06.02.1968
Efri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

97. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það er nú þannig með hæstv. landbrh., að hann gerir öðrum upp orðin. Hann sagði m.a., að ég hefði sagt, að stofulánadeild landbúnaðarins væri nú í miklum vandræðum. Þetta eru orð hæstv. landbrh., en ég lét þessi orð aldrei falla, og er þetta ekki einsdæmi í hans málflutningi, því að hann gerir öðrum upp orðin, en hlustar ekki á staðreyndir.

Hæstv. landbrh. gat þess, að fjárframlög þess opinbera til landbúnaðarins hefðu stórhækkað á undanförnum árum. Ég hef alls ekki neitað því, að fjárframlögin hafi hækkað í krónutölu. En hæstv. ráðh. hefur enga tilraun gert til þess, enda íhygg ég, að það væri afar erfitt fyrir hann, að vefengja það, sem ég hef sagt, að bæði ríkisframlög og stofnlán stofnlánadeildar landbúnaðarins til framkvæmda í landbúnaði væru hlutfallslega minni í fjármunamyndun landbúnaðarins nú en 1958. Þetta eru staðreyndirnar. Það þýðir ekkert að vera að tala um tölur, sem ekki eru sambærilegar, því að af fjármunamynduninni 1964, sem er 440 millj. kr., þá eru veitt ríkisframlög 80.1 millj. kr. eða 18%, og stofnlán úr Búnaðarbankanum 77.8 millj. eða tæp 18% af fjármunamynduninni. Þetta eru 36%, en 64% verða bændurnir að leggja fram sjálfir, annaðhvort í lánum eða í eigin vinnu. Og þetta er um 8% lakara eða hærri hlutur, sem bændur verða að taka að sér 1964, en þeir þurftu að gera í fjármunamynduninni 1958.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að ég reiknaði með, að vextir hefðu ekki verið taldir til útgjalda hjá bændum áður, meðan þeir voru lægri. Það sagði ég aldrei. En hitt er vitað mál, að vaxtaútgjöldin til stofnlánadeildarinnar eru 60 — 70% lakari nú en þau voru 1959, þannig að af hverju 100 þús. kr. láni greiðir hlutaðeigandi bóndi miklu hærri vexti til stofnlánadeildarinnar nú en hann gerði á því tímabili, auk þess sem hann er sérstaklega skattlagður nú til stofnlánadeildarinnar.

Sá er munurinn á þeim sköttum, sem renna til stofnlánadeildar landbúnaðarins og bændahallarinnar, að það er engin trygging fyrir því, að bændur eignist eða eigi hluta í stofnlánadeildinni, en það eignast þeir í bændahöllinni með þeim skatti, er þangað fer. Það er þeirra eign, og þeir eru sjálfráðir að því, hvað þeir leggja til sinna eigna, hvort það er félagseign eða annað. En hitt er tekið með sérstöku lagaboði, án þess að bændur hafi um beðið eða viljað á nokkurn hátt samþykkja.