06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2593)

78. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra for­ seti. Ég skal með ánægju svara með örfáum orðum þeirri fsp., sem til mín var beint um þá till., sem samþ. var á sínum tíma hér á hinu háa Alþ., um athugun á markaðsmálum og aðild opinberra aðila að markaðsleit erlendis. Ég skal fúslega játa, að fullnaðarathugun á því mjög stóra og merka máli, sem hér er um að ræða, hefur miðað hægar áfram en ég hefði kosið, og þess vegna hefur ekki enn getað komið til þess, að ég treysti mér til þess að gefa hinu háa Alþ. fullnaðarskýrslu um þær athuganir, sem hafa farið fram.

Eins og ég skýrði frá á sínum tíma að gefnu tilefni frá hv. þm., hefur viðskmrn. fyrir alllöngu lokið sinni frumathugun á málinu. En ég vil undirstrika það, að þar er aðeins um frumathugun á málinu að ræða, vegna þess að sú athugun leiddi m.a. í ljós, hversu geysilega víðtækt og vandasamt málið í heild er. Það hefur verið rætt við samtök útflytjenda eða grundvallaratriði í þessum efnum hafa verið rædd við samtök útflytjenda, en málið er nú á athugunarstigi í eða milli utanríkis- og viðskmrn. vegna þess að eigi að grípa til ákveðinna ráðstafana á þessu sviði, hljóta skipulag utanrrn. og viðskmrn. að koma til gagngerðrar eða talsverðrar endurskoðun­ ar í því sambandi. Og það er ekki hvað sízt athugun á þeim málum, sem hefur orðið þess valdandi, að málið allt eða skýrslugerð til hins háa Alþ. hefur reynzt síðbúnari en ég í sjálfu sér hefði talið æskilegt og viljað kjósa Í því sambandi vildi ég og benda á okkur öllum, sem um þessi mál höfum fjallað, til afsökunar, og vona ég, að hún verði tekin gild, að einmitt á s.l. ári hefur sívaxandi tími allra þeirra manna, sem nauðsynlega þekkingu hafa á þessum málum, gengið til þess að fylgjast með og athuga afstöðu Íslands til markaðsbandalaganna í Vestur-Evrópu og þó alveg sérstaklega til Fríverzlunarbandalags Evrópu og þess vegna æ minni tími orðið aflögu til þessa að sinna þessu máli, sem hv. þm. gerði að umtalsefni beinlínis. Og þó eru náin tengsl milli þessara mála, þannig að ég vona fastlega, að sá tími embættismanna og annarra sérfræðinga, sem hefur gengið til athugunar á markaðsaðstöðu Íslands í Vestur-Evrópu, sérstaklega gagnvart Fríverzlunarbandalaginu, honum hafi ekki verið til einskis varið einnig að því er snertir þetta mál.

Ég skal gera mitt til þess, að hægt verði að gefa Alþ. allýtarlega skýrslu um þetta mál áður en það lýkur störfum nú á þessu vori. Hitt vildi ég taka skýrt fram til þess að segja ekki meira en ég er maður til að standa við að vekja ekki falskar vonir, að ég vil ekki lofa endanlegri niðurstöðu, þ.e.a.s. endanlegum till., hvernig frambúðarskipan á íslenzkri markaðsleit erlendis skuli hagað, því að það mikið þekki ég til málsins, að ég veit, að það mál er víðtækara og stærra en svo, að hægt sé að lofa endanlegum till. eða endanlegum ráðstöfunum í því efni nú á þessu vori. En hinu skal ég lofa, og við það skal ég standa. að gefa Alþ. skýrslu um það, sem gerzt hefur í málinu síðan það bar síðast á góma hár á hinu háa Alþ., áður en þetta Alþ. lýkur störfum.