01.02.1968
Efri deild: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á ræðu hv. 1. flm., 1. þm. Vesturl., og ég var að hugsa með mér: Skyldu nú bændur, ef þeir mættu hlýða á ræðu hv. þm., vera að mestu eða öllu leyti sammála honum? Og slæmt væri nú ástandið í landbúnaðinum, ef það væri nú alveg eins og hv. þm. lýsti því. Hv. þm. skoraði á alla og þá ekki sízt ráðamenn þjóðfélagsins að stuðla að því, að þetta frv. mætti verða að lögum. Út af fyrir sig er það mál, sem er sjálfsagt að taka til gaumgæfilegrar athugunar, hvort möguleiki er á því að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Þetta var gert fyrir atbeina ríkisstj. 1962, og þá voru gefin út sérstök bankavaxtabréf að upphæð 66 millj. kr., sem Seðlabankinn keypti. En því miður notuðu bændur ekki þá tækifærið eins og skyldi m.a. vegna þess, að sums staðar var þeim talin trú um það, að þessi bréf gengju ekki út, af því að í frv. var ekki kveðið svo á,

að Seðlabankinn væri skyldur til þess að kaupa bréfin, heldur að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að hann tæki bréfin. Og það reyndist ekkert erfitt.

Í þessu frv. er kveðið svo á, að Seðlabankinn skuli kaupa bréfin. Út af fyrir sig má deila um það, hvort ráðalagið sé heppilegra. Það er rétt, að Seðlabankinn liggur með mikið fjármagn, en það eru fleiri, sem hafa horft í áttina til þessa fjármagns en bændur. Stjórn Stéttarsambands bænda hefur rætt um það við mig, hvort ég vildi beita mér fyrir því að breyta lausaskuldum hænda í föst íán. Ég hef sagt þeim, að ég vildi kynna mér möguleikana á því, og vitanlega mundi ég ekki flytja frv., fyrr en ég sæi möguleika á því að fá það fram.

Þetta mál er þess vegna ekkert nýtt, og það er rétt, sem oft hefur verið sagt, að hluti bændastéttarinnar er með of mikið af lausaskuldum. Og í því frv., sem hér er til umr. og hefur verið útbýtt, kemur það fram, þar sem vitnað er í opinberar skýrslur, að hluti bændastéttarinnar, 7%, skuldar yfir 1 millj., 13% skulda frá 500 þús. og upp að 1 millj., og 85% skulda innan við 1/2 millj. Og það má segja, að þetta sé talsvert, 85% af bændum skulda kannske frá 200 þús. og allt upp að 1/2 millj., og 13% skulda meira en 1/2 millj., 2% yfir millj., og hv. þm. segir, að skuldirnar hafi vaxið mikið síðan 1960. Þetta er áreiðanlega rétt. En hvort ástæðurnar eru alveg eins og hv. þm. sagði, að stofnlánin hafi verið tiltölulega minni á seinni árum en meðan hans flokkur réð, er svo annað mál. Enda passaði hv. þm. það að lesa ekki upp skýrslu frá Búnaðarbankanum um lánveitingar, og ég held, að við ættum að hafa samkomulag um það, að hv. þm. fengi að kynna sér þá skýrslu. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp tölur frá árinu 1958, þegar ekki var skammtað til útlána í lánasjóði landbúnaðarins.

Hv. þm. sagði áðan, að hann vildi ekkert óréttlæti í úthlutun fjárins. Hann vildi ekki skapa það. En hvað var lánað 1958? Það voru 917 lán, sem voru veitt úr byggingarsjóði og ræktunarsjóði. Það voru 42 millj. 765 þús. og úr B-deild 9 millj. 323 þús. og úr veðdeild, það var nú ekki skammtað, það voru 646 þús. Samtals urðu þetta 1084 lán, er námu 52 millj. 734 þús. Þetta var það, sem bændum var lánað úr Búnaðarbankanum 1958. En 1965 eru veitt 1578 lán, 1966 1565 lán, 1967 1452 lán eða aðeins færri en árin áður. En 1958 urðu lánin 1084. Eins og ég sagði áðan, var heildarupphæðin 1958 52 millj. 734 þús. 1965 134 millj., 1966 145 millj. og 1967 146.7 millj. kr. Nú vita allir, að þetta er ekki sama krónan, verðlagið hefur hækkað og að því leyti mætti náttúrlega segja, að þetta væri engin skýring. Að vísu hefðu lánin þrefaldazt, þau væru þrefalt meiri 1967 en 1958. Það væri engin skýring, gæti maður sagt. En byggingarvísitalan er mælikvarðinn. Hún segir til um það, hvað fékkst fyrir krónuna 1958 og aftur 1967. Og ég hringdi í Hagstofuna, sem gefur upp réttar tölur í þessu efni. Vísitalan frá því í október 1958 og þar til í október 1967 hefur hækkað um 122%, ekki 300%. Ef vísitalan hefði hækkað um 300% væru lánin sambærileg, 1967 og 1958. En hún hækkaði um 122%. Af þessu sést, að lánveitingar frá Búnaðarbankanum 1967 eru svo miklu meiri að verðgildi en 1958, og mig undrar það, að hv. þm. skuli nú tala eins og hann gerði áðan og segja, að skuldasöfnun hjá bændum sé tilkomin vegna þess, að það hafi ekki verið lánað tiltölulega eins mikið af stofnlánum 1967 og 1958. Það segir sig náttúrlega alveg sjálft, að þessar tölur vitna alveg gegn því, sem hv. þm. sagði. Og vegna þess að hv. þm. vill gefa það í skyn, að staða landbúnaðarins sé nú miklu lélegri en áður, hefur oft verið talað um það, að bændur gætu ekki staðið í skilum við Búnaðarbankann. Hv. þm. nefndi það ekki núna, sem er eðlilegt, því að hann er í bankaráði Búnaðarbankans, og hann náttúrlega veit, að það var minna ógreitt af árgjöldum við síðustu áramót en áður, og satt að segja var ég hræddur um, að svo væri ekki. En samkv. upplýsingum bankans er það þannig, og gefur það til kynna, að bændur standa í skilum við Búnaðarbankann, eins og víðast annars staðar, því að það er það, sem þeir venja sig yfirleitt á að gera, sem betur fer.

Ástæðan til þess, að skuldir hafa hækkað að krónutölu hjá bændum, er vitanlega sú, að þeir hafa framkvæmt svo miklu meira en nokkru sinni fyrr. Fjármunamyndun í landbúnaði hefur verið ánægjulega mikil á undanförnum árum, og ég hef hér skýrslur um það, og það er rétt að taka enn til samanburðar árið 1958. Það hlýtur að hafa verið vel farið með bændur þá. Þá voru framsóknarmenn með þessi mál, og það getur ekki verið, að hv. 1. þm. Vesturl. telji, að þá hafi ekki verið vel búið að þessum málum. Það er því ekkert óeðlilegt, þegar rætt er um þessi mál núna og talað um, að illa hafi verið staðið í ístaðinu fyrir bændur nú síðustu árin, að það sé borið saman við árið 1958. En stundum hafa hv. framsóknarmenn kvartað undan því og talið það óeðlilegt. En ég held, að flestir aðrir séu sammála um, að það hljóti að vera eðlilegt, úr því að framsóknarmenn eru að finna að framkvæmdum þessara mála, að við, sem teljum, að landbúnaðurinn hafi ekki farið aftur á bak, heldur miðað nokkuð á leið síðustu árin, berum þessi ár saman.

Ef við nefnum hér tölur um fjármunamyndun í landbúnaði og miðum við verðlag ársins 1960, þá var fjármunamyndunin í landbúnaði árið 1958 288.5 millj. kr. En 1966, 1967 hef ég ekki, var fjármunamyndunin á sama verðlagi 377.1 millj. Þetta sýnir, að enda þótt bændunum hafi fækkað nokkuð, sem er alveg rétt, er fjármunamyndunin svo miklu meiri en hún var, og satt að segja veit ég ekki, hvort það er sérstök ástæða til þess að hryggjast yfir því, þó að bændunum hafi fækkað nokkuð, á meðan þeim fækkar ekki of mikið, því að þeir bændur, sem hafa hætt, hafa yfirleitt verið á jörðum, sem ekki gáfu lífvænlega afkomu, og þessar litlu jarðir hafa verið lagðar undir aðrar og kotin sameinuð og þannig hefur orðið til góð bújörð. Ég held, að við ættum að vera ánægðir með það að sjá, að þróunin stefnir í rétta átt. Fjármunamyndunin hefur stóraukizt á síðari árum, enda viðurkennt, að það hafa aldrei verið eins miklar framkvæmdir og framfarir í landbúnaði eins og í tíð núv. stjórnar. Og þegar opinberar skýrslur, sem ekki verða véfengdar, tala, ætti vitanlega ekki að þurfa mörg orð til þess að deila um það, hvað er rétt. Það held ég ekki.

Hv. þm. talaði hér dálítið um ræktunina, og sagði, að hún hefði dregizt hér saman 1966 frá því, sem hún var 1964 og 1965. Það er rétt. Ræktunin er nokkru minni 1966 en hún var 1964 og 1965. 1964 mun ræktunin hafa komizt upp í 6 þús. ha. Hún var nokkru minni 1965 og minnkaði enn 1966, og skýringar, sem ráðunautarnir gáfu á því, voru þær, að vorið 1966 var mjög óhagstætt og erfitt að byrja á ræktun, fyrr en komið var langt fram í júní. Þetta dró úr framkvæmdum. En nú minnist hv. 1. þm. Vesturl. þess, að á áratugnum 1950—1960 var ræktunin að meðaltali 2500 ha. En á þeim árum, sem liðin eru af áratugnum 1960—1970, mun ræktunin vera hátt í 5 þús. ha. að meðaltali, talsvert á 5. þús. Enda sjáum við það, þegar fjármunamyndunin í ræktun er athuguð, hversu mikið hún hefur aukizt á þessum árum. Og enda þótt ræktunin hafi orðið nokkru minni 1966 en 1964 og 1965, þegar hún var mest, er hún þó miklu meiri en hún var 1958. Og þegar hv. þm. talar um, að uppþurrkun lands sé minni nú en 1958, skal ég viðurkenna, að ég hef ekki tölur um það hér, ég hef bara ræktunina í einu lagi, en mér þykir ósennilegt, að hv. þm. taki þá með í reikninginn holræsin, kílræsin, sem eru gerð til þess að þurrka landið, og ég held, að ef við förum í búnaðarskýrslurnar komumst við að raun um, að uppþurrkunin hafi aldrei verið meiri en á árinu 1966 og sennilega 1967. Ég held þetta, en vil ekki fullyrða það, vegna þess að ég hef ekki tölurnar fyrir framan mig um það.

Ég held, að útlánin úr Búnaðarbankanum og tölurnar um fjármunamyndunina segi talsverða sögu. Og þá er það framleiðslan, sem stöðugt hefur aukizt í krafti aukinnar ræktunar, vélvæðingar og tækni. Að vísu sagði hv. þm. hér áðan, að töðufengurinn væri lítið meiri 1965 en 1958, enda þótt ræktaða landið hafi stækkað um 23 þús. ha. Það mun vera rétt, að töðufengurinn hefur ekki aukizt í hlutfalli við aukna ræktun. Hv. þm. nefndi eina skýringu, það er árferðið. Það er ekki aðeins það, hvort jörðina kelur, það verður misjafnlega mikið gras eftir því, hvernig árferðið er, hvort það er sprettuvor eða hvort það er kalt vor, enda þótt jörðina kali ekki. Og það hafa komið verri ár að þessu leyti nú á þessum áratug heldur en var fyrir 1960. Að bændur hafi ekki efni á að kaupa áburð, það má vel vera, að einstakir menn hafi það ekki. En í heildinni eru áburðarnotkunin og áburðarkaupin vaxandi frá ári til árs. Ég hef því miður ekki tölur hér við höndina, en þær eru til, og ég man það, að ég hef lesið það, að þetta er stöðug aukning frá ári til árs og að mig minnir allt að 5% árleg aukning í áburðarmagni, sem bændur kaupa. En það er rétt, sem hv. þm. minnti hér á áðan líka, að ein ástæðan fyrir því, að ekki fæst eins mikill töðufengur og eðlilegt væri miðað við ræktunina og miðað við áburðarkaupin, kann að vera sú, að ræktunin sé ekki nægilega vel gerð alls staðar og ekki sé borið á eins og bezt ætti að vera, ef þekkingin væri að öllu leyti látin ráða. Og þar er mikið verkefni áreiðanlega fyrir höndum. Það er upplýsingastarfsemi, hvað þetta snertir. En á meðan kaup á áburði fara vaxandi ár frá ári, held ég, að ástæðan fyrir minnkandi töðufeng sé ekki sú, að bændur geti ekki keypt áburðinn.

Hv. þm. talaði hér um áðan, að bændum hafi fækkað um 158 síðan 1958, en um 90 á árunum 1955—1960 og 158 frá 1960—1966. Ég var áður búinn að nefna aðalástæðuna fyrir því, hvers vegna svo hefur verið. Reyndar segir ekki í skýrslunni, sem hv. þm. las hérna upp áðan, að bændunum hafi fækkað, heldur að þetta margar jarðir hafi farið í eyði, og það er kannske dálítið annað, vegna þess að á þessum árum hafa verið stofnuð nýbýli á hverju ári, og landnámsstjóri hefur sagt mér, að nýbýlin ynnu það nokkurn veginn upp.

Nú er náttúrlega mikil spurning með þessi nýbýli, hvort það er rétt að vera að halda þeim við eða að stofna til þeirra. Og það er áreiðanlega ekki rétt, ef þeim er skammtað knappt lán, eins og oft hefur verið. Og ég býst við því, að það sé miklu eðlilegra að búa vel að þeim jörðum, sem fyrir eru, en vera að búta landið niður, og þá ekki sízt vegna þess, að framleiðslan er mikil og vaxandi þrátt fyrir það, þótt fólkið, sem vinnur við þessa framleiðslu, sé færra en áður.

Hv. þm. harmar það, það má gera það á víssan hátt, að það eru ekki nema 10—11% af þjóðinni, sem vinnur við landbúnað. En þessi þróun er ekki aðeins hér. Alls staðar í menningarlöndum, þar sem tæknin er tekin í þjónustu manna, vex framleiðslan, og Íslendingar hafa sýnt það, að þeir eru ekki eftirbátar annarra að þessu leyti. Og ég spyr nú hv. þm.: Heldur hann, að það væri hollt fyrir íslenzku þjóðina, ef 20—25% hennar þyrftu að vera í sveitum til þess að framleiða það vörumagn, sem er framleitt nú? Ég held ekki. Ég held, að við getum því aðeins haldið áfram framkvæmdum og uppbyggingu um allt land, að við notum tæknina í landbúnaðinum eins og annars staðar og að það verði stöðugt aukin framleiðsla á mann, hvar sem hann vinnur, hvort sem hann vinnur á sjó eða í landi. Hitt er svo annað mál, að það má ekki koma fyrir, að fólkið flýi úr sveitunum, vegna þess að það sé verra að lifa þar, það sé verra að bjarga sér þar en annars staðar. Ég veit, að hv. þm. meinar það, sem hann var að segja, en þjóðhagslega séð og efnahagslega séð hlýtur það að vera rétt að stuðla að því, að það þurfi sem fæsta menn til þess að framleiða ákveðið magn, og landbúnaðurinn á vitanlega að framleiða meira en til innanlandsnotkunar.

Afkomu sína byggir landbúnaðurinn aðallega á innanlandsmarkaðinum, og útlendur markaður fyrir landbúnaðarvörur er ekki góður eins og við vitum. Þegar það var lögfest 1960 að veita útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, var vitanlega hlutur bænda mikið bættur frá því, sem áður var. Og bændur hafa búið að því og fengið verðlagsgrundvallarverðið síðan, en það fengu þeir ekki, á meðan þessi hv. þm. studdi ríkisstj. Þá vantaði bændur mikið á að fá fullt verð fyrir afurðirnar, af því að það, sem þeir fengu til uppbóta á útflutninginn, var sáralítið. Að vísu er þetta miðað við 10% af heildarverðmætinu, og það getur vel faríð svo, að þetta hrökkvi ekki alltaf til, en sem betur fer hefur þetta nokkurn veginn náð saman, síðan þessi lög tóku gildi.

Ég veit, að hv. þm. minnist þess, að ýmsir bændafulltrúar á Búnaðarþingi vildu fá útflutningsbætur úr ríkissjóði á meðan framsóknarmenn voru við völd. Og það er sagt frá því, að formaður Búnaðarfélags Íslands o. fl. hafi gert sér ferð upp í fjmrn. þessara erinda, en þá fékkst þetta ekki. Það var ekki fyrr en sjálfstæðismenn tóku þessi mál að sér, að hlutur bænda var réttur við að þessu leyti. Og þegar hv. þm. talar um verðlag búvöru, getur það verið alveg rétt frá hans sjónarmiði, að verðlagið mætti vera hærra, — væri æskilegt, að það væri hærra. En takmörk eru þá líka fyrir því vegna þess, eins og ég sagði áðan, að bændur byggja mest á innlenda markaðinum, og hagur þeirra er undir því kominn, að vörurnar seljist.

Nú er það alveg vitað, og hv. þm. þarf ekki annað en fletta upp í Árbók landbúnaðarins til þess að sjá það, hvernig verðlagningin hefur farið fram, bæði meðan hann studdi ríkisstj. og eins síðan. Og það er nærtækt dæmi að fletta upp í skýrslu, sem er stutt. Við getum miðað við árið 1959. Þá var verðlagið eiginlega alveg eins og haustið 1958, og við skulum bara miða við töluna 100 og segja, að verðið hafi verið 100 1958, og við skulum segja, að kaup verkamannsins hafi verið 100 bað ár líka og einnig kaup iðnaðarmannsins. Þá er útkoman þessi samkv. opinberum skýrslum, sem hv. þm. á aðgang að, að kaup verkamanna hefur hækkað siðan 1958 úr 100 upp í 227, iðnaðarmanna úr 100 upp í 217, en bænda úr 100 upp í 286. Og þetta verður ekki rengt, og tölur af þessu tagi hefur formaður Stéttarsambands bænda notað, þegar hann hefur viljað það viðhafa, til rökstuðnings fyrir því, að fulltrúar bænda í 6 manna n. hafi ekki staðið sig illa. Og ef það er rétt, að hlutur bænda sé nú verri en nauðsyn ber til, er það aðeins vegna þess, að þær leiðréttingar, sem þeir hafa fengið síðan 1958, eru ekki nægilega miklar. Og ég ætla ekkert að fullyrða um það, það má vel vera, að það vanti eitthvað á, til þess að hlutur bænda verði í samræmi við hlut annarra stétta. En hitt er rétt, að hlutur bænda hefur verið lagfærður eins og þessar tölur vitna um. Hlutfallið hefur lagazt. Hafi verið stórt bil á milli bænda og viðmiðunarstéttanna, áður en núv. stjórn kom til valda, hefur það bil örugglega minnkað, og ýmsir bændur halda því fram, að þeirra hlutur sé nú sambærilegur við hlut annarra stétta. En ég ætla engan dóm á það að leggja, en ég veit, að hv. þm. er mér sammála um það, þegar hann les þessar tölur, að hlutur bænda hefur verið lagfærður mikið, eins og þessar tölur vitna um, auk þess að þeir hafa fengið grundvallarverðið, eftir að útflutningsuppbæturnar komu til, en það fengu þeir ekki áður. Og þegar þetta er allt saman tekið með í reikninginn, held ég, að það verði nú fleiri en ég, sem undrast þann tón, sem þm. talaði í hér áðan.

Hv. þm. getur eðlilega óskað eftir betri kjörum bændastéttinni til handa. Hann getur bent á lausaskuldir, sem hafi aukizt, og það væri æskilegt að breyta þeim öllum í föst lán, löng lán með lágum vöxtum. Þetta er gott og blessað, og þetta er æskilegt. En um leið og hann fullyrðir, að hlutur bænda hafi versnað og að bændastéttin sé raunverulega komin á vonarvöl, er hann ekki að gera bændum greiða, og ég held, að hann vinni bændastéttinni á engan hátt gagn með því. Hann geri ekki hægara að ná málum þeirra fram með því að draga upp svona dökkar myndir af ástandinu í landbúnaðinum, auk þess sem til þess hlyti að leiða, ef einhver maður tryði því, sem hv. þm. segir, að ungir menn myndu alls ekki láta sér detta í hug að hefja búskap í sveit, því að samkv. kenningu hv. þm. er það algerlega ómögulegt, elns og sakir standa. Og það hefur nú ekki verið það, sem okkur Íslendinga hefur vantað á umliðnum árum eða öldum, að dregið væri úr framtaki eða kjarki manna, hvorki ungra né gamalla. Ég held, að forfeður okkar hafi komizt áfram í þessu kalda landi, sem oft hefur farið hörðum höndum um fólkið, þeir hafi komizt áfram, af því að þeir trúðu því, að það væri hægt að ryðja erfiðleikunum úr vegi, og það hefur sem betur fer oftast tekizt. Og ég held, að unga fólkið í dag þurfi að tileinka sér þessa sömu skoðun og þann sama kjark, sem eldra fólkið hafði, og ég er alveg sannfærður um það, að með þeim skilyrðum, sem nú eru fyrir hendi, eru möguleikarnir miklu betri og meiri fyrir unga fólkið í dag til þess að komast áfram en var, jafnvel þegar ég og hv. 1. þm. Vesturl. vorum á æskuskeiði. Við skulum ekki draga kjarkinn úr fólki með því að draga upp dökkar myndir og segja, að það sé helzt enginn möguleiki til sjálfsbjargar, en við skulum vera raunhæfir og tala eðlilega um þá erfiðleika, sem steðja að, ekki aðeins hjá bændum, heldur einnig hjá öðrum stéttum, og hafa steðjað að okkar þjóðfélagi nú með því að komið hefur mikil aflatregða og stórkostlegt verðfall á okkar útflutningsafurðum. Og það er enginn vafi á því, að atvinnustéttirnar í landinu geta búizt við verri kjörum og verri dögum á næstunni, ef ekki breytir um frá því, sem verið hefur nú síðustu mánuðina með aflabrögð og verðlag. Við skulum vona, að úr þessu rætist.

Ég sagði hér áðan, að stjórn Stéttarsambands bænda hafi talað við mig um möguleika á því að breyta lausaskuldum landbúnaðarins í föst lán. Ég hef sagt stjórn Stéttarsambandsins, að ég væri reiðubúinn til athugunar á þessu og hef gert það talsvert, en ég hef ekki flutt frv. og geri það ekki, nema ég hafi von um að koma því fram. Og það skulu menn vita, að það er ekki hægara að koma slíku frv. fram nú, vegna þess að aðrar stéttir eru með svipaðar óskir, eins og t.d. útgerðarmenn, iðnaðarmenn og fleiri, og það er ekki meira fjármagn laust í bönkunum og Seðlabankanum til slíkra ráðstafana nú, vegna þess að okkur vantaði 1/3 partinn af útflutningsverðmætinu á s.l. ári, 2000 millj. kr., og er það skýringin á því, að nú er minna fé til ráðstöfunar í viðskiptabönkunum en áður hefur verið. Ég er reiðubúinn að leggja því máli lið að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. En út af fyrir sig, miðað við þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, blöskra mér ekki skuldirnar hjá bændum.

Einn hv. þm. Framsfl. lýsti því í stuttri blaðagrein um daginn, hvers búið þyrfti við. Bóndinn þarf að eiga bíl, og það er náttúrlega alveg sjálfsagt nú, en það var ekki nauðsynlegt eða sjálfsagt, þegar hv. 1. þm. Vesturl. studdi ríkisstj. Þá varð að skammta jeppa, og þeir fengust ekki nema frá Rússlandi. Og sá þótti mikið heppinn, sem fékk úthlutað jeppa þá. Og þegar jeppanefndin var lögð niður, minnir mig, að þessi hv. þm. segði sem svo : Ja, það er verið að ráðast á bændur. En með því að jeppanefndin var lögð niður, eins og hún var nefnd virðulegu nafni, var bændum gert mögulegt að eignast jeppa, ekki aðeins þessum, sem bjó þarna, heldur öllum í sveitinni. Og þannig er þetta komið nú, sem betur fer. Þessi sami bóndi sagði, að bændur þyrftu að eiga 2—3 traktora og allar aðrar vélar. Þeir eiga vitanlega að búa í góðum íbúðum, eins og aðrir menn, byggja útihús og rækta og annað þess konar, og einhvern tíma var það reiknað út, að fjármagnið, sem þyrfti að vera í svona búi, væri 1 1/2—2 millj. kr.

Nú er það upplýst, að 85% bænda skulda undir 1/2 millj. og eignaaukningin hjá þeim síðustu árin hefur orðið svo miklu meiri heldur en skuldaaukningin, miklu meiri. Ég þekki hér í Reykjavik fjöldann af fólki, verkamenn, iðnaðarmenn og embættismenn, og þeir þykjast nú mikið lánssamir, ef þeir eiga íbúð og skulda ekki yfir 500 þús. kr.

Ég get ekki að því gert, að þessar hugleiðingar koma hér upp í huga minn, þegar við erum að ræða þessi mál, vegna þess að þó að við viljum hlut bændanna góðan og við vitum, að þeirra starf er nauðsynlegt og að landbúnaðurinn hefur verið einn af traustustu hornsteinum þjóðarbúsins og verður áfram, verðum við, þegar við eigum setu á Afþingi, að muna einnig eftir því, að það eru aðrar stéttir í landinu og að hagur bændanna er alveg samtvinnaður gengi og getu þessa fólks, sem býr í Reykjavík og kaupstöðunum. Ef sjómennirnir fá ekki kaup, verkamennirnir hafa ekki vinnu og iðnaðarmennirnir, geta bændur ekki selt sínar afurðir, og hagur þeirra hlýtur að versna. Þetta er allt samtvinnað, og við verðum að hafa yfirsýn yfir þetta.

Ég sé, að fundartíminn er búinn, en vitanlega væri ástæða til þess að rabba meira um þessi mál, en til þess gefst vitanlega tími seinna, og þar sem ég hef nú í stuttu máli vitnað í skýrslur um það, sem hefur gerzt í landbúnaðinum síðustu árin, skýrslur, sem sanna það sem betur fer, að bændastéttin er ekki á vonarvöl, tel ég, að það sé ekki nauðsynlegt að segja meira nú og sízt þegar fundartímanum er lokið. Ég endurtek það, að ég mun vilja beita mér fyrir því, að lausaskuldum bænda verði breytt í föst lán, ef möguleikar verða til þess, og það verður vitanlega kannað, og ég viðurkenni erfiðleika hjá a.m.k. hluta bændastéttarinnar, sem hefur búið við kal og harðindi, en það að gera myndina það dökka og halda því jafnvel fram, að stéttin sé í úlfakreppu, verður ekki málefnum bændanna til neins gagns, og það held ég, að hv. 1. þm. Vesturl. ætti að gera sér grein fyrir.