06.02.1968
Efri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Hv. þm. endaði sína ræðu með því að segja, að hvorki ég né hv. 5. þm. Sunnl. hefði véfengt þær tölur, sem hann fór með. Við höfum ekki véfengt þær tölur, sem hv. þm. hefur lesið úr opinberum skýrslum, en þær tölur, sem hann hefur sjálfur búið til, höfum við véfengt og þær ályktanir, sem hann hefur dregið af ýmsu því, sem hann hefur komið fram með. Það höfum við véfengt og ekki aðeins það, heldur sýnt fram á, að það er bara ekki rétt, sem hv. þm. sagði.

Hv. þm. sagði hér áðan, að það hefði engin bústofnsaukning verið hér síðustu árin. Þetta segir maður, sem er í stjórn Búnaðarfélags Íslands, bóndi og alþm. í mörg ár. Ég hef ekki þessar skýrslur með mér, en það er hægt að fletta upp á þeim og sjá, að nautgripum hefur stórum fjölgað á síðari árum. Sauðfénu hefur líka fjölgað þó nokkuð, og framleiðsluaukningin hefur verið alveg gífurleg, sérstaklega í mjólkinni. Og það var þess vegna 1966, sem stjórn

Stéttarsambands bænda og framleiðsluráð talaði alvarlega um það að breyta til í framleiðslunni, vegna þess að mjólkurframleiðslan væri of mikil, og þegar Búnaðarþing var sett þetta ár. hafði ég orð á því og dró ályktanir af því, að ef kúnum væri fækkað sem svaraði einni kú á bónda, en sauðfénu fjölgað sem því næmi, yrðu útflutningsuppbæturnar drýgri, og forystumenn bændastéttarinnar voru þessu samþykkir þá. Að vísu kom ekki til greina að fækka kúnum, þar sem sízt skyldi í þeim sveitum, sem voru við aðalmarkaðssvæðið. En það er miklu hagstæðara enn í dag að flytja út kjöt en mjólk. Í haust fyrir gengisbreytinguna fengust ekki nema 23% af heildsöluverði mjólkurdufts, en það fengust 34% fyrir dilkakjötið. Ég geri ráð fyrir, að þessi munur hafi ekki minnkað eftir gengisbreytinguna. Og ég veit það, að stjórn Stéttarsambands bænda hefur núna nokkrar áhyggjur af því, að það þarf að flytja út mjólkurduft og mjólkurvörur, sem eru dýrari í uppbótum en kjötið, enda þótt ekki sé hagstæður markaður fyrir útflutt kjöt.

Það er rangt, að ég hafi nokkurn tíma lagt til, að bændur minnkuðu bústofninn. Ég var á sama máli og forystumenn bænda um það, að það gæti verið hagkvæmt að breyta til, að það er höfuðverkur forystumanna bænda enn í dag að finna það út, hvað hagstæðast sé að framleiða. Hv. þm. sagði, að það hefði alltaf verið lánað úr Búnaðarbankanum eftir þörfum áður, en þetta væri ekki nú. Hvað mundu nú bændur segja um það, ef þeir hlustuðu á þetta? Það var oft áður, sem það var ekki hægt að fullnægja óskum bænda f þessu efni. Á þessu ári var hægt að fullnægja öllum umsóknum um lán, sem fyrir lágu til bænda. Það hefur ekkert beðið af því, sem var tilbúið fyrir jól. Það hefur verið afgreitt. En það er fundið að því, að það skuli ekki vera lánað nema út á eina framkvæmd. Það breytir ekki því, að það hefur stórum aukizt frá því, sem var fyrir 1960, sem nú er lánað úr stofnlánadeildinni, eins og áður hefur verið vikið að.

Hv. þm. talaði um, að ríkisframlög til framkvæmda í landbúnaði hefðu lækkað. Ég vildi nú biðja hv. alþm. að fletta upp á fjárl. 1958 og þeim fjárl., sem samþ. voru núna fyrir jólin. Þá kemur í ljós, að framlög til landbúnaðarins hafa aukizt á 4. hundrað prósent frá því 1958. Ræktunarkostnaður, hvað ætli hann hafi hækkað? 1966 var það út reiknað, að það var um 99%, en það er eitthvað meira núna. Segjum 110–120%. En framlagið á fjárl. hefur hækkað á 4. hundrað prósent. Svo segir hv. þm., að ríkisframlögin hafi minnkað. Þetta getur nú ekki staðizt.

Þá talaði hv, þm. um Sláturfélag Suðurlands. Það hefur nú bara alls ekki fengið rekstrarlánin aukin frá því 1958 eða 1959. Það gleður mig að heyra, að Sláturfélag Suðurlands er orðið svona efnað, að það hefur komizt af með sömu fjárhæð í rekstrarfé til lána úr bönkunum eins og það fékk 1958 og 1959. En hvað mundi nú stjórn Sláturfélags Suðurlands segja, ef hún hlustaði á þetta? Mundi hún ekki brosa? Ég held, að Sláturfélagið eins og önnur fyrirtæki hafi nú einhvers staðar fengið fé og hvað eigum við að kalla það annað en rekstrarfé. Vitanlega hefur Sláturfélagið fengið stórum aukið rekstrarfé eins og önnur fyrirtæki á þessum árum. Annars hefði starfsemin ekki getað haldizt, og Sláturfélag Suðurlands hefur borgað bændunum út ekki seinna og ekki minni hundraðshluta að hausti til nú en það hefur áður gert. Og það gat því aðeins gert þetta, að það fékk fyrirgreiðslu í hönkunum. Það er alltaf verið að tala um það, að rekstrarféð hafi ekkert verið aukið. Þetta er vitanlega algerlega rangt. Hvað er það annað en rekstrarfé, þegar fyrirtæki fá lán í hvaða formi sem það er. Þau fá önnur lán en stofnlán út á fasteignir, og það er vitanlega einnig rekstrarfé. Hv. þm. viðurkenndi það nú, að það hefðu ekki verið veitt vélalán eða vinnslustöðvalán úr stofnlánadeildinni fyrr en nú seinni árin. En hv. þm. sagði, að það hefði verið hægara að fá þá lán úr bönkunum með öðrum hætti en núna. Ég held nú satt að segja, að það hafi ekki verið hægara. Ég held, að aukningin á vélakaupum, dráttarvélum og öðrum vélakaupum til bænda, hafi orðið núna seinni árin m.a. vegna þess, að bændur áttu kost á að fá aukin lán til þessara vélakaupa frá því, sem áður hafði verið.

Eitt var það, sem mér fannst leiðinlegt að heyra, þegar hv. þm. var að óska ríkisstj. og stjórnarflokkunum til hamingju með það, að þeir skyldu glíma við að leysa þann eigin vanda; sem nú væri við að stríða í íslenzkum efnahagsmálum. Ég hefði nú búizt við því, að þessi hv. þm. og ýmsir flokksmenn hans mundu vilja ljá því lið að glíma við þann vanda, sem hefur steðjað að íslenzkum atvinnuvegum og íslenzku þjóðarbúi við það að missa þriðja partinn af útflutningsverðmætinu á s.l. ári. En svo segir hann hér í hv. d., að hann óski ríkisstj. til hamingju með það að glíma við eigin vanda. Ætlar þessi hv. þm. að halda því fram, að það sé ríkisstj. að kenna, þótt verðfall hafi orðið á afurðunum úti í heimi eða aflabrestur á miðunum? Hv. þm. getur sagt þetta. En ég vildi nú ekki ætla þessum hv. þm. svo illt, að hann segði þetta oftar.

Hv. þm. talaði dálitið um stofnlánadeildina og var að rifja það upp, hvernig tekjur hennar verða til. Það er 1% af framleiðslunni, sem bændur greiða í stofnlánadeildina. Það er 0.75% af heildsöluverði, sem neytendurnir greiða, sem er nú víst nokkurn veginn sama og 0.9%, ef það er reiknað eins og hjá bændunum. Það er fast framlag ríkissjóðs, jafnmikið og framlag bændanna, og auk þess 4 millj. kr. úr ríkissjóði, þannig að framlag ríkisins verður 4 millj. kr. hærra en framlag bændanna. En svo segir þessi hv. þm., að það ár, sem hann vitnaði í, ég held, að það hafi verið 1965, hafi vextir og afborganir til stofnlánadeildarinnar verið 34 millj. Það kemur líka frá bændum. Og þegar hann leggur þessar 34 millj. við framlag bændanna, sem var 15 millj., verða þetta 49 millj., og þá er það meiri hlutinn af tekjum deildarinnar þetta ár, sem bændur greiða. Og svona hefur þetta aldrei verið áður, segir hv. þm. Vextir og afborganir af lánum, sem bændur hafa tekið, er framlag frá bændum til deildarinnar, eftir því sem hann vill halda fram. En það hefur ekki verið áður. En vissulega borguðu bændur áður, 1958 og áður, vexti og afborganir af sinum lánum, sem sjálfsagt var, og þeir töldu það ekki framlag eða neinn skatt á sig. En hvers konar málflutningur er þetta og röksemdafærsla? Og sem betur fer hafa bændur tamið sér það að standa í skilum við stofnlánadeildina, og þeir gera það nú. Hv. þm. var að tala um það fyrir nokkrum dögum, að það væri miklu verra nú ástandið í stofnlánadeildinni en venjulega, en svo er nú ekki. En þegar neytendurnir borga með góðu til stofnlánadeildarinar hér um bil eins mikið og bændurnir, ættu nú bændurnir ekki að sjá eftir þessu, því að með því að borga þetta gjald til stofnlánadeildarinnar, er verið að byggja þarna upp sterka stofnun, sem mun verða lyftistöng fyrir landbúnaðinn bæði í nútíð og framtíð og er þegar orðin það og því meiri sem lengra líður. Og það er enginn vafi á því, að þetta eina prósent, sem þarna er greitt, á eftir að ávaxtast og reynast verðugt framlag bæði til nútíðar og sérstaklega til framtíðar. En þessi hv. þm. hefur nú aldrei fundið að því, þó að bændur borgi til bændáhallarinnar, en það er kannske þarfara að hans áliti.

Hv. þm. talaði um, að matsgrundvöllurinn væri ekki réttur, og þess vegna væru lánin, sem bændur fengju, allt of lítil miðað við tilkostnaðinn á hverja framkvæmd. Ja, hvað segir Þórir Baldvinsson, sem fer yfir matsgjörðina og reiknar út byggingarkostnaðinn? Hv. þm. er í bankaráði Búnaðarbankans og hann ætti að vita, hvað trúnaðarmaður bankans segir um þetta. Leggur hann til, að þessu verði breytt? Eða skyldi hann segja það, að matsgjörðin og lánin væru í samræmi við kostnaðinn? Ég hef frétt það, að það sé álit Þóris Baldvinssonar, byggingarfulltrúa og trúnaðarmanns Búnaðarbankans, að það sé ekki ástæða til að breyta lánareglunum, vegna þess að eins og þær séu fái lántakandinn eðlilega út á framkvæmdina.

Ég skrifaði nú niður hér þessi atriði. Ég hef nú, held ég, svarað flestu af því, sem hv. þm. minntist á, a.m.k. því, sem ég hef skrifað niður, og tel, að ég hafi nú enn á ný fært rök fyrir því, að tilvitnanir og fullyrðingar hv. þm., þegar hann fer með tölur og þegar hann leitast við að rekja sögu, hvort sem það er saga stofnlánadeildarinnar eða saga landbúnaðarins, eigi þessi hv. þm. ákaflega erfitt með að fara rétt með — einhvern veginn, kannske óviljandi, lesi hann skakkt af þeim blöðum; sem hann er með.