18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

161. mál, aðstoð til vatnsveitna

Flm. (Jónas Magnússon):

Herra forseti. Þetta

frv. til l. um breytingu á vatnsveitul. nr. 93 frá 1947, sem h ér liggur fyrir, er flutt með hliðsjón af því, að nú á seinni árum hafa breytingar á atvinnuháttum landsmanna orðið stórfelldar og verktækni fleygt fram frá ári til árs. Aftur á móti hefur það ekki alltaf farið saman, að atvinnuvegirnir hafi skilað auknum arði á skömmum tíma í réttu hlutfalli við fjárfestingu í tæknibúnaði og öðrum ráðstöfunum til aukinna vinnuafkasta, og valda því margar ástæður, sem ég mun ekki fara út í að sinni. Í mörgum tilfellum er það svo, að fjárfrekur tæknibúnaður kallar beinlínis á annan meiri, sem ekki verður komizt hjá sembeinni afleiðingu af hinum fyrri. Í landbúnaðinum hefur þessi þróun t.d. verið sérstaklega áberandi. Í mörg undanfarin ár hafa bændurnir unnið að því af kappi að stækka búin í von um auknar tekjur og veitir ekki af, og til þess þurfti að auka ræktunina. Aukin ræktun kallar á nýjan og dýrari verkfærakost, stærri bústofn, á nýjar og hagkvæmari byggingar og svona koll af kolli. Og eftir því sem þessi þróun hefur verið örari, hefur orðið erfiðara fyrir einstaklinga og jafnvel félagssamtök að standa undir þeim fjárhagsbyrðum, sem nýjar en jafnframt óhjákvæmilegar fjárfestingar hafa lagt á þessa aðila. Undanfarin ár hefur farið fram landþurrkun í stórum stíl um allt land í beinu sambandi við stækkun búanna, og afleiðingin af því hefur orðið tilfinnanlegur vatnsskortur í sumum sveitum, jafnvei svo að til vandræða hefur horft á þurrviðraköflum að sumarlagi og langvarandi frostum á vetrum, og er því komið svo, að ekki verður hjá því komizt að hefja bráðlega framkvæmdir að vatnsveitum, þar sem ástandið er verst. Nú er það vitað, að vatnsveitur krefjast alltaf mikils fjármagns, og þeim mun frekar í strjálbýlum sveitum, og sérstaklega þar sem þarf að sækja vatnið um langan veg, eins og víðast mun vera, þar sem þörfin er mest, enda mun svona framkvæmd í flestum tilfellum fjárhagsgetu fámennra sveitarfélaga ofvaxin. Eflaust má benda á, að tæknin sé lítils virði, ef hún gefur ekki það í aðra hönd að geta staðið á eigin fótum undir nýjum og nýjum fjárfestingum. Og hvað landbúnaðinum viðvíkur, er þess geta, að mikið vantar á, að hann hafi fengið nálægt því uppborinn þann kostnað í gegnum verðlagið, sem beinlínis af tæknivæðingunni hefur orðið, fyrir utan nú það, sem á vantar í gildandi verðlagsgrundvelli af sannarlegum rekstrarkostnaði á ýmsum liðum, svo að ég nefni aðeins sem dæmi fóðurbæti og tilbúinn áburð. Í því sambandi má benda á, að á mörgum sviðum hefur verið talið hagkvæmara fyrir þjóðfélagið að styðja bæði atvinnurekstur og verklegar framkvæmdir af opinberu fé, heldur en láta aukinn kostnað, sem af verklegum framkvæmdum leiðir, fara beint inn í verðlagið.

Vík ég þá að vatnsveitul. eins og þau eru núna. Í 4. gr. er gert ráð fyrir, að styrkur úr ríkissjóði til vatnsveitna sé allt að helmingur kostnaðar, en mér skilst þó, að í þeim felist engin skuldbinding, og gæti það þá orðið viðkomandi sveitarfélögum allerfiður baggi, ef greiðslur þær úr ríkissjóði, sem reiknað er með, dragast óeðlilega lengi. Aftur skuldbindur þetta frv., ef að l. verður, ríkissjóð til að greiða kostnaðinn að hálfu, og hafa þá sveitarstjórnir á hreinu, hvað þeir geta reitt sig á, þegar í framkvæmdir er ráðizt. Aftur á móti er það tryggt í 2. og 3. gr. þessara l., að framkvæmdir verða ekki hafnar nema samþykki ráðh. liggi fyrir, og ætti þannig að vera fyrir það byggt, að svona framkvæmdir verði ekki lagt út í, fyrr en nauðsynlegur undirbúningur hefur farið fram, og enn fremur að brýn nauðsyn sé fyrir viðkomandi sveitarfélög, að þessi verk séu unnin, og þess vegna finnst mér sanngirnismál, þar sem ráðh. getur ákveðið, hvort leyfi til slíkra fjárveitinga sé veitt, að sveitarfélögin hafi það fyrirfram tryggt, að þau fái tilskilda fjárveitingu, ef í framkvæmdir er ráðizt.

Með þessu frv. er líka miðað að þeirri breytingu, að styrkur til einstakra vatnsveitna sé ákveðinn af Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl., svo sem til einstakra hafnargerða og skóla, en ekki ákveðinn af ráðh. í hverju einstöku tilfelli. Þar sem ákveðinni upphæð mun árlega vera varið á fjárl. til allra vatnsveitna á landinu, má gera ráð fyrir, að naumt þurfi að skammta séu víða hafnar framkvæmdir í senn, og gæti það leitt til vandræða eða óeðlilegra hárra gjalda, sem erfitt væri fyrir viðkomandi sveitarfélög og einstaklinga þeirra að rísa undir eins og þegar eru dæmi um. En með því að Alþ. fjalli sjálft um það að skipta fénu milli framkvæmdaaðila, hlýtur það að gera sér gleggri grein fyrir fjárþörfinni en ella. Í þessu sambandi má benda á, að á fjárl. yfirstandandi árs er einungis ætlað til vatnsveitna fyrir allt landið 6.5 millj. kr., en sú upphæð er eins og dropi í hafið miðað við framkvæmdir yfirstandandi árs, sem hlotið hafa samþykki ráðh. Af framkvæmdum má nefna Vestmannaeyjaveitu og Landeyjaveitu, hin síðarnefnda er rétt nýkomin í gagnið og mun hafa kostað um 5 millj. kr., en Eyjaveitan, sem upphaflega var áætlað rösklega 100 millj., hlýtur nú, eftir hina síðustu gengisbreytingu, að fara yfir 130 millj. Áætlaðar framkvæmdir á þessu ári einu við Vestmanneyjaveituna munu kosta um 50—60 millj. kr. Liggur því í augum uppi, hve órafjarri það er, að fjárl.- upphæðin komist í námunda við það að geta stutt vatnsveitumannvirki landsmanna að hálfu, eins og gildandi l. gefa þó framkvæmdaaðilum vonir um.

Nú hefur reynsla undanfarinna ára sýnt, að kostnaðaráætlanir hafa ekki alltaf staðizt í raun, og valda því hinar öru verðhækkanir, sem hafa orðið á hinum siðari árum, og tekur þá fyrst í hnúkana, þegar gengisfellingar dynja yfir jafnþétt og raun hefur á orðið síðasta áratug. Væri því eðlilegt, að regla yrði sköpuð um það, að hið áætlaða stofnverð, er á ríkissjóð félli ásamt þeim verðhækkunum, sem á verkinu kunna að verða, meðan á byggingu stendur, yrði greitt á ákveðnu árabili, t.d. á þrem árum eins og skólakostnaðarl. nýju gera ráð fyrir um þau mannvirki, sem þau taka til.

Með hliðsjón af þeim veitum, sem nú eru í byggingu eða eiga enn ógreiddar stofnskuldir, og ú ég þar einkum við Eyjaveituna og Landeyjaveituna, sem er nýlokið, tel ég rétt, að l. þessi taki dálitið aftur í tímann, þar sem ekki getur hjá því farið, að þessi sveitarfélög eigi í verulegum erfiðleikum með óhjákvæmilegar greiðslur.

Herra forseti. Ég mun nú ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vil leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. visað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.