02.04.1968
Efri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2623)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál er flutt af landbn. þessarar hv. d., og hefur verið um það hið bezta samkomulag. Formaður landbn. hefur lýst meðferð málsins, og get ég tekið undir allt, sem hann sagði um það efni. En eftir að landbn. fjallaði um þetta mál og færði það í þann búning, sem þskj. nr. 378 sýnir, hefur verið borin fram af hæstv. landbrh. viðaukatill. við málið. Ég hafði nú vænzt þess, að hæstv. ráðh. hefði getað orðið viðstaddur þessa umr. og gert grein fyrir þessari viðaukatill., en ég sé, að hann muni ekki hafa getað komið því við. Ég ætla þó eigi að síður að fara um hana örfáum orðum.

Þegar efla á fræðslu í fiskirækt, kemur það fyrst til greina að leita til þeirra manna, sem sérþekkingu hafa á þessu sviði, og því miður eru þeir menn ekki margir, enn sem komið er, með okkar þjóð. Á vegum Háskólans er ekki kennsla í þessum efnum, og sérþekkingu á þessu sviði mun einna helzt vera að finna hjá veiðimálastjóra og þeim starfsmönnum, sem hann kann að hafa á að skipa. Það er því alls kostar eðlilegt, að leitað sé til þeirrar stofnunar í sambandi við fræðslu í þessu efni. Í öðru lagi kemur það til greina, með hvaða hætti verði bezt náð til þeirra manna, sem afla sér þekkingar í landbúnaðarfræðum og hyggjast gera landbúnaðarstörf að sínu ævistarfi. Og þá verða bændaskólarnir vitanlega þeir staðir, þar sem einna líklegast er að ná til bændaefnanna með þessa fræðslu. Og till., sem landbn. beitir sér fyrir, stefnir einmitt að því, að fræðsla um fiskirækt verði efld í bændaskólunum. Vel má vera, að það verði horfið að því ráði og það fari vel, að einhver samvinna eigi sér stað milli veiðimálastofnunarinnar og bændaskólanna um þessa fræðslu. Í þriðja lagi kemur það til greina að veita fræðslu á þessu sviði þeim mönnum, sem þegar starfa í landbúnaði og kunna að hafa aðstöðu til að koma á fót fiskirækt. Þá kemur að því, hver eigi að hafa á hendi þá leiðbeiningarstarfsemi, sem komið yrði á fót og haldið uppi meðal starfandi bænda. Eins og frá till. er gengið hjá landbn. á þskj. 378, er það alveg látið óbundið, hvaða stofnun eigi að hafa þessa leiðbeiningarstarfsemi með höndum, en aðeins sagt, að ráðstafanir skuli gera til þess, að ráðunautar í fiskirækt og fiskeldi verði ráðnir til starfa. Nú virðist mér, að viðaukatill. landbrh. stefni að því, að þetta sé á hans valdi og óbundið, hvort hann felur veiðimálastofnuninni að hafa þetta með höndum eða einhverjum öðrum aðila. Ég hef ekkert við það að athuga, þótt það sé kveðið nánar á um þetta, eins og fyrir ráðh. virðist vaka, en það, sem ég vildi sérstaklega leyfa mér að benda á er það, að þegar búið er að ákveða í meginefni till., fyrri málslið hennar, að fræðslan skuli efld á þessu sviði í bændaskólunum, finnst mér naumast fá staðizt og ekki eðlilegt að bæta því inn í viðaukatill. að öll fræðsla og leiðbeining um fiskirækt verði á vegum veiðimálastofnunarinnar. Ég hefði því viljað beina því til ráðh., að hann breytti till. sinni þannig, að fella niður orðin „öll fræðsla“, þar sem bændaskólunum er beinlínis ætlað að hafa hana með höndum að verulegu leyti. Nú sé ég, að hæstv. ráðh. er hér ekki, en ég vildi samt sem áður láta þessa aths. koma fram.