07.03.1968
Efri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

151. mál, lax- og silungsveiði

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. á þessu stigi. Ég vildi aðeins geta þess, svo að það lægi fyrir, þegar þetta frv. yrði rætt í n., að í sumar sem leið skipaði hæstv. landbrh. n. til að endurskoða laxveiðilöggjöfina frá árinu 1957, og þessi n. hefur starfað mikið undanfarið og farið rækilega í gegnum löggjöfina eins og hún liggur fyrir, og þetta starf heldur áfram. Ég er í þessari n., og það var einu sinni von okkar, þeirra, sem starfa að þessari endurskoðun, að við gætum komið með frv. inn á þetta þing, en sú varð niðurstaðan á síðasta nefndarfundi hjá okkur, að við mundum doka við og safna að okkur viðbótarupplýsingum, sem víðast hvar um landið, vegna þess að svo mörg erindi hafa borizt inn til n., að ekki var talið rétt annað en kanna viðhorf manna sem allra mest.

Allir, sem til þekkja, vita það, að veiðimálin eru mjög viðkvæm — viðkvæm, því að hagsmunir bænda fara misjafnlega saman. Það er ekkert leyndarmál að segja frá því, að það er samdóma álit nm., að það, sem beri að stefna að, er aukin friðun á vissum svæðum við veiðiárnar, fyrst og fremst á svokölluðum ósasvæðum. Það stafar af því, að undanfarið hefur komið í ljós, að um rányrkju er að ræða og ofveiði á vissum stöðum, í vissum ám og vissum vötnum. Breyting á löggjöfinni hlýtur því að stuðla að því, að þeim, sem eru ofar settir við veiðiárnar, sé tryggður nokkur réttur til veiða áfram og veiðimöguleiki.

Í öðru lagi mætti segja frá því, að hér í þessu frv. er tekið undir þær hugmyndir, sem þegar hafa komið fram, t.d. stofnun Fiskræktarsjóðs o. fl. Við í n. höfum rætt fleiri tekjustofna, m.a. að Rafveitum ríkisins verði gert að greiða örlítið gjald á hverju ári eða eitt stofngjald til eldisstöðva og fyrir veiðimálin í landinu, vegna þess að það hefur skeð, að góðum veiðiám hefur verið spillt vegna rafvæðingar, svo að það er ekkert óeðlilegt, að Rafveitur ríkisins beri nokkurn bagga. Vegna þessa getur það ekki verið sanngjarnt, að rafvæðingin svipti bændur veiðimöguleikum, sem þeir hafa haft gegnum árin, og n. var líka sammála um, að hugsanlegt væri, að svokölluð veiðikort yrðu seld almennt fyrir hvern mann í landinu, sem vildi veiða, og hann mætti ekki veiða eða stunda veiði öðruvísi en hann væri skráður sem veiðiréttarhafi og kæmi síðan að viðkomandi veiðifélagssvæði og sýndi þetta kort og fengi þá aðgang að veiði samkvæmt l. eða reglugerð þess veiðifélags, sem hefði yfir viðkomandi á að ráða.

Veiðimálin verða stórmál í framtíðinni, það er ekkert vafamál, og hér eigum við mjög góða aðstöðu, eins og fyrsti flm. frv. drap á, og þessi mál þurfa því mjög gagngerða athugun. Ég mundi því telja, að það væri jafnvel heppilegast til þess að ná sem beztum árangri, að dokað væri eftir !hinu væntanlega frv., því að það getur ekki dregizt lengi, það veit ég, og það er öruggt mál, en það næst því miður ekki inn á þetta þing, sú var von okkar, en það næst ekki. Öll þessi mál hafa verið rædd á Búnaðarþingi og gerðar um það ákveðnar ályktanir, og við munum sennilega fá aftur tilmæli frá Búnaðarþingi um ákveðna stefnu í þessum málum, sem þarf að athuga gaumgæfilega. Eins er um þróunina í fiskræktarmálunum, það þarf að huga mjög vel að henni, það þýðir ekki að flana út í óvissu, eins og ræðumaður sagði áðan, fyrsti flm., það þarf að rannsaka allar aðstæður mjög gaumgæfilega. Við höfum fáa sérfræðinga, það eru nokkrir ungir menn í námi núna erlendis á þessu sviði, og vonandi verður löggjöfin fyrir hendi, þegar þeir koma heim, svo að þeir geti fengið starfssvið við sitt hæfi. Mér finnst sjálfsagt að vísa þessu til landbn., en ég vildi láta þetta sjónarmið koma hér fram, svo að landbn. væri kunnugt um, að í þessum málum hefur verið annið undanfarið.