06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2590)

78. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi lögðum við þrír þm. Alþb. fram í Nd. frv. til l. um breyt. á l. um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis. Þetta frv. okkar fjallaði aðeins um einn þátt í störfum utanrrn., þann þátt, sem snýr að Alþ. Tilgangur frv. var sá að gera hlut Alþ. miklum mun meiri en hann hefur verið, bæði í umr. um utanríkismál og í ákvörðunum um þau.

Í frv. voru fjögur atriði. Í fyrsta lagi var lagt til, að það væri tekið upp í sjálf I. um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis, að um allar meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum skuli rn. hafa samráð við utanrmn. Alþ., bæði meðan Alþ. er að störfum og á milli þinga. Þetta ákvæði er nú í þingsköpum, eins og kunnugt er. Hins vegar hefur um langt skeið verið mjög mikill misbrestur á, að þessu atriði hafi verið framfylgt. Hér hafa verið utanrrh., sem hreinlega hafa sniðgengið þessa n. árum saman á ósæmilegasta hátt. Á þessu er nú sem betur fer að verða breyting. Einmitt á þeim fundi hv. utanrmn., sem fjallaði um það mál, sem hér er til umr., skýrði hæstv. utanrrh. svo frá, að hann væri reiðubúinn til þess að taka upp eðlilega samvinnu við utanrmn., og þar var afráðið, að n. tæki upp fasta fundartíma mánaðarlega allan ársins hring, og hæstv. ráðh. kvaðst sem sagt vera reiðubúinn til fullrar samvinnu við n. Engu að síður mundi ég telja eðlilegt, að þetta atriði yrði tekið upp í sjálf lögin.

Í öðru lagi lögðum við til í frv. okkar, að þingflokkarnir hefðu rétt til að tilnefna fulltrúa til starfa í sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Þessi háttur var upp tekinn í haust, eins og kunnugt er, en árin á undan hefur verið gengið fram hjá þingflokkunum, ýmist sumum þeirra og stundum allt að því öllum, og eru það vægast sagt ákaflega hæpin vinnubrögð, því að það er tvímælalaust skynsamlegt að tengja saman þjóðþingin og störfin hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég mundi líka telja eðlilegt, að þetta atriði yrði fest í lög.

Í þriðja lagi lögðum við til, að í l. um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis yrði tekið upp svo hljóðandi ákvæði:

„Árlega skal ráðh. gefa Alþ. skýrslu um viðhorf ríkisstj. til utanríkismála og um störf íslenzku sendinefndarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna ásamt rökstuddri grg. um afstöðu Íslands til einstakra mála á þinginu.“

Hér er sem sagt lagt til, að á Íslandi verði tekinn upp sá háttur, sem tíðkast yfirleitt á. þjóðþingum, að hér verði utanríkismálin tekin til sérstakrar umr. a.m.k. einu sinni á ári, þar sem hæstv. ráðh. gerir grein fyrir störfum sínum og vandamálum og alþm. fá tækifæri til þess að ræða þau mál og lýsa skoðunum sínum á þeim og þar með hafa áhrif á ákvarðanir.

Í fjórða lagi var lagt til í frv. okkar, að samþykki Alþ. þyrfti til þessa að ákveða, á hvaða stöðum skuli vera sendiráð. Þegar ég mælti fyrir frv., vék ég að því, að sendráðakerfi okkar væri orðið mjög úrelt, því hefði ekki verið breytt í samræmi við breyttar aðstæður. Það væri tvímælalaust nauðsynlegt að endurskoða það kerfi allt saman og eðlilegt, að Alþ. tæki þátt í þeirri endurskoðun.

Ég minnist á þetta frv. sökum þess, að á þeim fundi, sem fjallaði um þá þál., sem hér er til umr., var einnig fjallað um þetta frv. Allshn. Nd. hafði sent utanrmn. það til umsagnar. Það var fjallað um þessi mál bæði í senn, og það kom fram í umr., að það var vilji fyrir því að hafa þann hátt á, sem felst í þáltill. framsóknarmanna, að þessi I. yrðu tekin til endurskoðunar fyrir frumkvæði ríkisstj., en í fullu samráði, við þingaflokkana. Ég lýsti því yfir á þessum nefndarfundi, að ég gæti vel fallizt á þá málsmeðferð og ég teldi þá ekki eðlilegt, að þetta frv. væri tekið til afgreiðslu hér á þingi á meðan. Hins vegar vildi ég beina því mjög eindregið bæði til hæstv. ríkisstj. og þeirra þm. og annarra, sem eiga eftir að fjalla um þetta mál, að huga alveg sérstaklega að sambandinu við Alþ. Íslendinga. Ég tel, að það sé þjóðþingi okkar til vansa, hversu lítið hér hefur verið fjallað um utanríkismál og hve umr. um þau mál hafa verið á fjarskalega lágu stigi. Ég mundi telja það mjög mikilvægt, að þegar þessi l. yrðu endurskoðuð, verði þar tekin upp ákvæði, sem tryggi það, að haft verði við Alþ. fullt og eðlilegt samráð.

En fyrst þetta mál er hér komið á dagskrá og sú till., sem hér liggur fyrir, fjallar um það að gera utanríkisþjónustuna ódýrari en hún er núna, er kannske ekki úr vegi að grennslast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. er ekki nú þegar með einhver framkvæmdaáform í því sambandi. Mér hefur skilizt, að það hafi komið mjög til tals innan hæstv. ríkisstj. að fella jafnvel niður tvö sendiráð í sparnaðarskyni. Það hefur verið rætt um sendiráðin í Noregi og Stokkhólmi að því er ég hygg, og ég geri ráð fyrir, að alþm. þætti fróðlegt að fá vitneskju um það, hvort búið er að taka nokkrar ákvarðanir um þessi atriði. Ég sé, að hæstv. utanrrh. er hér ekki staddur, en vera má, að hæstv. fjmrh. gæti leyst úr þessu fyrir okkur.