17.01.1968
Efri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

84. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég mun nú ekki ræða sérstaklega um skipasmíðastöðina á Ísafirði, til þess er mér málið nokkuð skylt. En þó vil ég ekki láta hjá líða að geta þess, að mér er ekki kunnugt um, að nein nýsmíði hafi átt sér stað, frá því að — þar var byggð skipasmíðastöð. Og í öðru lagi, að þessi skipasmíðastöð ásamt kaupanda sendi umsókn á s.l. sumri til Fiskveiðasjóðs með beiðni um leyfi til að byggja 200 tonna skip, og ekkert svar hefur borizt við þeirri beiðni enn þá.

Afkoma Fiskveiðasjóðs endurspeglar aðeins þá erfiðleika, sem bátaflotinn hefur átt við að búa á undanförnum árum, þannig að það hefur ekki verið neinn grundvöllur fyrir bátana í raun og veru. Það er alveg rétt, að það þyrfti að skapa verkefni fyrir þessar skipasmíðastöðvar. Eftir því sem ég veit bezt, hefur Stálvík, eins og hæstv. ráðh. gat um, nú beiðni um smíði á einu 130 lesta skipi. Annað hefur ekki verið talað um, þannig, að að um samningaumleitanir gæti verið að ræða. Þó mun hafa verið spurt um 300 rúmlesta skip og annað 500 rúmlesta. En mér er ekki kunnugt um, að á öðrum skipasmíðastöðvum hafi verið óskað eftir byggingu skipa.

Það er líka rétt, að stöðlun fiskiskipa er nauðsynleg, því að það hæfir ekki sama stærðin alls staðar á landinu. Eftir því, sem mér er tjáð, munu Norðlendingar gjarnan vilja hafa 300 rúmlesta skip, Vestfirðingar munu fyrir landróðra gjarnan vilja hafa 200 rúmlesta skip og við Faxaflóann hefur verið talið, að landróðrabátar ættu að vera 100—150 eða 160 smál. að stærð, svoleiðis að þetta er nokkuð mismunandi. En það er auðvitað bráðnauðsynlegt að staðla þessa nýsmíði og koma henni af stað.

Það kann að orka nokkuð tvímælis, hvaða skilning menn leggja í það, þegar talað er um verkefnaleysi eða verkefnasköpun. Eins og þetta horfir við í dag, er aðeins ein stöð fyrir utan Akureyri með verkefni, sem þó er ekki endanlega búið að ganga frá, eftir því sem ég veit bezt, um þennan 130 rúmlesta bát. Kaupandinn er ekki búinn að gera sínar fjárhagsástæður klárar. En það er nauðsyn fyrir skipasmíðastöðina að geta byggt þessi skip, því að eins og hæstv. ráðh. gat um, þjálfast smiðirnir eða iðnaðarmennirnir við það. Það er t.d. talið, að það hafi verið 23% betri nýting á vinnuafli við smíði annars skipsins á Akureyri heldur en hins fyrsta. Það segir allmikla sögu. Og það er jafnframt talið, að það megi vera 12—15% dýrari smíðin innanlands heldur en erlendis til þess að innanlandssmíðin borgi sig, eftir því sem fróðir menn hafa talið. Á komandi árum munu þessar skipasmíðastöðvar, sem mest hefur nú verið um rætt, þær Stálvík og skipasmiðastöðvarnar á Akranesi, Ísafirði og Akureyri, geta byggt samtals skip, stálskip, 2300 eða upp að 2.500 rúmlestum samtals. Og 1968 er Stálvík talin munu geta byggt 800 rúmlestir, 1969 1000 og sömu tölu 1970 og 1971. Á Akranesi er talið, að hægt verði að byggja 600 rúmlestir á árinu 1968 og sömu tölu á næstu þrem árum. Marsellíus á Ísafirði er talinn geta byggt um 200 smál. á árinu 1968, 400 á næstu hverju hinna þriggja ára. Á Akureyri er skipasmíðastöðin upptekin fram yfir árið 1969 eða fram á sumarið 1970, og er talin geta byggt á árinu 1970 um 300 rúml. og 1971 um 1000 rúml. Ef þessi verkefni væru fyrir hendi, væri náttúrlega geysilega stórt spor stigið í þá átt að efla þennan bráðnauðsynlega skipasmíðaiðnað okkar, sem hlýtur að verða að gerast.

Það er alveg rétt, að það þarf auðvitað að sjá fyrir því afli, sem þarf til þess, að hlutirnir verði gerðir, og það er fjármagnið, og Fiskveiðasjóði þarf auðvitað að sjá fyrir auknum tekjum. til þess að hann geti stuðlað að þessari byggingu. og enda þótt það hafi ekki verið tekið fram í þessu frv., er það auðvitað eitt af þeim mörgu atriðum og þýðingarmestu, sem þarf að koma að í sambandi við þessi mál.