26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

169. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. þessa máls tók fram áðan í ræðu sinni, er þetta frv. flutt af allshn. samkv. beiðni hæstv. ríkisstj., og er því hér raunverulega um stjórnarfrv. að ræða. Þetta er þá þriðja stjórnarfrv., um breyt. á áfengisl., sem flutt er á fáum árum. Það segir sína sögu um áhuga hv. alþm. á því að afgreiða slík mál, og í ofanálag má bæta því við og benda á, að þetta frv. kemur nú fyrst fram í lok marzmánaðar, þegar jafnvel er ráðgert að þingið eigi eftir fáar vikur, ef ekki fáa daga til að ljúka störfum. Þetta sýnir svona hér um bil alvöruna í málinu.

Á þinginu 1963 flutti hæstv. ríkisstj. frv. svipað þessu. Þar var lagt til að auka nokkuð hömlur við því að selja eða afhenda æskufólki áfengi. M.a. með því að fyrirskipa, að ungmenni skuli sanna aldur sinn með vegabréfi, þegar þau ætla sér að kaupa áfengi, og auk þess var lagt til í því frv., að óheimilt skyldi að flytja ölvuð ungmenni í leigubifreiðum og almenningsvögnum, nema þau sönnuðu það á sama hátt, að þau væru yfir aldursmarkinu, sem tilgreind eru í l. Þá var einnig lagt til í því frv. að banna dvöl ungmenna yngri en 18 ára á vínveitingahúsum eftir kl. 8 að kvöldi nema í fylgd með forráðamönnum sínum. Og loks var lagt til að þyngja nokkuð refsingar við áfengislagabrotum.

Tilefni þessa stjórnarfrv. 1963 var atburður, sem gerðist um hvítasunnu það ár, en þá hafði æskufólk úr Reykjavík fjölmennt austur í Þjórsárdal og haft með sér miklar birgðir af áfengi. Þar var síðan setzt að sumbli og þarf yfirleitt ekki að vera að lýsa frekar, hvað þar gerðist. Það ætti mönnum að vera nokkurn veginn í fersku minni. Hæstv. ríkisstj. hafði skipað þriggja manna n. til þess að gera till. út af þessum atburði, og var þetta frv. árangurinn af því nefndarstarfi.

Þetta frv. frá 1963 fór til allshn., og hún skilaði síðan áliti í tvennu lagi. Báðir n.— hlutarnir fluttu brtt. við frv., og allverulegar brtt. komu frá meiri hl. n. En þessar till. stefndu samt eiginlega sín í hverja áttina. Sérstaklega vöktu athygli sumar brtt. meiri hl. n., t.d. þær, að heimilað skyldi að selja unglingum 18 ára og eldri áfengi í stað 21 árs að aldri, það var verið að rýmka ákvæðin, svo að sem flestir gætu notið þess að kaupa sér áfengi. Þá áttu samkv. till. meiri hl. n. unglingar að vísu að sanna aldur sinn með vegabréfi, ef þeir vildu fá áfengi, þó aðeins ef þess væri krafizt. Ef þess væri ekki krafizt, þurfti ekkert að vera að sanna neitt um aldur sinn. Fleira mætti nefna í þessum brtt. meiri hl. allshn. þá. Auk þess voru fluttar á þessu þingi ýmsar brtt. frá einstökum þm. Umr. urðu allmiklar um þetta mál og nokkrar deilur, og fór svo, að frv. varð ekki útrætt.

Næst gerist það í málinu, að á næsta þingi á eftir, 1964, er samþ. þáltill. um, að Alþ kjósi mþn. í áfengismálið og skyldi hún rannsaka allt ástand í áfengismálum þjóðarinnar og gera till. til úrbóta. N. var svo kosin og skipuð 7 alþm. Mþn. skilaði langri og ítarlegri skýrslu tveim árum seinna ásamt frv. um breyt. á áfengisl. Í því frv. voru þó engin ákvæði önnur en þau, er allir nm. urðu sammála um í mþn. Þessi háttur var á hafður í ákveðnum tilgangi, sem sé þeim, að þá væru meiri líkur til þess, að frv. fengi greiðari gang gegnum Alþ., ef ekki væru nein atriði önnur í þessu frv. en þau, sem allir nm. urðu sammála um. Þetta frv. flutti svo hæstv. ríkisstj. á siðasta þingi óbreytt, eins og það kom frá mþn.

Í þessu frv. voru nokkur ákvæði, sem ekki voru í hinu fyrra. Þar á meðal má nefna ákvæði um það að gera vínveitingahúsum það að skyldu að hafa vínveitingalaust fjórða hvert laugardagskvöld, en þó fullkomna þjónustu að öðru leyti. Var tilgangurinn auðvitað sá, að æskufólki gæfist kostur á að sækja þó einhvern tíma þessa skemmtistaði, sem það sækir svo mjög, án þess að verða fyrir barðinu á áfengishættunni. Í öðru lagi var það ákvæði í þessu frv., að ef æskufólk eða hvaða fólk, sem var, vildi kaupa áfengi, skyldi það sanna aldur sinn með nafnskírteini með mynd, og það var undantekningarlaust ákvæði. Á annan hátt töldu nm., að ekki yrði skorið til fullnustu úr um aldurinn, enda voru þá komin lög um nafnskírteini, og það er plagg, sem hver einasti maður í landinu á nú að hafa. Í þriðja lagi var það ákveðið í þessu frv., að yngri unglingar en 18 ára skyldu ekki eiga dvöl á vínveitingahúsum eftir kl. 8 að kvöldi, nema í fylgd með foreldrum sinum. Í hinu frv. var það „með forráðamönnum“, sem gátu orðið margs konar. Það var til að þrengja þetta einnig, að unglingar dveldu á þessum vínveitingahúsum. Í fjórða lagi var það ákvæði tekið upp í þetta frv., að allar áfengissendingar skyldu greinilega merktar þannig, að sjá mætti á umbúðunum, hvað væri innihaldið. Í fimmta lagi var lögreglustjórum heimilað samkv. ákvæðum þessa frv. að banna um stundarsakir afhendingu áfengissendinga, þar á meðal úr pósti, er sérstaklega stæði á. Var þetta hugsað þannig, að ef áfengisútsölu væri einhvers staðar lokað af sérstökum ástæðum, dygði ekki, að menn gætu samt sent áfengi inn í héraðið í pósti, og lögreglustjóra skyldi heimilað að loka slíkar sendingar inni, meðan á lokun áfengisútsölunnar stæði. Loks voru refsingar við áfengislagabrotum nokkuð þyngdar.

Þótt allir nm. mþn. væru sammála um þessi ákvæði í frv. eins og það var flutt af hálfu ríkisstj. í fyrra, og þess vegna ættu að vera nokkrar líkur til þess, að það kæmist í gegnum

Alþ. greiðlega, varð raunin önnur. Frv. fór til hv. allshn., og það var mjög seint á ferðinni eins og fyrri daginn. Loks komu brtt. frá meiri hl. allshn. Ég ætla, að það hafi verið frá 4 nm. af 7, og þá var komið undir þinglok, og frv. dagaði uppi.

Nú er áfengislagafrv. komið í þriðja sinn og það sem stjórnarfrv., þótt það sé flutt af n. Og hv. allshn. hefur samkv. því, sem hv. frsm. sagði áðan, enga afstöðu tekið til frv. eða einstakra ákvæða í því. Það veit enginn enn þá, hvað þeir hafa að segja um þetta frv., nm., þótt þeir flytji það. Það er því alveg rétt athugað hjá hv. frsm. að leggja til, að því verði aftur vísað til þessarar n.

Munurinn á þessu frv., sem nú er hér til umr., og stjórnarfrv. í fyrra, sem samið var af mþn., er í helztu atriðum þessi: Aldurslágmark vegna áfengiskaupa er lækkað úr 21 árs aldri í 20 ára aldur. Í öðru lagi, unglingar eiga að sanna aldur sinn með nafnskírteini eða „á annan fullnægjandi hátt“, segir í þessu frv., en í fyrra frv. átti nafnskírteini eitt að vera fullgilt sönnunargagn um aldur. Í þriðja lagi, ákvæði í fyrra frv., að vínveitingahús skuli halda uppi fullkominni þjónustu a.m.k. fjórða hvert laugardagskvöld án vínveitinga, er fellt niður. Það er hér ekki með. Í fjórða lagi er tekið inn í þetta frv. ákvæðið um að fela megi félagsmálaráði Reykjavíkur störf áfengisvarnan. Reykjavíkur að nokkru eða öllu leyti.

Um þetta síðasta atriði vil ég segja það, að ég tel það vera til bóta að gera þá breytingu, sem borgarstjórn Reykjavíkur fer fram á. Það er eðli1eg ráðstöfun og meira samræmi í því.

Um lækkun aldurstakmarksins, til þess að unglingar geti fengið að kaupa sér áfengi, úr 21 árs aldri í 20 ára aldur, vil ég segja það, að út af fyrir sig tel ég þetta ekki vera til neinna bóta, en ég mundi þó sætta mig við þetta, ef svo væri um hnútana búið með lagaákvæðum og framkvæmd þeirra, að við þetta yrði staðið, að ekki væri yngri unglingum selt áfengi en 20 ára. En það er öðru nær en það verði gert með ákvæðum þessa frv. T.d. vil ég benda á, að ákvæðið í frv. mþn., að nafnskírteini eitt skyldi gilda sem aldurssönnun, var alveg afdráttarlaust. En í þessu frv. er það það ekki, heldur mega unglingar sanna aldur sinn á „annan fullnægjandi hátt“. Þegar ungmenni koma nú í vínveitingahús eða vínverzlun, og vilja fá keypt áfengi, þá eiga þau skv. frv. mþn. að vera við því búin að sýna nafnskírteini. Séu nú þessi hugsanlegu lög skv. þessu frv. framkvæmd eins og maður verður að ætla, að tilgangurinn sé, ættu viðkomandi starfsmenn áfengisverzlunar eða vínveitingahúss að krefjast sönnunargagns, þ.e.a.s. nafnskírteinis. Og við skulum gera ráð fyrir því, að þeir geri þetta, en unglingurinn svari kannske, að hann hafi ekki nafnskírteini með sér, það sé heima eða hann sé búinn að týna því, eins og stundum eru dæmi til. Þá er þessum starfsmanni vínveitingahússins eða vínverzlunarinnar heimilt að láta hann sanna aldur sinn á einhvern annan hátt, fullnægjandi hátt. En hver á að meta það, hvort slík sönnun er fullnægjandi eða ekki. Brennivínssalinn sjálfur á að meta það. Það er ekki öðrum til að dreifa. Það er vel búið um hnútana eða hitt þó heldur.

Nú er það svo, að starfsmenn vínverzlunar hafa engra sérstakra hagsmuna að gæta í því að vanrækja það eftirlit, sem þarna er ætlazt til, að sé viðhaft. En áfengissalinn hefur hagsmuna að gæta. Það er hans gróðavegur, að sem flestir komi inn, hvort sem þeir eru ungir eða gamlir, og kaupi áfengi. Og hann á að meta, hvernig unglingurinn á að sanna aldur sinn. Þannig er nú þetta ákvæði í frv.

Í grg. með þessu frv. er talað um, að þetta orðalag sé haft á gr., vegna þess að það geti komið annað jafngilt í staðinn fyrir nafnskírteinið, t. d, ökuskírteini. Ég viðurkenni þetta alveg. Ökuskírteini gæti verið alveg jafngilt og nafnskírteini. Þar er mynd af manninum, og þar er aldurinn tilgreindur. En því ekki að nefna það þá hreinlega að sanna aldur sinn með nafnskírteini eða ökuskírteini. Ég vil benda hv. allshn. á þetta, þegar hún nú athugar frv. betur.

Stærsta ágallann á þessu frv. tel ég vera þann, að niður er fellt ákvæðið úr frv. mþn. að fyrirskipa vínveitingahúsum að hafa opið fjórða hvert laugardagskvöld án vínveitinga, en með fullkominni þjónustu að öðru leyti. Þetta ákvæði var ekki sett inn í frv. af hugsunarleysi. Það hafði ákveðinn tilgang, eins og ég ætla, að mönnum sé reyndar ljóst. Tilgangurinn var sá, að æskufólk gæti skemmt sér á þessum samkomustöðum án þess að verða fyrir barðinu á áfenginu. Nú er svo ástatt, fyrst og fremst hér í Reykjavík og reyndar víðar, að æskufólk á svo að segja enga samastaði við sitt hæfi, sem talizt geta til þess að skemmta sér á eðlilega. Það er að vísu til hér í Reykjavík, alveg nýtilkominn, samkomusalur í hinu nýbyggða húsi Góðtemplarareglunnar. Það mun vera haldið uppi einhverjum áfengislausum samkomum fyrir æskufólk í Breiðfirðingabúð, og Æskulýðsráð Reykjavíkur mun halda uppi samkomum að Fríkirkjuvegi 11. Ég veit ekki um fleiri staði af þessu tagi. En þessir staðir rúma ekki nema lítið brot af æskufólki Reykjavíkur.

Ákvæðið í þessu frv. mþn. var því hugsað þannig, að meðan slíkt ástand varir, að æskufólk á ekki annars úrkosti en að sækja þessa almennu veitingastaði, sem jafnframt eru vínveitingastaðir, yrði þetta gert. Og það er mín skoðun, að í ágreiningi um þetta ákvæði frv. takist á gróðasjónarmið vínsalanna annars vegar, en hagsmunir æskufólksins hins vegar, og ég sé ekkert eftir því, að það komi í ljós, hvaða afstöðu alþm. hafi til þessara ólíku hagsmuna.

Ef hér væri búið svo að æskufólki, að það gæti skemmt sér á viðunandi hátt, án þess að að því sé otað áfengi, er engin þörf á slíku ákvæði eins og er í þessu frv. um vínveitingahúsin. Þetta er aðeins hugsað, meðan þetta ástand varir eins og það er nú. Ég hef orðið þess var, að menn halda jafnvel, að það sé bannað, að æskufólk dvelji á vínveitingahúsum á kvöldin. Það sé bannað með l. Þetta er alger misskilningur. Það er ekkert ákvæði í l., sem bannar unglingum að vera á vínveitingahúsum, nema ákvæði í lögreglusamþykktum bæjarfélaga. Í Reykjavík er það svo skv. lögreglusamþykkt, að yngra fólk en 16 ára má ekki dvelja á vínveitingahúsum. En a1lir, sem eru orðnir 16 ára, geta dvalið hér á vínveitingahúsum á kvöldin eins og þeim sýnist, og þeir gera það líka. Þegar á það er litið, hvernig ástandið er, er það ekkert undarlegt, þó að vínveitingahúsin séu gróðrarstíur fyrir áfengisneyzlu æskufólks, eins og þau eru núna.

Ég gat þess áður, að í frv. mþn. hefðu ekki verið tekin nein ákvæði önnur en þau, sem allir nm. urðu sammála um, en þegar málið er nú komið á þetta stig, sé ég fulla þörf á því að flytja brtt. við þetta frv., sem ganga lengra eða á annan veg en þær, sem fólust í frv. mþn. Ég mun nefna t.d. refsingar við sölu áfengis til æskufólks, sem ég tel nálgast glæp. Í þessu frv., og reyndar líka hinu fyrra, á að beita smávægilegum sektum. Ég held, að það sé þó varla hægt að neita því, að sökudólgurinn þar er ekki unglingurinn fyrst og fremst, heldur sá, sem selur ungmenninu eða afhendir því áfengi, og þar eigi að koma þungar refsingar. Ég held, að sektir séu ekki sérstaklega árangursríkar. Þar að auki veit ég ekki, hversu þær eru innheimtar nú á tímum. Ég tel t.d., að ef það sannast, að unglingi innan aldursmarkanna er selt áfengi á veitingastað, eigi umsvifalaust að svipta það veitingahús veitingaleyfi um einhvern ákveðinn tíma. Ég held, að það sé það eina, sem gagnar. Það getur svo sem verið gott að hafa sektir, ef þær eru eitthvað í samræmi við brotið, en það getur líka verið hægt að borga allar þær sektir og græða samt á því að selja unglingum áfengi. Þá tel ég, að þegar slíkt brot á sér stað, að unglingar innan aldursmarkanna reynast ölvaðir, hvar sem það er, verði rannsókn þess máls tafarlaust að beinast að því, hver sé hinn brotlegi, sem seldi eða veitti unglingunum áfengi. Og þarna eigi engin vettlingatök við. Ég vil enn nefna eitt, sem er ekki óalgengt, þ. e. þegar ölvaðir menn aka bifreiðum. Ég man ekki í bili, hver refsingin er við því, mig minnir þó, að það séu aðeins sektir, þó kann að vera heimild til þess að dæma þá í varðhald. Nú vil ég spyrja hv. dómsmrh., hvort það sé rétt, sem mér hefur verið tjáð, að varðhaldsdómar séu alls ekki framkvæmdir á Íslandi og hafi ekki verið um alllangan tíma. Ekki aðeins hjá þessari ríkisstj., ég er ekkert að ásaka hana í þessum efnum frekar en aðrar, en mér er tjáð þetta, að þeir séu alls ekki framkvæmdir. Maður getur hugsað sér, hvert aðhald er í slíkum refsingum, þegar þær eru ekki framkvæmdar. Annað er mér einnig sagt, og það er það, að ríkisstj. breyti oft varðhaldsdómum í sektardóma. Ég vil spyrja, er þetta samkvæmt lögum? Er lagaheimild fyrir því, að ríkisstj. geti breytt dómum? Ég á ekki við náðanir, það er annað mál, eða eru þetta kannski náðanir?

Hvað snertir ölvun við akstur tel ég, að ekkert eigi að koma til greina annað en svipting ökuleyfis og það undireins, um einhvern tíma, og þeim mun lengri tíma sem brotið er stærra. Ég vil ekki lengja sérstaklega þessar umr., en ég verð því miður að segja það, að mér hefur oft fundizt áhugi og skilningur alþm. á áfengisvandamálum helzt til lítill, svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Það vantar ekki að menn þykist vilja útiloka alla áfengisneyzlu meðal unglinga, en viðbrögð Alþ. í þessu máli á undanförnum árum hafa ekki borið — vott um að svo sé. Nú reynir enn á það, hvað Alþ. vill gera, og hér er nýkosið Alþ. Ætli það taki eitthvað betur á þessu máli en undanfarin þing? Það liggur við að jafnvel alþm. sé það efst í huga að láta mönnum það eftir, t.d. bindindismönnum, kennurum, sumum prestum og jafnvel samtökum kvenna, að tala um áfengismál og gera kröfur um aðgerðir í áfengismálum og láta þar við sitja. Með öðrum orðum, að þeir meini helzt til lítið af því, sem þeir eru að segja, að þeir vil í útiloka áfengið frá unglingum.

Ég legg áherzlu á það, að hv. allshn. athugi þetta frv. rækilega, þau atriði þess, sem ég hef bent á, þær till., sem fram hafa komið á undanförum þingum í þessum málum, umr. um þau frv., sem flutt hafa verið, og hún beiti sér fyrir því, að afgreiðsla þessa máls geti orðið á þessu þingi, svo að það sofni ekki í þriðja sinn. En ef það gerir það, þá er það líka vottur um, hvað alþm. meina um lausn á áfengisvandamálum æskufólks á Íslandi.