eru þau frystihús, sem nú er talað um af opinberri hálfu að leggja niður, atvinnustöðvar, þar sem fjöldi fólks á alla sína afkomu undir að verði reknar áfram, jafnvel þótt þessar atvinnustöðvar séu ekki að öllu leyti hagkvæmar í rekstri. En það þykir eigi að síður nauðsynlegt að taka nokkuð hart á skipulagsmálunum í þessum efnum, jafnvel þar, sem um það er að ræða, að það þurfi að leggja niður atvinnustöðvar, af því að þær séu ekki nægilega hagkvæmlega uppbyggðar.

En er þá ekki, þegar menn eru komnir að þessum þætti í sambandi við atvinnufyrirtækin, einnig komið að því, að það sé þörf á að líta eftir hagkvæmninni í ýmsum öðrum þáttum okkar atvinnureksturs í landinu? Hvað er t.d. að segja um rekstur olíufélaganna? Er þörf á því fyrir okkur að halda uppi þreföldu olíudreifingarkerfi, ekki aðeins allt of miklum reksturskostnaði í þeim efnum heldur einnig allt of þungum reksturskostnaði, og mikill reksturskostnaður í þessum efnum þýðir auðvitað í framkvæmd of hátt olíuverðs sem eykur á rekstrarhalla jafnt frystihúsa, fiskiskipa og annarra þátta í okkar atvinnulífi? Of hátt olíuverð þýðir einnig, að útgjöld heimilanna verða þar af leiðandi hærri en hefði þurft. Er þá ekki fyllilega eins mikil ástæða til þess, þegar augu manna eru að opnast fyrir því, að það þurfi að beita hagræðingu á sem flestum sviðum og spara þannig óþarfa útgjöld, að röðin fari einnig að koma að því, hvort við eigum ekki að breyta því skipulagi, sem við höfum búið við í sambandi við olíuverzlunina í landinu?

Það er auðvitað ekkert um það að efast, að olíufélögin þrjú, sem byggt hafa upp sína starfsemi á undanförnum árum og lagt í þá uppbyggingu býsnamikið fé, sem þau hafa auðvitað tekið af olíukaupendum í landinu, eru þessari umskipulagningu andvíg. Þau hafa staðið á móti öllum till., sem í þessa átt fara, og mitt frv. gerir, og nánustu stuðningsmenn þessara olíufélaga hafa til þessa staðið vörð um þeirra hagsmuni, en ég á erfitt með að trúa því, að þegar að því er komið, að það þykir jafnvel nauðsynlegt að leggja niður undirstöðuatvinnufyrirtæki, eins og t.d. fiskvinnslustöðvar, þá þyki rétt að halda áfram slíku eyðsluskipulagi og við höfum búið við í okkar olíusölumálum á undanförnum árum. Ég held, að það sé óvíða, sem það liggur eiginlega beinna við en í sambandi við olíuverzlunina, að þarna verði gerð á skipulagsbreyting til hins hagkvæmara. Þessi breyting er tiltölulega einföld. Hér þarf ekki að koma til nein verulega víðtæk bylting. Fyrirkomulagið er það, eins og ég hef bent hér á áður, að ríkið annast nú að forminu til innkaupin á öllum aðalolíuvörum landsmanna með sérstökum milliríkjasamningi. Það væri því tiltölulega auðvelt fyrir ríkið að taka sjálft að sér að framkvæma þennan samning, taka aðalbirgðastöðvar olíufélaganna annað hvort á leigu eða með leigunámi, nú jafnvel að taka stöðvarnar eignarnámi. Það er einnig til sú leið, að ríkið bæti síðan smám saman við sig fleiri og fleiri þáttum í sambandi við olíusölumálin. Ef þetta væri gert, gætu fyrst þau allmörgu olíusamlög, sem mynduð hafa verið í landinu á venjulegum samvinnufélagagrundvelli skv. gildandi lögum, fengið aðstöðu til þess að fá olíuvörur á eðlilegu heildsöluverði og selja olíuna síðan á réttu kostnaðarverði til meðlima samlaganna. Ég efast ekkert um það, að ef þetta skipulag væri tekið upp, væri hægt að lækka olíuverðið í landinu til mikilla muna, sérstaklega til ákveðinna þátta.

Ég minnist þess, að fyrir allmörgum árum höfðu þessi olíusamlög nokkra möguleika í þessum efnum. Þá stóð nefnilega þannig á, að í eigu ríkisins var þó nokkuð af olíubirgðum liggjandi í landinu, olíu, sem hafði að vísu komið hingað í sambandi við styrjaldarástand og þótti rétt að eiga hér í stórum birgðageymum, og þá var ýmsum olíusamlögum gefinn kostur á því að fá olíuna keypta á réttu heildsöluverði eða sama verði og vitað var, að stóru olíufélögin fengu þá olíu keypta á. Útkoman varð sú, að t.d. nokkur olíusamlög útvegsmanna, sem starfandi voru, lækkuðu olíuverðið til báta og skipa stórkostlega frá því, sem verið hafði hjá olíufélögunum. Þessu fékkst að vísu ekki framhaldið mjög lengi, því að eftir kröfu olíufélaganna voru síðan þessi olíusamlög skylduð til þess að selja olíuna til báta og skipa á sama verði og olíuhringarnir gerðu, og það er það ástand, sem enn ríkir í dag.

Ég tel, að í þessum efnum, reyni nú á, hver vilji er fyrir hendi til þess að koma fram verðlækkun á þýðingarmikilli nauðsynjavöru í landinu, og það reyni einnig á varðandi þetta mál, hvort hugur fylgir máli í þeim efnum, að vilja koma á hagræðingu í sambandi við rekstur okkar atvinnulífs eða ekki, eða hvort það sé svo, að sérhagsmunir nokkurra stórra félaga eiga að sitja hér í fyrirrúmi áfram.

Mér skilst, að hæstv. ríkistj. hafi tekið undir till. um það, sem fram hefur komið í sambandi við verzlunina í landinu, að skipuð skuli n. til þess að kanna fyrirkomulag verzlunarinnar almennt, og hvort það sé hægt að koma á hagkvæmari skipan fyrir landsmenn en nú er. Ég efast ekkert um það, að það sé mikið verk og býsna flókið að taka til endurskoðunar allt verzlunarfyrirkomulag landsmanna, þ.e.a.s. það fyrirkomulag, sem nú er ríkjandi á innflutningi almennt á vörum til landsins og dreifingu þeirra og sölu um allt land. Það er um mörg mjög mismunandi svið að ræða. En ef ríkisstj. meinar eitthvað með því, að n. verði sett í það mál, ef hún meinar eitthvað í þá átt, ef hún hugsar sér raunverulega að koma þar á einhverjum teljandi breytingum til hagsbóta fyrir neytendur í landinu, tel ég einsýnt, að hún eigi sérstaklega að byrja á þeim þætti, sem þetta frv. fjallar um, þ.e.a.s. á innflutningi og verzlun með olíuvörur, því að það er ekki yfirgripsmeira mál en svo, að það er hægt tiltölulega fljótlega að komast að niðurstöðu um það, gangi menn til athugunar á því, að það mundi vera hagkvæmt fyrir landsmenn að breyta þar um skipulag.

Í þessu frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., er bent á það, að það skuli verða ríkið sjálft, sem tekur að sér þessa verzlun, og hér skuli verða um ríkisverzlun að ræða. Auðvitað væri hægt að hugsa sér fleiri eða aðrar leiðir, þó þannig, að olíuverzlunin væri gerð hagkvæmari en hún er nú í dag, en við Alþb.- menn, sem oftsinnis höfum lagt áherzlu á það, að þessu skipulagi yrði komið á varðandi þennan verzlunarþátt, teljum, að hagkvæmast væri, að ríkið tæki að sér þessa verzlun og yfirtæki starfsemi olíufélaganna. Það hefur einnig komið í ljós, að það getur í mjög mörgum tilfellum verið hagkvæmt í sambandi við utanríkisviðskipti landsins, að þessi verzlun sé að mestu leyti í höndum opinberra aðila, það getur verið þýðingarmikið að beina innkaupunum á olíu til ákveðinna landa fremur en til annarra, það getur verið hagstætt í sambandi við útflutningsverzlun landsmanna, og þessum aðferðum hefur m.a. verið heitt nú á nokkrum undanförnum árum. Þetta styður það einnig, að það sé einmitt ríkið, sem taki að sér þessa starfsemi.

Eins og ég sagði, hefur það verið yfirlýst stefna okkar Alþb.-manna, að það ætti að koma þessum málum fyrir á þennan hátt, og ég minnist þess, að fyrir rétt rúmu ári síðan kom það fram opinberlega hjá formanni Alþfl., hæstv. utanrrh., að hann taldi einnig, að hér væri um stefnumál Alþfl. að ræða og hann styddi þessa till., vildi vinna að því að taka upp þetta skipulag. Það eru því fleiri en við Alþb.-menn, sem bendum á þetta, og ég vona, að þótt málið hafi ekki náð fram að ganga til þessa, sé skilningur einnig í öðrum flokkum að aukast fyrir þessu máli, og að þessu sinni verði hægt hér að ná verulegum árangri og helzt af öllu með því að samþ. frv. í öllum aðalatriðum, eins og það liggur hér fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða hér frekar um málið að þessu sinni. Ég hef rætt um þetta hér á nokkrum þingum, og málið er því frá minni hálfu allmikið rætt, og ég hygg líka, að það liggi nokkuð ljóst fyrir mönnum, hvað hér er um að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr.