26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

169. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er rétt að taka af allan vafa um flutning þessa máls, og reyndar ættu þm. ekki að þurfa að vera í neinum vafa um það, þskj. ber það með sér, að frv. er flutt af allshn., þar af leiðandi er það ekki stjfrv., en hins vegar er þess getið í grg., að 27. nóv. hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytið skrifað, og eins og þar stendur, óskað þess, að Alþ. taki mál þetta að nýju til meðferðar, og síðan er vitnað í bréfið. Það má til sanns vegar færa, að rn. hafi óskað eftir, að allshn. tæki málið til meðferðar, eins og efni bréfsins segir til um, þegar það er lesið, að það er aðeins ábending til n., hvort hún telji ástæðu til að flytja frv. En með leyfi hv. forseta segir þar, að „fyrir Alþ. 1966—67 hafi legið frv. til l. um breyt. á áfengislögum, nr. 58 24. apríl 1954, og kom undir þinglok til 2. umr. í Nd. frá hv. allshn., en hlaut ekki frekari meðferð í þinginu. Með því að hér er um að ræða frv., sem samið er af mþn. kosinni af Alþ. til þess að leita lausnar á þessu mikilsverða málefni, vill rn. beina því til hv. allshn., hvort hún teldi ekki rétt að taka málið nú upp til flutnings á yfirstandandi Alþ.“

Forsaga málsins er sú, að þegar ég tók við embætti dómsmrh. í nóv. 1963, þá lá fyrir þinginu frv. til l. um breyt. á áfengislögum, sem fyrirrennari minn, núv. hv. forsrh. hafði lagt fyrir þingið. Um það mál varð svo ágreiningur í þinginu, sem leiddur var hins vegar til lykta með því, að kosin var mþn. til þess að taka þetta mikla vandamál til meðferðar, en tillöguflutningurinn var nokkuð bundinn við sérstök tilfelli og sérstök vandamál, þ.e.a.s. áfengisneyzlu unglinga, og þessi mþn. skilaði svo, eins og hv. þm. er kunnugt um, allviðamiklu áliti um málið og telur, að það álit feli í sér ýmsar upplýsingar um áfengisvandamálið og meðferð þess hjá öðrum þjóðum og einnig hjá okkur. Hins vegar er ekki hægt að neita því, að frv. það, sem n. lagði fyrir ríkisstj. til flutnings fyrir síðasta Alþ., þótti af mörgum nokkuð rýrt, en hv. 1. þm. Vestf. minnti á það, sem fram kom í nál., að inn í frv. var aðeins tekið það, sem allir voru sammála um í þessari mþn.

Ríkisstj. tók þá afstöðu í fyrra að taka nál. mþn. óbreytt til flutnings sem stjórnarfrv., og enn fór það svo, að frv. náði ekki fram að ganga, hafði þó komið frá n. og meiri hl. verið í öllum aðalatriðum með málinu en flutt brtt. En frekari afgreiðslu hlaut málið ekki, og fyrst tilraun ríkisstj. til þess að koma nokkru betri skipan á áfengislögin í sambandi við unglingavandamálið mistókst og einnig tilraun Alþ. með skipun mþn., sem sat nærri tvö ár til þess að koma betri skipan á þessi mál, og þegar ríkisstj. tók till. þessarar n. óbreyttar upp í frumvarpsformi og það náði heldur ekki fram að ganga, þá leit dómsmrn., eða ég, svo á, að það væri ástæða til þess, þegar nokkuð var liðið á þing, að vekja athygli allshn., sem mundi hafa fengið málið til meðferðar, á því, að frá þinginu áður lægi frv., sem samið væri af mþn., sem ríkisstj. þá hafði flutt, en hafði þá ekki náð fram að ganga, og hvort ekki væri ástæða til þess fyrir þingnefnd að sinna máli eins og þessu, sem samið er upphaflega af mþn., sem Alþingi kaus í Sþ. til þess að reyna að leiða þetta mál til lykta.

Með þessu held ég, að skýrist alveg flutningur málsins, þ.e. að ríkisstj. fékk ekki þetta frv. til meðferðar, eins og gerist um öll stjfrv., eða til neinnar umsagnar, en það er flutt af allshn., eftir að hún væntanlega hefur athugað málið, að ég mundi álíta gaumgæfilega svo sem eðlilegur háttur væri hjá n., kannske upp úr ábendingu dómsmrn. frá 27. nóv. s.l.

Þetta skiptir nú í sjálfu sér ekki öllu máli, en menn verða að gera sér grein fyrir því, að það er n., sem flytur málið, og þess vegna stenzt það ekki, að hún eigi eftir að taka afstöðu til þess, og er það auðvitað dálítið annarlegt að sjá það, sem segir í lok grg., að einstakir nm. hafi óbundnar hendur um afstöðu til frv. Hversu víðtækt þetta er veit ég ekki, það hefur ekki enn þá komið fram í umr., en ég hygg nú, að menn ættu að reyna að sameinast um frv. á þessu þingi, enda þótt menn séu misjafnlega ánægðir með það, sumum finnist það ganga of langt og sumum of skammt, menn reyni að ljúka meðferð málsins í stórum dráttum í samræmi við það frv., sem hér liggur fyrir frá allshn., og láta það ekki henda eins og hv. 1. þm. Vestf. vék að, að í þriðja sinn skuli sú tilraun, sem gerð er til þess að fá nokkuð betri skipan á þessi mál, verða alveg árangurslaus í þinginu, og ég er sammála hv. þm. um, að það eitt út af fyrir sig er Alþ. ekki til neins sóma.