06.02.1968
Efri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Hv. þm. lauk máli sínu með því að skora á mig að gæta hagsmuna bænda í skuldamálum þeirra, um leið og skuldamál annarra atvinnuvega eru fyrir tekin, og hann þakkaði mér fyrir það að hafa tekið vel í það að beita mér fyrir því, að lausaskuldum bænda yrði breytt í föst lán. Og ég sagði það hér um daginn, að ég vildi gjarnan athuga þá möguleika og beita mér fyrir því, eftir því sem fært þykir, enda hafði stjórn Stéttarsambands bænda áður rætt þetta við mig. Hins vegar vil ég ekkert fullyrða um það, hvort þetta tekst nú, því að það er vitanlega ekki hægara að koma þessum málum í kring nú, þegar þjóðarbúið hefur tapað 1/3 af útflutningsverðmæti sínu á s.l. ári, og aðrir atvinnuvegir standa m.a. þess vegna höllum fæti.

Hv. þm. þakkaði mér fyrir það, að ég skyldi hafa viðurkennt það, að allt væri ekki í bezta lagi núna, og það væri munur að heyra nú í mér eða ýmsum stjórnarsinnum í júnímánuði s.l. Að vísu gerðu stjórnarsinnar sér alveg grein fyrir því, að ef aflabresturinn héldi áfram, ef verðfallið héldi áfram, hlyti það að skapa erfiðleika. En það dreymdi engan um það á s.l. vori, að það vantaði þriðja part af útflutningsverðmætinu í þjóðarbúið, að það vantaði 2000 millj. kr. Og ég hef nú ætlazt til þess, að hv. 1. þm. Vesturl. gerði sér grein fyrir því, að það er eðlilegt, að af þessu stafi erfiðleikar og að þetta verður ekki skrifað á reikning ríkisstj. eða stuðningsflokka hennar.

Annars hefur þessi hv. þm. og sumir flokksbræður hans ekki viljað gera mikið úr því, þó að það vantaði þriðja partinn af útflutningsverðmætinu á s.l. ári. Ja, það hefði nú fiskazt jafnmikið og s.l. 5 ár að meðaltali, og verðið væri bara ekkert lægra núna en það hefði verið fyrir nokkrum árum, og þess vegna gæti allt verið í lagi nú þrátt fyrir þetta.

En hv. þm. veit það, að það hefur verið kostað miklu til. Tækin eru miklu fleiri og afkastameiri nú en þá, miklu meira fjármagn, sem hefur verið sett í þennan atvinnuveg en áður, og tilkostnaðurinn við framleiðsluna er ekki minni, heldur aðeins meiri en hann var í árslok 1965, þegar verðlag afurðanna var hæst. Þess vegna er ekkert undarlegt, þótt sjávarútvegurinn komist í þröng, þegar það skeður hvort tveggja, að aflinn bregzt að verulegu leyti og verðfallið hefur orðið eins geigvænlegt og raun ber vitni. Og það er vitanlega þjóðarbúið, sem verður í heild fyrir halla og tapi af þessum ástæðum. Og það er alveg víst, að ef ekki hefðu verið til fyrningar frá fyrri árum, varasjóðir, varagjaldeyrissjóðir, og ef ekki hefði verið búið að endurnýja fiskiskipaflotann og byggja fiskiðjuver og annað þess konar á fyrri árum ríkisstj., hefði hér verið komið vandræðaástand við síðustu áramót. En það er vegna fyrninganna, vegna þess að búið var í haginn á góðu árunum, sem þjóðfélagið í heild og þjóðarbúið hefur fram að þessu staðið þetta af sér, og sem betur fer hafa nú flestir atvinnu enn og lifa sæmilega þrátt fyrir þessi stóru áföll, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Og nú er það vitanlega sameiginleg ósk allra Íslendinga, að úr þessu rætist, að við fáum nú góða vertíð og síldveiði nærri Íslandi á næsta sumri, og þá er það, að fyrningar fyrri ára hafa orðið til þess, að þjóðarbúið hefur staðið af sér þessi miklu áföll, sem komið hafa, en sem sumir hv. framsóknarmenn vilja ekkert gera úr. Og það má segja það, að slíkt tal er barnalegt og fáir taka nú mark á.

Það er dálítið leiðinlegt, þegar góðir og gegnir menn tala þannig. Það var t.d. einn maður, sem kom að máli við mig. Hann hafði hlustað á umr. hér, þegar þær byrjuðu, og hlustaði á framsöguna. Hann hafði heyrt það, að frsm. sagði eitthvað á þá leið, að það væri aðeins lánað til 5 ára út á vélar. Þessi maður, sem hefur verið í sveit, spurði mig að því, hvernig þetta hefði verið, á meðan framsóknarmenn voru í stjórn. Ég veit það ekki, sagði ég. Þá var ekkert lánað út á vélar, ekki til 5 ára. Það var ekkert lánað út á vélar. Og hann spurði enn fremur: En út á bústofninn? Hv. 1. þm. Vesturl. sagði, að það væri ekkert lánað út á bústofninn. Það var alveg eins þá. Það var ekkert lánað út á bústofninn þá, þegar þessi hv. þm. studdi ríkisstj. En út á vinnslustöðvar landbúnaðarins, þeir höfðu þó lánað ríflega út á þær? Nei, ekki heldur, sagði ég. Þeir lánuðu ekkert út á vinnslustöðvar þá. Það var fyrst núna, eftir að núv. stjórn kom til valda. Þeir eru þá bara svona, sagði maðurinn. Þeir eru þá bara svona að heimta allt af öðrum, gera svo miklu hærri kröfur til annarra en sjálfs sín. Og okkur sjálfstæðismönnum þykir það ágætt, þegar hv. framsóknarmenn gera fyrir hönd landbúnaðarins miklu hærri kröfur til okkar heldur en þeim hafði dottið í hug að gera til sinna manna, því að það er rétt, að þá var ekkert lánað út á vélar, þá var ekkert lánað út á bústofn, þá var ekki lánað út á vinnslustöðvar úr Stofnlánasjóði.

En hvernig er þetta með lánstímann, sem hv. þm. er alltaf að tala um, að hafi verið styttur? Lánstíminn hefur ekki verið styttur. Hann er sá sami og hann hefur verið, 42 ár út á íbúðarhús og 20 ár út á útihús. Það er nákvæmlega sami lánstíminn, þó að þessi hv. þm. sé alltaf að tala um, að lánstíminn hafi verið styttur. Þá segir þessi hv. þm. og endurtekur það nú, að skuldasöfnun sé vegna þess, að stofnlánin hafi minnkað, þau hafi lækkað frá því, sem þau voru 1958. En hvað segja opinberar skýrslur? Opinberar tölur, sem þessum hv. þm. dettur ekki í hug að véfengja? Þær segja, að útlán stofnlánadeildarinnar hafi aukizt um 300% síðan 1958, en byggingarvísitalan hefur hækkað á þessum tíma um 122%. Er þetta nú ekki nógu skýrt til þess, að það verði ekki oftar sagt hér í hv. Alþ. eða annars staðar, að stofnlán úr stofnlánadeildinni hafi lækkað? Ég veit ekki, hvort það væri reynandi fyrir þennan hv. þm. að segja þetta á fjöldafundi, svo að e.t.v. tryði því einhver. En það þýðir ekkert að vera að segja það hér í hv. Alþ.

Hv. þm. hefur oft talað um vextina og grundvöllinn, sem verðlag búvöru er byggt á, en á meðan þessir hv. þm., hans flokkur, fór með þessi mál, þá fengu hændur ekki reiknaða vexti af eigin fé í verðlagsgrundvellinum. Það var ekki tekið til greina, þótt þeir hefðu mikið fjármagn og eigið fé í búinu, þeir fengu enga vexti af því. En þetta var þó tekið upp 1960 eða 1961 og munar allmikið um það nú. Er þetta aðeins ein af þeim leiðréttingum, sem hafa verið gerðar á verðgrundvellinum.

Hv. þm. viðurkennir, að það hafi ýmsar leiðréttingar verið gerðar í verðlagsmálum, og hann rengdi heldur ekki þær tölur, sem ég las hér upp úr opinberum skýrslum um það, hversu kaup bænda hefði hækkað mikið umfram kaup verkamanna og iðnaðarmanna. Hann vitanlega viðurkenndi, að þær tölur væru réttar, en þá ætlar hann að snúa sig út úr því og segja; ja, þetta er tímakaupið, en á hverju byggjast árstekjurnar, ef þær byggjast ekki á tímakaupi, og hvernig var þetta fyrir 1958 og á því herrans ári? Var það ekki miðað við tímakaupið? En tímakaup bænda hefur hækkað þetta miklu meira en iðnaðarmanna og verkamanna á árunum 1959—1966, vegna þess að bændur voru, meðan hv. framsóknarm. fóru með þessi mál, svo langt á eftir í kaupi og tekjum. Og nú, þegar hv. 1. þm. Vesturl. er að tala um það, að bændur hafi lægri tekjur en aðrar stéttir, þá er hann aðeins að undirstrika það, hversu langt bændur voru áður á eftir, úr því að þessi leiðrétting, sem þeir nú hafa fengið og er viðurkennd, nægir ekki til þess, að þeir sitji nú við sama borð og aðrar stéttir.

Ég hef haldið því fram, að með þessum leiðréttingum, sem fengizt hafa, séu bændur mjög nærri því að hafa sambærilegar tekjur og aðrar stéttir. Hitt er svo rétt, að meðaltekjur bænda yfir allt landið eru nokkru lægri, og það er vegna þess, hversu margir bændur eru með lítil bú, sem ekki geta gefið nema litlar tekjur. Það sannar alls ekki það, að bændur með sæmileg bú beri ekki frá borði svipað og aðrir, sem vinna fullan vinnudag.

Þá talaði hv. þm. dálítið um útflutningsuppbætur og sagði, að þær hefðu verið greiddar síðan 1955, bændur hefðu fengið fullt grundvallarverð æ siðan, en það gæti verið vafasamt fyrir verðlagsárið 1966 til 1967 og 1967 til 1968. Hv. þm. óskar eftir svörum frá mér, hvaða aðgerðir ég vil viðhafa til að tryggja þetta, ef útflutningsuppbæturnar nægja ekki. Ég hef ekkert um það að segja í dag annað en það, að ég get ekkert um það sagt, hvort ég hef nokkur ráð í hendinni til að bæta úr því, ef þær ekki nægja, en það er allt of snemmt að fullyrða nokkuð um það, en hitt er svo algjörlega rangt, að bændur hafi fengið fullt grundvallarverð allt frá árinu 1955 Uppbæturnar voru mjög litlar, sem bændur fengu úr útfl.sjóði á árunum 1955 til 1960, og ég get aðeins minnt á það, að á árunum 1957—1958, þegar mjólkurbúin fluttu út ost, vantaði í Flóabúinu allt að 10% á mjólkurverðið, vegna þess að osturinn var fluttur út fyrir lágt verð, en útflutningsuppbætur fengust ekki á ostinn, og þetta var ekki aðeins hjá Flóabúinu, þetta var vitanlega eins hjá öllum mjólkurbúum um allt land, en samt fullyrðir hv. 1. þm. Vesturl., sem er í stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem er í bankaráði Búnaðarbanka Íslands, sem hefur setið í fjöldamörg ár á Alþ., að bændur hafi alltaf fengið fullt grundvallarverð allt frá árinu 1955. En hvers vegna fullyrðir maðurinn þetta? Ef hann væri nú á bændafundi og talaði svona við bændur. Hvað mundu bændur segja um svona fullyrðingar, sem eru hrein mótsögn við staðreyndirnar? Ég skil það ekki, hvers vegna hv. þm. er með þessar fullyrðingar hér. Svo segir hv. þm., að það hafi verið ákvæði í framleiðsluráðsl., sem hafi tryggt bændur, áður en l. frá 1960 tóku gildi, bændur hafi haft heimild til þess að hækka verð innanlands með það fyrir augum að borga hallann af útfluttum afurðum. Þetta ákvæði var nú mikils virði. Það fékkst svo staðfest í Hæstarétti, að bændur áttu þennan rétt, en þeir gátu aldrei notað þennan rétt, vegna þess að innanlandsmarkaðurinn var alltaf takmarkaður. Og með því að hækka innanlandsverðið til þess að fá fé í útflutningsuppbætur, þá var það til þess að ræða við fjmrh. og spyrja hann að það sem flytja átti út varð meira, og þetta vann þannig hvort á móti öðru. Og þetta vissu bændur. Þess vegna var það á Búnaðarþingi 1957, að mikið af tíma þingsins fór í það að ræða um offramleiðslu og þau vandræði, sem bændastéttinni stafaði af því, ef þyrfti að fara að flytja mikið út af afurðum fyrir lágt verð, og það var þá, — og ég veit, að hv. l. þm. Vesturl. man eftir því, — að það var send nefnd manna til þess að ræða við fjármrh. og spyrja hann að því, hvort hann vildi ekki opna ríkiskassann og láta eitthvað í útflutningsuppbætur, því að nú horfði illa fyrir bændum. En hvaða svör fengu þessir menn hjá ráðh.? Þeir fengu þau svör, að það væru engir peningar til. Þetta gat verið satt. Ég trúi því, að það hafi verið ástæðan, frekar en að ráðh. hafi ekki viljað láta peninga. En ef það hefði nú verið satt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að bændur hefðu alltaf fengið fullt grundvallarverð, útflutningsuppbætur hefðu alltaf verið greiddar, hefði þá Búnaðarþing þurft að senda nefnd manna upp í fjmrn. til þess að knýja út úr fjmrh. eitthvað af peningum í útflutningsuppbætur? Nei. Og bændur, sem eru í framleiðsluráði og í stjórn stéttarsambandsins, hafa sagt við mig, að þetta lagaákvæði um heimild til þess að mega hækka verðið innanlands hafi raunverulega verið einskis virði. Og það var þess vegna mikils virði fyrir bændur að fá það lögfest, að það mætti greiða í útflutningsuppbætur 10% af heildarverðmæti landbúnaðarafurða. Það hefur nægt fram að þessu, en hvort það nægir í ár, ætla ég ekkert að fullyrða um.

Hv. þm. viðurkenndi, að það væri rétt, að fjármunamyndun í landbúnaðinum hefði verið mikil síðustu árin, og þá vitanlega leiðir það af sjálfu sér, að hann viðurkennir, að skuldaraukning af þessum ástæðum er eðlileg, og þá held ég, að hann sé farinn að nálgast ástæðuna fyrir því, að eitthvað hefur safnazt af lausaskuldum, þá réttu ástæðu, en þá ætti hann líka að fjarlægjast það, sem hann staðhæfði hér áðan, að ástæðan væri, að þau hefðu verið tiltölulega minni, þau hefðu minnkað, stofnlánin úr stofnlánadeildinni.

Ég sé nú ekki, að það sé í rauninni ástæða til að fara öllu fleiri orðum um þetta, ég hef hér aðeins að gefnu tilefni viljað sýna fram á, að málflutningur hv. þm. var að ýmsu leyti dæmalaus. Hitt er svo ekkert óvenjulegt, þótt hann flytji mál eins og þetta frv., og það er ekkert óvenjulegt, þótt dregið sé fram, það sem er eðlilegt og rétt í málefnum bændastéttarinnar, en það er hægt að reiða svo hátt til höggs, að það verði ekkert úr því, og það verður oft, sem ekkert verður úr því með þannig tilburðum, og ég held, að ef hv. þm. temdi sér það nú eftirleiðis að halda sér við staðreyndirnar og tala máli bænda á hóflegan hátt og af raunsæi, þá yrði tekið miklu meira mark á því, sem þessi þm. hefði fram að færa, en með málflutningi eins og hann hefur haft í sambandi við hetta frv.