17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

190. mál, Framleiðslusjóður landbúnaðarins

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, er ég flyt ásamt hv. 2. þm. Austf., er seint á ferðinni, eins og raunar mörg önnur frv., sem til umr. eru nú síðustu dagana. En eigi að síður vænti ég þess, að það fái skjóta og góða afgreiðslu hér á hv. Alþ., því að hér er um aðkallandi og þýðingarmikið mál að ræða fyrir bændastétt landsins.

Ástæðurnar fyrir flutningi þessa máls eru ýmsar og ekki hvað sízt þau miklu vandamál, sem nú blasa við í landbúnaðinum og þurfa mjög skjótrar úrlausnar með. Ég vil í stórum dráttum gera grein fyrir framvindu þeirra málefna, sem varða aðstöðu og kjör bændastéttarinnar og liggur að baki því, að þetta frv. er flutt, þótt seint sé.

Búvöruverð til bænda var ákveðið með úrskurði 1. des. s.l. og fól aðeins í sér 0.23% hækkun frá árinu áður. Samhliða því, sem þessi úrskurður var felldur, var erlendur gjaldeyrir hækkaður í verði með gengisbreytingunni um 33%. En það er vert að geta þess, að bændasamtökin höfðu á s.l. hausti forgöngu um að útvega nokkurt lánsfé til fóðurbætiskaupa í þeim sveitum landsins, sem harðast höfðu orðið úti með heyöflun á s.l. sumri. Og þessi hækkun á búvöruverði var því ákaflega lítil, þegar litið var á þann aukna rekstrarkostnað, sem búskapurinn hafði í för með sér. En eftir gengisbreytinguna hækkaði verðlagið aðeins um 3% frá s.l. áramótum, þannig að það liggur í augum uppi, að sú hækkun, sem orðið hefur á búvöruverðinu, varð sáralítil miðað við allan þann kostnað, sem bændur höfðu orðið fyrir vegna veðráttunnar á s.l. sumri, og það, sem vitað er um tíðarfarið í vetur, er, að það er ákaflega óhagstætt bændum. Á s.l. sumri var ekki lokið aðalfundi Stéttarsambands bænda vegna óvissunnar, sem ríkti í verðlagsmálum landbúnaðarins. En þeim fundi, sem byrjað var á í sumar, var frestað og haldið áfram 7. og 8. febrúar s.l. Voru fjárhagsmál landbúnaðarins þá ítarlega rædd og 5 manna n. kosin á vegum fundarins til þess að mæta ásamt stjórn Stéttarsambands bænda til viðræðu við hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. til þess að vita, hvort bændasamtökin mættu ekki eiga von á því, að einhver úrlausn yrði veitt á yfiratandandi Alþ. til þess að bæta tír því brýnasta, sem á þurfti að halda.

Till., sem þessi n. fór með ásamt stjórn Stéttsambandsins á fund hæstv. ráðh., var í 9 liðum: 1. Að bændum yrði tryggt fullt grundvallarverð á framleiðslu yfirstandandi verðlagsárs. 2. Að rekstrarlán til landbúnaðarins yrðu stóraukin. 3. Að lausaskuldum bænda yrði breytt í föst lán með hóflegum vöxtum. 4. Gefinn yrði frestur á afborgun stofnlána í Búnaðarbanka Íslands. 5. Að tilbúinn áburður yrði greiddur niður á komandi vori, svo að hann hækkaði ekki í verði frá því, sem var í fyrra. 6. Að felld yrði burtu gengistrygging á stofnlánum vinnslustöðva og ræktunarsambanda. 7. Að tollar af landbúnaðarvélum og varahlutum til þeirra yrðu lækkaðir eða felldir niður með öllu. 8. Að ríkisstj. verðbætti ull og gærur af framleiðslu verðlagsársins 1966—1967. 9. Að sett verði nú þegar reglugerð skv. ákvæðum 45. gr. framleiðsluráðsl., sem kveði nánar á um framkvæmd II. kafla l.

Forsrh. kvað ríkisstj. mundu íhuga málið vandlega og lagði til, að stjórn Stéttarsambands bænda héldi áfram viðræðum við landbrh., og var það gert. Hafa nokkrir viðræðufundir átt sér stað á þessum vetri, frá því að þessu fundur var haldinn í byrjun febrúar. En 20. marz s.l. ritaði stjórn Stéttarsambands bænda forsrh. svohljóðandi bréf:

„Með tilvísun til viðtals stjórnar Stéttarsambands bænda ásamt þar til kjörinni n. við yður og landbrh. 8. febr. s.l. varðandi vandamál bændastéttarinnar og till. um aukafund Stéttarsambands bænda, sem þá .stóð yfir, vil ég mælast til að fá svar ríkisstj. við því, hvort komið verði á móti bændastéttinni í einhverju þeirra atriða, sem um var rætt.“

Þetta stóð m.a. í bréfi þessu, og bréfið er undirritað af formanni Stéttarsambandsins, Gunnari Guðbjartssyni. Þessu bréfi er aftur svarað af hæstv. landbrh. 23. marz s.l. og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Um þau atriði, er greinir í 1., 5. og 8. tölul. í till. aukafundar Stéttarsambands bænda, skal tekið fram, að ríkissjóður hefur ekki fé aflögu til þess að verða við þessum óskum Stéttarsambandsins. Að því er varðar till. í 2. tölulið er þess að geta, að samkv. útreikningum Hagstofunnar er mjög óhagstætt fyrir ríkissjóð að greiða niður áburðarverð. Hins vegar er í athugun, hvort unnt sé að auka rekstrarlán til bænda til að auðvelda þeim kaup á áburði á næsta vori.

Landbrn., 23. marz 1968. Ingólfur Jónsson.“

Þar með var komið svar við þeim umr., sem átt höfðu sér stað í vetur, og við því bréfi, sem formaður Stéttarsambandsins hafði sent ríkisstj. Eftir að þetta bréf kom til Stéttarsambandsins, sneri stjórn Stéttarsambands bænda sér til þingflokkanna og ritaði þeim eftirfarandi bréf, með leyfi forseta, og það er dags. 29. marz s.l.:

„Stjórn Stéttarsambands bænda hefur ákveðið að snúa sér til allra þingflokka á Alþ. með ósk um aðstoð þeirra til úrlausnar á fjárhagserfiðleikum bændastéttarinnar. Á aukafundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var í Bændahóllinni dagana 7. og 8. febr. 1968, var rætt um þessa erfiðleika, sem eru til komnir af eftirfarandi ástæðum :

1. Vegna óhagstæðs úrskurðar um verðlag á s.l. hausti miðað við framleiðslukostnað.

2. Vegna stóraukins tilkostnaðar við búrekstur í vetur sökum harðinda og heyskorts viða um land.

3. Vegna hagstæðrar markaðsþróunar erlendis að undanförnu og lækkaðs verðs.

4. Vegna stórhækkaðs framleiðslukostnaðar í kjölfar nýafstaðinna gengisbreytinga.

Af þessum ástæðum öllum eru þegar miklir fjárhagsörðugleikar hjá mörgum bændum og munu þó fara vaxandi, þegar líður fram á sumarið, svo að það er augljóst nú þegar, að hætta er á, að allstór hluti bændastéttarinnar geti ekki keypt áburð á komandi vori.

Stjórn Stéttarsambandsins óskar þess, að þingflokkarnir taki höndum saman um að finna þá lausn, sem tryggir, að kjör bænda verði ekki að mun lakari en annarra stétta, t.d. með fjárstuðningi af fé úr ríkissjóði til að létta af bændum halla af byrðum útflutningsvara, sem til voru s.l. haust, og tryggja bændum úrskurðað verðlagsgrundvallarverð á þessu ári um leið og aðrar till. Stéttarsambandsins yrðu teknar til vinsamlegrar yfirvegunar. En til að reyna að draga úr óhagkvæmri framleiðslu búvara eftirleiðis verði lögbundnar heimildir til handa framleiðsluráði t.d. um að draga úr framleiðslu búvara í þéttbýli og að heimilt verði að skammta kjarnfóður og skattleggja óhóflega notkun þess eða skattleggja kjarnfóður og nota fé til verðjöfnunar eða ýmiss konar hagræðingar við búvöruframleiðsluna.“

Þingflokkarnir fengu þetta bréf til meðferðar og hafa svarað á eftirfarandi hátt:

Framsfl. ritaði hinum þingflokkunum og óskaði eftir því, að það yrði komið á viðræðunefndum, sem fjölluðu um þessi málefni, en við því var ekki orðið, og þann 9. apríl svarar hæstv. forsrh. bréfi Framsfl. og Stéttarsambandsins á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Bréf stjórnar Stéttarsambands bænda dags. 29. marz s.l. barst mér í hendur hinn 2. apríl, og var það lagt fyrir næsta fund f þingflokki sjálfstæðismanna, sem haldinn var hinn 8. apríl s.l. Fundarmenn voru sammála um, að sú málsmeðferð, sem stungið er upp á í bréfi dags. 29. marz, muni ekki auðvelda lausn þeirra vandamála bænda, sem þar um ræðir, enda er stjórn Stéttarsambands bænda í sambandi við ríkisstj. um þau mál, og ríkisstj. mun að sjálfsögðu veika þeim þá afgreiðslu, sem efni standa til og þingfylgi er fyrir.“

Alþb. tjáði formanni þingflokks Framsfl., að það væri reiðubúið til viðræðna, en stjórnarflokkarnir neituðu báðir, og Alþfl. ritar bréf þann 8. apríl, sem undirstrikar þetta:

„Þingflokkur Alþfl. hefur veitt viðtöku bréfi yðar dags. 2. apríl varðandi erindi stjórnar Stéttarsambands bænda dags. 29. marz. Þingflokkur Alþfl. telur ekki ástæðu til að tilnefna sérstakan fulltrúa til að fjalla um þetta mál, en mun athuga erindi Stéttarsambandsins með venjulegum hætti.“

Mér er ekki kunnugt um, hver þessi venjulegi háttur Alþfl. er, en væntanlega kemur það fram hér í þessum umr.

Ég vildi gera grein fyrir þessum atriðum málsins, áður en ég geri grein fyrir því frv., sem hér er fram komið, vegna þess að grundvöllurinn að þessu frv. er í raun og veru lagður með því sinnuleysi, sem hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa sýnt þessum málefnum. Og mig furðar það, ef sá hraði verður hafður á þingstörfum nú í lokin, að svo aðkallandi vandamáli sem þessu verði ekki sinnt. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir.

Það er vitað mál, að kjör bænda eru mun óhagstæðari en annarra stétta í þjóðfélaginu. Í Hagtíðindum, sem nýlega eru komin og hafa verið lögð fram hér á Alþ., hefur það sýnt sig, að meðal brúttótekjur kvæntra bænda árið 1966 lækkuðu frá fyrra ári um 3%. Á meðan hækkuðu tekjur annarra stétta um 8.2% og allt upp í 31%. Og lækkun meðaltekna frá 1965—1966, meðaltal allra, nemur 16.5%. Það gefur því auga leið, að hér búa bændur við mikið lakari kjör en aðrar stéttir þjóðfélagsins. Viðmiðunarstéttir þær, sem áður voru og verðlag bænda var miðað við, hjá þeim hafa kjörin batnað, á sama tíma og kjör bænda og laun þeirra lækkuðu, og það var líka eina stétt þjóðfélagsins á því ári, sem launin lækkuðu verulega hjá. Af sömu heimildum í Hagtíðindum má ráða, að árið 1966 vanti kringum 50% á tekjujafnrétti kvæntra bænda og þeirra stétta, er laun þeirra skuli miðast við að lögum. En samkv. skýringum Hagstofunnar er óhægt um nákvæman samanburð í þessum efnum. En ég geri ráð fyrir, að n. hv. alþm. minnist þess, að framleiðsluráðslögunum var breytt núna fyrir tveimur árum síðan, og ein aðalbreytingin, sem átti sér stað þá í l., var sú, að það skyldi miða kaup bænda við þann vinnutíma, sem fjölskyldan leggur fram til búsins annars vegar, og það kaupgjald, sem á sér stað fyrir vinnu verkamanna, iðnaðarmanna og annarra, sem taldir eru, hins vegar.

Þá vil ég minna á það, sem undirstrikar það, að efnahagur bænda hefur farið versnandi hin síðari ár, að vangreidd árgjöld af stofnlánum landbúnaðarins hafa aldrei verið meiri en við síðustu áramót. Það er líka vitað mál, og ég gerði ítarlega grein fyrir því hér í vetur í sambandi við frv. til l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, að lausaskuldir bænda hefðu farið ört vaxandi hin siðari ár, og það er vitað mál, það sem af er þessu ári, að skuldasöfnun hefur átt sér stað á s.l. ári í mun ríkara mæli en nokkurt annað undanfarið ár.

Það hefur líka borið á því, að bændur séu nú krafðir um ábyrgð sveitarsjóðs fyrir kaupum á fóðurbæti, áburði og jafnvel, að það sé til varðandi lífsnauðsynjar heimilanna. Það mun liggja fyrir bréf frá Áburðarverksmiðjunni, þar sem krafizt er hreppsábyrgðar fyrir kaupum á tilbúnum áburði í ýmsum hreppum landsins. Mér er kunnugt um það, að bændur í einstaka sveitum eru ekki betur settir en það, að þeir eygja enga möguleika til þess að fá áburð á vori komanda. Þeirra efnahagur varðandi þær verzlanir, sem þeir hafa skipt við, er þannig, að þær treysta sér ekki til að útvega þeim áburðinn. Búnaðarfélög hreppanna hafa í mörgum tilfellum annast um áburðarkaupin. Mörg þeirra skortir nú fjármagn til þess. Ég vil benda á þessi atriði, vegna þess að það gefur auga leið, að hér er um mikið vandamál að ræða og miklu meira en fjöldinn gerir sér ljóst í fljótu bragði, því að ef svo kann til að takast, að það fáist ekki áburður til að bera á túnin í vor, hvernig verður þá með heyfenginn og hvernig verður þá með ásetninginn á næsta hausti? Við getum ekki búizt við því, að fóðurbætiskaup minnki, ef bændur á annað borð treysta sér til þess að halda áfram búskap. Það má líka á það benda, ef fjöldi bænda hættir búskap, að þá þarf að sjá þeim fyrir húsnæði, vinnu og öðrum þörfum annars staðar á landinu, og það virðist heldur ekki vera svo auðvelt að sinna þeim málum nú, þar sem í fyrsta skipti í fjöldamörg ár hefur atvinnuleysi herjað á landsmenn. Mér finnst það líka gefa auga leið, að þau frv., sem rædd hafa verið hér á hv. Alþ. að undanförnu, eru á þann veg, að ríkisvaldið hyggst ekki beita sér fyrir auknum framkvæmdum á yfirstandandi ári, þannig að þar virðist ekki vera um aukna atvinnu að ræða, og mér finnst líka það gefa auga leið, að þó að margir einstaklingar hyggi á framkvæmdir muni þeir ekki fá það fjármagn til þeirra hluta, sem þeir annars þyrftu, svo að af þeim framkvæmdum geti orðið. Og óljóst er það nú, og það standa alls ekki góðar vonir til þess heldur, að sjávarútvegurinn verði sú björg í bú okkar á þessu ári eins og hann hefur oft áður verið, því að það sem af er þessu ári, hefur bæði verið gæftaleysi og aflaleysi, þannig að það virðist ekki bjart fram undan almennt hjá landsmönnum, og mér finnst, að ríkisvaldið ætti sem mest að spyrna gegn því, að þeir einstaklingar, sem geta og vilja, þurfi ekki að hverfa frá sínum búskap, heldur að þeir haldi honum áfram, svo að það valdi ekki neinum erfiðleikum varðandi aðra þegna þjóðfélagsins, sem virðast heldur ekki eiga margra kosta völ um þessar mundir, að því er varðar atvinnulíf.

Frv. þetta felur það í sér, að mynda skuli sérstakan sjóð, sem kallast Framleiðslusjóður landbúnaðarins. Hlutverk þessa sjóðs er að veita framleiðendum landbúnaðarafurða fjárhagslegan stuðning í formi lána og framlaga til lækkunar á vöruverði. Stofnfé sjóðsins er framlag úr ríkissjóði, 60 millj. kr., og er ríkisstj. heimilt að taka þetta fé að láni, ef þörf er á. Ráðstöfun á fjármagni sjóðsins á að vera á hendi þriggja manna, sem landbrh. skipar eftir tilnefningu framleiðsluráðs landbúnaðarins. Framkvæmd þessara l. skal kveða nánar á um í reglugerð, sem landbrh. setur eftir till. frá framleiðsluráði landbúnaðarins. Hér er því ekki á neinn hátt gengið fram hjá landbrn. eða hæstv. landbrh., og hefur hann sinn rétt til þess að koma þessum málum þannig fyrir, sem hann telur hyggilegast.

Eins og ég hef getið um, er farið fram á í frv. þessu aðeins brot af því, sem raunverulega vantar til þess, að bændur fái fljótlega fjármagn til að bæta úr brýnustu þörfum sínum. Þess vegna held ég, að þeir, sem völdin hafa á hv. Alþ., megi líta á þetta mál út frá því sjónarmiði, að hér er ekki verið með neinar öfgakröfur á ferðinni, og frekar fallast á framgang þessa máls en annars væri. Hitt er svo annað mál, að það má ekki lengi bíða að sinna landbúnaðarmálunum frekar en nú hefur verið gert hér á hv. Alþ., og verður að taka þau mál til yfirvegunar á næsta sumri og reyna að greiða götur bændastéttarinnar sem bezt má verða á næsta hausti. En af því að ég hafði lofað hæstv. forseta d. Að vera stuttorður nú að þessu sinni, skal ég ekki brjóta í bága við hans óskir í þeim efnum, en ég vænti þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. landbn. og hæstv. forseti stuðli að því, að þetta mál nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.

Ég vona, að um það verði samkomulag, að það þurfi ekki að hraða þingstörfum meira en það, að málið verði afgreitt á þessum fáu dögum, sem þingið á eftir að starfa.