06.02.1968
Efri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Hjalti Haraldsson:

Herra forseti. Mig langar til að leggja hér örfá orð í belg í sambandi við þessar umr., sem hér hafa farið fram, og ég get þá byrjað á því, að ég er þakklátur Ásgeiri Bjarnasyni 1. þm. Vesturl. fyrir þetta frv., því að ég tel, að það sé mjög nauðsynlegt að koma bændum til aðstoðar í þeim þrengingum, sem þeir eru komnir í. Hitt má svo um deila, hverjum slíkt er að kenna, og vafalaust endalaust, en þegar maður lítur á þessar tölur, sem verið er að fara hér með, þá verð ég að segja það, að mér finnst þær blátt áfram vera hégómi, þegar litið er betur niður í kjölinn, og þegar tekin eru til athugunar viðskipti landbúnaðarins við jörðina.

Vitanlega byggist búskapurinn á viðskiptum við jörðina, og það hefur komið hér fram í þessum umr., að heyfengur hefur farið minnkandi, og það er ekki hægt að leyna því, að miðað við hvern hektara lands, þá hefur hann farið minnkandi, og hann hefur farið niður fyrir það, sem hann var um síðustu aldamót og þetta er dálítið ískyggilegt, — þrátt fyrir stóraukna ræktun, allar rannsóknir og allan áburðinn, sem við kaupum.

Um s.l. aldamót var heyfengurinn 36 hestburðir af hektara, en hann er nú 33 hestburðir af hektara, og hefur farið stöðugt minnkandi síðan árið 1960. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir um fjármunamyndun, sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði, að færi stöðugt lækkandi frá 1958 og lausaskuldir hefðu þrefaldazt á sama tíma, þá dettur manni í hug, hvort það gæti verið eitthvert samhengi þarna á milli. Ég er ekki frá því.

Nú kannske má segja það, að bændur séu einráðir um það, hvernig viðskipti þeirra við jörðina séu, en ég tel, að þeir séu það ekki. Það er einokun eða ríkiseinkasala á áburði, og hann er eitt mikilvægasta meðalið einmitt í þessum viðskiptum við jörðina. Nú skulum við segja, að þessi minnkun á uppskeru á hverjum hektara eigi sínar eðlilegu orsakir, það megi skýra hana með slæmu veðurfari og aukinni beit á ræktað land, meiri garðrækt o.s.frv., eins og hv. 5. þm. Sunnl. talaði um, en þá skulum við snúa okkur að öðru, sem er ekki eins auðvelt að vefengja eða gera lítið úr sem orsök fyrir minnkuðum heyfeng og það eru tilraunir þær, sem Tilraunaráð jarðræktar hefur gert á undanförnum árum og birtar eru af því og Atvinnudeild Háskólans.

Við skulum aðeins staldra við og athuga þessar tölur. Það eru samanburðartilraunir um notkun kjarna og kalksaltpéturs sem köfnunarefnisáburðar, miðað við, að grunnáburður af fosfórsýru séu 70 kg og 100 kg af kalí, og miðað við 100 kg af kjarna, sem er meðaláburðarnotkun bænda yfir landið. Þá kemur það í ljós, að uppskerutapið við að nota kjarna er 9 1/2 hestburður á hektara, minna en þar sem kalksaltpéturinn er notaður. Ef við nú litum á meðaltúnstærðina í landinu, sem er talin vera um 18 hektarar, þá eru þetta hvorki meira né minna en 162 hestburðir á meðalbýli í landinu og reiknað með því, að töðuhesturinn sé virtur á 300 kr., sem ég tel ekki ósanngjarnt, þá er tapið þarna á meðalbú á milli 50 og 60 þús. kr., og ef við tökum dæmið í heild, þá lítur það þannig út, að af 100 þús. hekturum lands, eins og ræktað land er talið vera, er uppskerutapið 900 þús. hestar eða 270 millj. ef það er reiknað í peningum. Hvað verður þá úr 145 millj., sem menn eru að stæra sig af, að hafi verið lánað úr stofnlánadeild landbúnaðarins á s.l. ári? Mér finnst þetta svo alvarlegar staðreyndir, þegar á þetta er litið, að það sé ekki hægt að loka augunum fyrir þeim.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fjölyrða meira um þetta, en mun gera það í sambandi við þáltil., sem ég hef lagt fram í Sþ. og ég fæ væntanlega tækifæri til að ræða um seinna.