29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

130. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal mjög stytta mál mitt. Það var fyrst efnisleg leiðrétting við það, sem hv. síðasti þm. sagði. Það er ekki rétt, að umr. á Alþ. um launabindinguna hafi ráðið úrslitum í því máli, heldur voru það samningar utan þings á milli forystumanna verkalýðshreyfingarinnar og þáv. forsrh., Ólafs Thors, í samráði við ríkisstj. Það er rétt, að þessi staðreynd sé sögð, af því að það er sannleikur málsins, sem mér er að fullu kunnur. Svo geta menn haft sína skoðun á efni málsins að öðru leyti. En svona gerðust þessir hlutir.

Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að oft er æskilegt, að frv. séu fyrir fleiri þingum en einu. Það er gamall siður. Honum hefur verið fylgt af þessari stjórn eins og öðrum. Þó að frv. séu lögð fram, er engan veginn ætíð ætlunin að fá þau afgreidd á því sama þingi. Ég vil segja það, að ég hef reynt að leggja áherzlu á, að sem flest frv. væru til í upphafi þings. Það hefur reynzt ógerlegt, þegar af mjög takmörkuðum starfskröftum sem hér er yfir að ráða. Það liggur í eðli okkar þjóðfélags, þeirri mannafæð, sem okkur er oft fjötur um fót. Eðlileg afleiðing af því er svo sú, að frv. dreifast yfir þingið. Það má segja, að það geri ekki svo mikið til, einkanlega ef menn hafa það í huga, sem hv. þm. nefndi, að oft er það eðlilegt, að frv. séu fyrir fleiri þingum en einu. Það er beinlínis æskileg málsmeðferð.

Ég vil taka það fram, að ég vildi ekki segja neitt um réttmæti kappræðufunda út af fyrir sig. Það er staðfest af þeim hv. þm., sem gerðu ahs. við mitt mál, að það form er nú orðið úrelt viðast hvar. Það getur átt fyllilega rétt á sér, en það er orðið úrelt. Ég tek aftur undir með hv. 1. þm. Austf. um það, að það virðist e.t.v. vera að verða á því nokkur breyting aftur, að menn óski eftir að hafa, eins og sagt er, málsvara hins illa, advocatus diaboli, viðstaddan til þess að deila við, einnig í flokksfélögunum. En þetta er dálítið annað. Sitthvað er, hvort menn hafa almenna kappræðufundi með alveg takmörkuðum ræðutíma, þar sem margir flokkar koma saman, en þeir fundir verða óneitanlega alltaf mjög erfiðir til útskýringar málum. Við skulum segja það alveg eins og er, vegna þess að það verður þá meira karp en rökræður. Hitt er miklu æskilegra, að tveir flokkar komi saman og leiði saman hesta sína, svo að það séu tvær gagnstæðar skoðanir. Þetta tel ég út af fyrir sig vera æskilegt, og ungir menn hafa leiðzt inn á þetta hér í stjórnmáladeilunum á seinni árum. Mér finnst þetta vera góðs viti, eins og hv. 1. þm. Austf. sagði, að menn vilja knýja fram rök beggja vegna. Þá er eðlilegt, að þeir, sem trúa hvorir á sinn málstaðinn, komizt báðir að. En það verður skýrara með því, að það séu aðeins tveir flokkar, heldur en ef það eru margir flokkar, sem hafa mjög takmarkaðan tíma og þá jafnsundurslitið í mörgum umr. eins og er í gamaldags — ég nota það orð — kappræðufundum úti á landi og eins og enn er í útvarpsumr. frá þingi. Ég get ekki með nokkru móti talið það umræðuform heppilegt. Ég tel það vera mjög óæskilegt. Það er ekki til þess að upplýsa mál, og það er til þess að gefa mönnum ranga mynd af því, sem hér gerist.

Og ég vil segja það út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þó að það form sé lagt niður, er enginn, sem segir, að það eigi að hætta að útvarpa umr. til fulls frá Alþ., þegar það á við. Það er einmitt hægt eftir því nýja formi, eins og hann sagði, að gert hefði verið hvað eftir annað í Noregi og þótt mjög gott útvarps- og sjónvarpsefni. Nærri því öll þjóðin hefur horft á þetta með athygli. Það er vegna þess, að þetta eru lifandi umr. en ekki þær tilbúnu umr., sem við höfum vanið okkur á hér.

Mín höfuðaths. við þetta frv. er sú, að ég efast mjög um, ég segi ekki meira á þessu stigi, en ég efast mjög um, að það sé rétt að sameina þetta tvennt, vegna þess að það verði til þess, að menn fái ofnæmi fyrir því, sem hér er að gerast. Það má ekki þreyta menn um of, og það er líka ekki eðlilegt að hafa margvíslegan hátt á þeim fréttaflutningi, sem berst til fólksins frá Alþ. Ég tel, að við eigum að hafa kjark til þess að velja þarna á milli eins og aðrir hafa gert, og ég vék athygli á því, að það hefur ekkert þjóðþing, svo við vitum, tekið upp þann hátt, sem hér hefur verið tíðkaður frá 1931, að því ég hygg. Þetta er algert einsdæmi og hefur ekki gefizt vel á Íslandi.

Ég tek undir það, að menn vilja ekki missa almennar umr. eins og hæstv. forseti Sþ. sagði. En þessar almennu umr. geta komið og eiga að koma í þessu nýja formi sem lifandi umr., þar sem öll sjónarmiðin koma fram, og ef verkast vill, þá umr. heila daga. Þetta liggur allt til frekari athugunar, og ég geri mínar aths. ekki í þeirri veru, að ég segi, að þetta komi ekki til greina. Ég segi, að ég hafi miklar efasemdir um, að þetta sé heppilegt og tel, að menn verði að gera upp sinn hug um breytingu. Það má e.t.v. vera, að það sé enn ekki tímabært að breyta þessu, menn þurfi að prófa sig betur áfram m.a. í sjónvarpi og útvarpi með frjálsum viðtölum og samræðum, eins og nú er farið að tíðkast, áður en farið er að gera þetta frá þinginu. Ég er alveg til viðtals um það sjónarmið. Eins er eðlilegt, að kannske það verði beðið með breytingu, þangað til sjónvarp er komið um allt land. Það er alveg til athugunar líka. En ég vek athygli á því, að ef fyrir mönnum vakir að stytta útvarpsumr. í núv. formi, þarf enga þingskapabreytingu til þess. Um það getum við komið okkur saman um, fulltrúar flokkanna, hvaða dag, sem við viljum, að haga framkvæmdinni þannig. Þetta hefur, eins og hv. 1. þm. Austf. sagði, verið stórlega stytt, og alltaf áður en umr. fara fram hittumst við til þess að tala um, hvað þær eigi að vera langar. Yfirleitt hefur það verið svo, að ég hef lagt til, að þær yrðu sem stytztar, en hv. 1. þm. Austf., að þær yrðu sem lengstar, og ég vildi, að hann í þessu sem öðru nálgaðist minn skoðunarmáta sem mest og mundi fagna því. En látum það vera.

Ég vil svo segja út af því, hvort umr. hér séu lengri heldur en tíðkast yfirleitt annars staðar, þá er ekki til fyrirmyndar að vitna í þingsköp Senatsins í Bandaríkjunum, vegna þess að þó að það sé mjög göfug stofnun eins og við vitum, telja a.m.k. allir frjálslyndir menn, að þingsköpin þar séu ákaflega úrelt og þurfi gagngerðrar endurskoðunar við, svo að það er viti til að varast, en ekki til að vitna í.

Um lengd umræðna má endalaust deila í hverju einstöku tilfelli. En ég man það, að Hermann Jónasson sagði einu sinni við mig, þegar hann var forsrh.: Ég og stjórnarstuðningsmenn verðum mjög að stytta mál okkar, vegna þess að annars fáizt þið aldrei til þess að hætta, sagði Hermann. (Gripið fram í: Það gilti nú þá.) Það gilti nú þá já. Nú segi ég það sama og Hermann sagði þá. Ég skal ekki segja, að ég tali svo ákaflega stutt, en a.m.k. stjórnarstuðningsmenn leggja yfirleitt ekki orð í belg, vegna þess að ef þeir svöruðu eitthvað í líkingu við það, sem hv. stjórnarandstæðingar tala, vitum við það, að umr. yrðu oft endalausar. Þetta er ekki sagt neinum til áfellis. Svona er þingið og þess vegna getur þetta stundum leitt til vandræða. Menn forðast vandræði með því að sá, sem ber ábyrgðina hverju sinni, dregur sig í hlé og lætur hinn tala. Í þessu væri betra að fara eftir fordæmi brezka þingsins heldur en ameríska Senatsins. Og ég tel, að þetta hljóti að vera mjög til athugunar. Ég játa það hins vegar, að ríkisstj. nú hefur ekki sérstaklega undan neinu að kvarta. Það er alltaf hægt að beita þingsköpum, ef menn vilja, en við höfum viljað forðast það og það er betra, að menn komi sér saman um skaplega þingþætti heldur en það sé verið að deila um form, vegna þess að það er nóg að deila um efni málsins.