06.02.1968
Efri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki nema í örfáum orðum að ræða það frv. til l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, sem hér liggur fyrir til umr. Það má segja, að það sé ekki nema eðlilegt, að það sé komið fram, og það mun almennt viðurkennt, að meðal bænda hafi safnazt nokkuð af lausum skuldum, eins og gert hefur hjá fjölmörgum öðrum atvinnustéttum í landinu og viljað brenna við öðru hverju, ekki einungis hin síðari ár, heldur af og til. Það sanna ýmsar aðgerðir, sem þurft hefur að gera í þessum efnum áður.

En það, sem gefur mér tilefni til þess að segja um þetta nokkur orð, það er, að ég er ekki að öllu leyti sammála 1. flm., hv. 1. þm. Vesturl., um þær ástæður, sem hann telur fyrst og fremst til þess liggja, að til þessarar lausaskuldasöfnunar hefur komið hjá bændum. Hann taldi í sinni framsöguræðu, að fyrst og fremst lægju til þess fjórar orsakir, að til þessara skulda hefði verið stofnað. Í fyrsta lagi, að fjárfestingin í landbúnaðinum hefði kostað mikla fjármuni, í öðru lagi, að bændur væru skattlagðir til þess að fá einhverja úrlausn hjá stofnlánadeildinni, í þriðja lagi, að verðlagsákvörðun landbúnaðarvara var ekki gerð skv. l. á s.l. hausti og í fjórða lagi erfitt árferði og grasbrestur.

Þessar ástæður, sem hann taldi hér fram, álít ég, að þurfi nokkurrar endurskoðunar við. Hann gerði tilraun til þess að byggja sínar ályktanir á skýrslu, sem landnámsstjóri hefur birt, jarðaskrá Landnáms ríkisins, og ég vil taka undir það, að það er mjög eðlilegt, að þegar um slík mál er rætt, sé hún lögð til grundvallar. Ég hygg, að hún sé þannig undirbúin, að henni megi treysta.

En það, sem fyrst vekur athygli manns, þegar rætt er um stöðu landbúnaðarins, það er það, hversu fækkað hefur þeim mönnum, sem stunda framleiðslustörfin við landbúnaðarvinnuna, en um leið og það er haft í huga, þarf líka að taka það með í reikninginn, að framleiðslan hefur vaxið, hún hefur vaxið þrátt fyrir það, að nú vinni ekki að framleiðslunni nema 10—11% af þjóðinni, hún hefur vaxið frá því sem var, þegar um 70% af þjóðinni framleiddu landbúnaðarvörur. Til þess að þessi breyting geti átt sér stað, til þess að færra fólk geti þannig framleitt meira en fleira fólk gerði áður, hefur að sjálfsögðu orðið að leggja í geysilega mikinn kostnað, enda hafa landbúnaðarmenn ekki legið á liði sínu í því að taka í sína þjónustu vélvæðinguna og tækniþróun ýmiss konar til þess að ná þessu setta marki. Fyrir það, að þetta er viðurkennt, að til þessara ráða hafi verið sjálfsagt að gripa, þá hafa verið gerðar um það öðru hverju áætlanir, hversu mikið fé þurfi að leggja í landbúnaðinn á hverjum tíma til þess að ná þeirri þróun, sem nauðsynleg er til þess að standa þarna vel í stykkinu. Meðal annars af þeim sökum gerði Stéttarsamband bænda framkvæmdaáætlun fyrir áratuginn 1961—1970, og þar sem skýrslur ná nú yfir fyrri helminginn af þeim áratug, má gera nokkurn samanburð á því, hvernig til hefur tekizt.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun Stéttarsambandsins þótti eðlilegt og nauðsynlegt, að landbúnaðurinn fjölgaði dráttarvélum hjá sér um 2000 stk. á þessum tíma, eða 4 þús. dráttarvélar var talið, að þyrfti að kaupa á einum áratug, en á 5 árum þá 2 þús. stk. Í framkvæmd hefur þetta orðið svo, að bændur hafa keypt 2.944 stk. á þessum 5 árum, þeir hafa sem sagt farið töluvert langt fram úr þeirri áætlun, sem þarna var sett upp af Stéttarsambandi bænda.

Þá gerði Stéttarsamband bænda og framkvæmdaáætlun þess ráð fyrir því, að ræktunarland þyrfti að auka á þessum hálfa áratug um 17500 hektara, en í framkvæmdinni hefur þetta orðið svo, að ræktaðir hafa verið á þessu 6 ára bili, 21300 hektarar, og er þar enn farið langt fram úr þeirri áætlun, sem gerð hafði verið. Ég vil ekki þreyta þingdeildarmenn á því að lesa þessa áætlun upp alla, en ég tel þó ástæðu til að taka einn þátt í henni enn og geta þar um íbúðarhúsabyggingarnar.

Í áætlun Stéttarsambandsins var gert ráð fyrir því, að á áratugnum yrðu byggðar 700 íbúðir eða 350 íhúðir á 5 árum. Í framkvæmd hefur þetta orðið svo, að byggð hafa verið 530 hús eða 530 íbúðir á þessu 5 ára tímabili. Það er því eðlilegt og mjög eðlilegt, að stofnlánasjóðirnir hafi ekki nægt bændum að fullu til þess að mæta allri þessari fjárþörf, þegar hún er svo hröð og fer langt fram úr þeirri áætlun, sem gerð hafði verið af þeim mönnum, sem bezt þekkja til. En það, að svona hefur verið unnið hratt að þessum málum, er einungis því að þakka, að á Alþ. hefur verið komið á þeirri landbúnaðarlöggjöf, þeirri framfarastefnu í landbúnaði, sem hefur orðið til þess að kalla og laða fram framkvæmdarvilja og framkvæmdarþrek ísl. bænda, og ég hygg, að það sé ekki annað en gott um það að segja og sérstaklega nauðsynlegt, einmitt fyrir þá sök, að það hefur fækkað þeim mönnum, sem unnið hafa að framleiðslumálum í landbúnaði.

Það er aðeins annað atriði, sem hv. 1. flm. frv. vék að, sem ég er ekki alls kostar ánægður með, hvernig hann las úr skýrslum landnámsstjóra, og það er varðandi ræktunina og það minnkandi heymagn, sem hann taldi vera mjög mikið af hverjum hektara lands. Það er alveg rétt, að þegar maður litur á þessar skýrslur frá landnámsstjóra, má í fljótu bragði lesa út úr þeim þær tölur, sem hv. 1. þm. Vesturl. gaf hér upp í sinni ræðu. Ef ég man rétt, þá reiknaði hann með því, að ræktað land væri alls um 100 þús. hektarar og uppskerumagnið væri 3 millj. og 300 þús. hestburðir eða 33 hestburðir af hektara. Nú er það svo, að ræktað land á þessum tíma, 1965, það má jú segja, að það sé upp undir 100 þús. hektarar, það er þó ekki nema 98200 hektarar, en það er fleira, sem þarna kemur til, og það er upplýst hér einnig, að matjurtagarðar og land fyrir einærar fóðurjurtir hafa verið 1900 hektarar, og það er tekið með í þessa heildarupphæð stærðar á ræktuðu landi, sem hér er til færð, en megnið af þessu landi gefur áreiðanlega ekki framtalda töðu eða grasræktun. Það er talað þarna um matjurtir, sumt heyrir til matjurtagörðum, annað er blátt áfram notað til þess að beita á það á haustin, og það kemur aldrei í hlöðu og kemur því aldrei á tíund sem skapandi heybót. Í öðru lagi má einnig geta þess, að í landinu eru á þessum tíma tæplega 60 þús. nautgripir. Og það fer meira og meira í vöxt að beita þessum nautgripum að verulegum hluta á ræktað land að sumrinu allan útbeitartímann, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið haldbeztar, þá mun ekki veita af því að ætla hverjum grip 0,4—0,5 hektara til beitar yfir sumartímann. Ef við áætlum nú, sem væri mjög eðlilegt, að beitt væri svona helmingnum af þessum nautgripum á tún allt sumarið, þá er það um 30 þús. nautgripir, og þá mundi þurfa um 15 þús. hektara lands fyrir þessa beit, og þó að við legðum svo þar ofan á allt það gras, sem sauðféð tekur af túnunum bæði á vori og hausti, þá sjáum við, að við verðum þó komnir með grasið af hverjum hektara upp yfir 40 hesta með þessum útreikningi, og það hygg ég, að muni vera sanni nær en það, sem hv. flm. taldi hér fram. Hinu vil ég alls ekki gera lítið úr, að kal og önnur óáran hefur sitt að segja, er æði mörgum þung í skauti og verkar á sumum svæðum, en í heild yfir landið, finnst mér, að ekki megi taka tölurnar þeim tökum, sem fyrsti flm. gerði hér, og því þótti mér rétt, að þetta álit mitt kæmi hér fram.

Ég vil svo að lokum aðeins geta þess, að ég fagna því, að framsóknarmenn í þessari hv. deild skuli hafa komið fram með frv. um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán, og ég vænti þess, að árangurinn af því verði sá, að ef þessum málum verði hægt að bjarga, þá verði þessi afstaða þeirra til lánamálanna til þess, að meira gagn og almennara verði á þeirri ráðstöfun, sem gerð verður, en hún var árið 1962, þegar framsóknarmenn voru fullir af tortryggni gagnvart þessum málum og unnu þeim bændum sannarlega ekkert gagn með þeirri afstöðu sinni.