06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2589)

78. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir um endurskoðun l. um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis, er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða löggjöfina um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis. Með þeirri endurskoðun skal einkum stefnt að því að gera utanríkisþjónustuna hagkvæmari og ódýrari en nú. Endurskoðunin skal gerð í samráði við þingflokkana, og skulu niðurstöður hennar lagðar fyrir næsta þing.“

Utanrmn. hefur rætt þessa till. og leggur einróma til, að hún verði samþ. óbreytt. Gildandi l. um þessi efni eru nr. 31 frá 27. júní 1941. Voru þau upphaflega sett sem brbl. árið 1940 eða skömmu eftir að Ísland tók meðferð utanríkismála sinna í eigin hendur. Síðan hafa margvíslegar breytingar orðið á meðferð íslenzkra utanríkismála. Ísland hefur nú 10 sendiráð erlendis. Hið fyrsta þeirra var stofnsett í Kaupmannahöfn árið 1920 og hið síðasta í Brüssel á s.l. ári. Allir eru sammála um, að óhjákvæmilegt sé, að Ísland haldi uppi utanríkisþjónustu til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar erlendis. Það leiðir einfaldlega af sjálfstæði landsins. Hins vegar hefur menn nokkuð greint á um, hversu víðtæk og kostnaðarsöm þessi þjónusta megi vera Vitanlega verður örfámenn þjóð að sníða sér stakk eftir vexti í þessum efnum eins og öðrum. Umfram allt verður íslenzk utanríkisþjónusta að vinna að því að gæta viðskiptahagsmuna landsmanna, vinna að öflun nýrra markaða og bæta þannig aðstöðu íslenzkra bjargræðisvega.

Utanrmn. varð sammála um, að tímabært sé orðið að endurskoða l. um utanríkisþjónustu Íslands og starfsmenn hennar erlendis. Þess vegna leggur n. til, eins og ég sagði í upphafi, að till. þessi verði samþ. óbreytt.