06.02.1968
Efri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. fyrir, hvað hann tók vel í það og taldi það nauðsynlegt, að lausaskuldum hjá bændum og fyrirtækjum þeirra yrði breytt í föst lán til langs tíma. En hæstv. ráðh. skildi málflutning minn á þann veg, að ég hefði málað mikið dekkri mynd af ástandinu í þessum málum heldur en sú mynd er raunverulega. En þó gat ég ekki fundið það í einu einasta atriði, að hæstv. ráðh. vefengdi eina einustu tölu eða neinar þær upplýsingar, sem ég kom með í ræðu minni, svo að ég ætla, að sú mynd, sem ég dró upp af þessu ástandi, hafi við sannindi að styðjast. Aftur á móti gat hæstv. ráðh. þess, að ástandið almennt í landinu væri nú alls ekki gott, og það væri ekki verra hjá bændunum en yfirleitt hjá verkamönnum, sjómönnum og almennt séð í landinu, að mér skildist, og verð ég að kalla þetta mikla framför, að svo háttsettur maður skuli viðurkenna þessa hluti nú eftir nokkra mánuði, eins og ástandið var gott síðast í maímánuði og í byrjun júní á s.l. ári. Þá voru ekki nein vandræði á ferðinni, en ansi hefur þetta versnað mikið síðan.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um útflutningsuppbætur og taldi, að þær hefðu m.a. orðið orsök þess, að bændur hefðu alltaf fengið fullt grundvallarverð fyrir afurðir sínar, frá því að framleiðsluráðslagabreytingin var gerð 1960 og útflutningsuppbætur voru lögfestar. Hins vegar liggur það fyrir, að bændur hafa fengið grundvallarverð fyrir afurðir frá árinu 1955 að því er mér er tjáð af framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og ég þekki hann ekki að því að fara með villandi tölur. En ég vil ræða nokkuð meira um þessar útflutningsuppbætur. vegna þess að þær hafa tíðkazt allt frá árinu 1955.

Árið 1955 voru veittar 10.2 millj. kr. í útflutningsuppbætur eða 2% af ríkisútgjöldum fyrir það ár. Og árið 1957 voru útflutningsuppbætur til landbúnaðarins 53 millj. kr. eða 6.5% af ríkisútgjöldum. Árið 1958 voru greiddar 59.1 millj. kr. í útflutningsuppbætur eða 7.3% af ríkisútgjöldum. 1959 er þessi upphæð 72.5 millj. kr. eða 7% af ríkisútgjöldunum. 1960 er þessi upphæð 26 millj. kr. eða 1.7% af ríkisútgjöldum. 1961 er upphæðin 31.5 millj. kr. eða 2% af ríkisútgjöldum. Árið 1962 er þessi upphæð 56.3 millj. kr. eða 3.2% af ríkisútgjöldum. 1963 98 millj. eða 4.5% af ríkisútgjöldum. 1964 115 millj. kr. eða 4.3% af ríkisútgjöldum og 1965 183 millj. kr. eða 5.2% af ríkisútgjöldum og 1966 214 millj. kr. eða 5.6% af ríkisútgjöldum. Ég held, að þessar tölur séu nokkuð réttar, og enda þótt það hafi ekki staðið beint í l., að það væri skylda að veita útflutningsuppbætur, vitum við það allir ákaflega vel, að það voru greiddar útflutningsuppbætur í margvíslegu formi á árunum 1955—1960. Og þá var alltaf venja, að landbúnaðurinn nyti þeirra hæstu útflutningsbóta, sem sjávarútvegurinn hlaut — þeirra hæstu útflutningsuppbóta, sem sjávarútvegurinn hlaut hverju sinni á því árabili. Eins og fram kemur í þessum tölum, sem ég las, hafa útflutningsbætur numið minni hundraðshluta af útgjöldum á fjárl. hin síðari ár heldur en þau voru á því 5 ára tímabili, sem ég gat um.

Það er alveg rétt, að útflutningsuppbætur í því formi, sem nú er, voru lögfestar með breytingu á framleiðsluráðsl. árið 1960, eftir að þá hafði staðið yfir allmikil deila út af verðlagsmálum landbúnaðarins og þeim brbl., sem ríkisstj. gaf út haustið 1959. En þess er vert að geta og minna á í þessu sambandi, að þetta lagaákvæði um 10% útflutningsuppbætur af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, kom í staðinn fyrir annað ákvæði, sem gilt hafði í l. áður. Og það var þess eðlis, að bændasamtökin eða Framleiðsluráð hafði heimild í l. til þess að hækka verðið innanlands, ef sýnilegt var, að bændur fengju ekki grundvallarverð fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir. Um þetta ákvæði var deilt, og málaferli hófust út af þessari lagagr., sem fóru á þann veg, að bændur unnu málið fyrir Hæstarétti, og þessi heimild í l. var þar með talin fullgild og að lögum farið með verðlagningu landbúnaðarafurða. en þetta ákvæði l. var numið úr lögum, þegar útflutningsbæturnar voru lögfestar.

Ég býst við, að einu árin, sem ekki næst grundvallarverð fyrir afurðir bænda, verði árin 1966 og 1967. Og það er heldur ekki sýnilegt, að það verði þægilegt að ná því lága grundvallarverði, sem ákveðið er með þeim gerðardómi, sem fjallaði um verðákvörðunina nú á s.l. vetri. Og í þeirri áætlun, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins mun hafa gert, þurfa útflutningsuppbætur að vera um 100 millj. kr. meiri til þess að líkur séu á því, að það verði hægt að ná því lága verði, sem ákveðið var með gerðardómnum. Og það væri fróðlegt að vita, hverjar ráðstafanir hæstv. landbrh. hyggst gera í því samhandi, að bændur nái grundvallarverði fyrir afurðir á verðlagsárunum 1966 og 1967 og 1967 og 1968.

Hæstv. ráðh. minntist nokkuð á hækkun kaupgjalds í landinu, og hann taldi, að ef árið 1958 er lagt til grundvallar með töluna 100, hafi breytingin orðið þessi á kaupi verkamanna, iðnaðarmanna og bænda. — Ég veit ekki, hvaða ár hann hefur átt við, en ég ætla, að það sé fremur árið 1965 en 1966. — Þá hafa laun verkamanna hækkað upp í 227, iðnaðarmanna í 217 og bænda í 286, eða þ.e.a.s., kaup bænda eftir þessu hefur hækkað meira en kaup verkamanna og iðnaðarmanna. Ég held, að það sé ótvírætt, að í þessum tölum sé miðað við tímakaup hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum. En slíkt er ekki til staðar hjá bændum, vegna þess að þeirra kaup er ekki hægt að reikna út í tímum. Og það, sem væri þá frambærileg tala í þessum efnum, er heildarkaup, árskaup eða árstekjur þessara viðmiðunarstétta, en ekki tímakaupið, og þá býst ég við, að þessi hlutföll yrðu nokkuð önnur en þarna hefur fram komið.

Árið 1966 og raunar 1967 líka eru tekjur bænda í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins áætlaðar 198 þús. 358 kr., en á sama tíma er vitað, að kaup viðmiðunarstétta þeirra, ef farið hefði verið eftir gamla lagaákvæðinu, sem gilti, var kaup þeirra stétta 245 þús. 532 kr. eða 47 þús. kr. hærra en það kaup, sem bændur hafa samkv. lögum. Og hér er því greinilegt, að það er mikið hallað á bændastéttina miðað við aðrar stéttir og frá því, sem verið hefur.

Ég skal játa það, að það hefur margt áunnizt í verðlagsmálum landbúnaðarins, þótt það sé ekki nægjanlega mikið til þess að standa straum af þeim nauðsynlega kostnaði, sem bændur þurfa að inna af hendi á ári hverju. Og ein af ástæðunum fyrir því, að kauphækkun bóndans í verðlagsgrundvellinum kemur ekki að tilætluðum notum, er sú, að aðrir liðir í verðlagsgrundvellinum eru of lágt reiknaðir og taka það mikið af kaupi bænda til sín, að þrátt fyrir þá hækkun, sem orðið hefur á kaupi bænda, hafa þeir ekki notið þeirrar hækkunar, vegna þess að það hefur vantað á aðra kostnaðarliði í verðlagsgrundvellinum. Og þeir hafa því ekki raunverulega fengið það kaup, sem þeim hefur verið ætlað samkv. útreikningi.

Þá gat hæstv. landbrh. þess, að fjármunamyndun í landbúnaði hefði verið 90 millj. kr. hærri árið 1966 en árið 1958, og að þetta væri reiknað eftir verðlagi ársins 1960. Þessar tölur ætla ég mér alls ekki að vefengja, og ég tel, að þær brjóti ekki í bága við neinar þær tölur, sem ég nefndi í framsöguræðu mínni. Það stendur því haggað, sem ég sagði um ríkisframlög og stofnlán til fjármunamyndunar, að þau hafa lækkað. þau hafa rýrnað frá árinu 1958 til ársins 1966. Og þar í liggur m.a. ein orsök þess, að lausaskuldasöfnun bænda hefur orðið jafn mikil og raun ber vitni um. Bændurnir verða samhliða því, að þeir verða nú að leggja meira fram af eigin fjármagni, ef þeir ættu það, þá verða þeir að safna meiri lausaskuldum en áður, ef þeir eiga að inna af hendi hliðstæðar framkvæmdir og standa undir búrekstrinum líkt og þeir hafa gert á undanförnum árum.

Það, sem ljóst er og frv. þetta er byggt á, er, að lausaskuldasöfnun bænda hefur vaxið mikið hin síðari ár og heildarskuldir þrefaldazt siðan 1960 til ársloka 1966, og lausaskuldir hafa því vaxið meira á þessu tímabili, mun meira, en föst lán. Á það vil ég minna, að árið 1967 var mjög óhagstætt bændum, og því allar horfur á, að skuldir séu nokkru meiri nú en vitað er um, og mun það koma í ljós við rannsókn síðar.

Hæstv. landbrh. gat þess, að það þætti ekki mikið að skulda 1/2 millj. kr. hér í Reykjavík út á eitt íbúðarhús. Og ég er honum sammála í því, að út af fyrir sig er það ekkert mikið. En þessi skuldaupphæð er ekki sambærileg við það að skulda 1/2 millj. til sveita, og það liggur í því, að verðmæti íbúðarhúss hérna í höfuðborginni stendur venjulega fyrir sínu, að er alltaf hægt að selja það á fullu verði, sem ekki er hægt með jarðir hér og þar út um sveitir, og því er geysilegur munur á því að skulda 1/2 millj. einhvers staðar og einhvers staðar úti á landi eða 1/2 millj. í íbúð hér í borginni, af því að verðmæti fasteignanna er svo margfalt meira hér í höfuðborginni en víðast hvar annars staðar á landinu.

Um leið og lausaskuldum bænda er breytt í föst lán, þarf jafnframt að koma í veg fyrir það, að lausaskuldir safnist áfram í stórum stíl, og þá þarf að hafa tvennt í huga, að veita öll stofnlán til lengri tíma en nú er gert og láta þau ná til alls, sem lagaheimildir eru til fyrir. En það er býsna margt, sem ekki eru veitt lán til nú, sem lög heimila. Jafnframt þessu verða bændur að fá hærra verð fyrir framleiðsluvörur sínar, svo að ekki falli strax í það sama horf og nú blasir við. Ég hygg, að hæstv. landbrh. sé þetta allt vel ljóst, og ég skora á hann að gæta vel réttar bændastéttarinnar nú, ekki sízt, þegar skuldamál annarra atvinnuvega eru í athugun og endurskoðun.