26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

169. mál, áfengislög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna þess að hv. dómsmrh. var ekki inni, og ég sé ekki hér frsm. n., þá vil ég leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, er hann fullyrti, að þetta mál væri stjfrv. Svo er ekki. Þetta frv. er flutt af n. og samið af n. upp úr þeim frv., sem áður hafa legið fyrir. Það hefur ekki verið haft samráð við stjórnina um einstök atriði þessa frv. og það er n. sjálf, sem hefur samið þetta frv., — það er nauðsynlegt, að það sé alveg ljóst, — upp úr þeim drögum, sem fyrir hafa legið. Þetta kemur reyndar fram í grg. ótvírætt, ef hún er lesin með nákvæmni, en það hefur hv. síðasti ræðumaður auðsjáanlega ekki gert.

Þá vil ég einnig til skýringar taka það fram, að þegar hann var að tala um breytingu á varðhaldsdómum í sektardóma, sem tíðkað hefur verið í mörg ár, þá er það náðun, alveg tvímælalaust. Þetta er gert skv. þeirri heimild sem forseti Íslands eftir till. ráðh. hefur til þess að náða, til þess að breyta refsingu. Þetta er áratuga gömul venja. Það má endalaust deila um, hvort hún sé heppileg eða ekki, en hún er óhjákvæmileg meðan við höfum ekki stærri fangelsi.