02.04.1968
Efri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir það, að hún hefur efnislega tekið til greina þá brtt., sem ég flutti hér ásamt hv. 11. þm. Reykv., og ég sætti mig vel við þá meðferð, sem sú till. hefur fengið, eins og hún er orðuð á þskj. 378. Þó að þar sé að vísu hnikað til orðum, er efni málsins það sama, þ.e.a.s. það, að stefnt verði að því, að ráðunautar í fiskirækt og fiskeldi verði ráðnir til starfa svo fljótt sem verða má. Hins vegar er fellt niður, að það skuli verða í hverjum landsfjórðungi. Það tel ég, að hljóti að verða, þegar tímar líða, hvort sem þessi till. er orðuð á þennan veginn eða hinn, og það skiptir ekki höfuðmáli, heldur hitt, að fyrir liggi viljayfirlýsing um þetta efni. Ég get því algerlega fallizt á tilI., eins og hún liggur fyrir frá landbn., og hef ekki frekari aths. við hana að gera. Hins vegar verð ég að taka undir það með hv. 2. þm. Austf., að mér finnst að viðbótartill. hæstv, landbrh. sé vægast sagt athugaverð og tel það algerlega rétt hjá honum, að ef sú till. er samþ., sé í raun og veru komin mótsögn í till., þar sem því hefur áður verið lýst í till., að skorað sé á landbrh. að hlutast til um, að nú þegar, eða svo fljótt sem verða megi, verði fræðsla um ræktun og eldi vatnafisks efld við bændaskólana í landinu, en síðan eigi að bætast við þetta ef — eitt stórt ef — , ef það þykir betur henta en að öll fræðsla og leiðbeiningar um fiskirækt verði á vegum veiðimálastofnunarinnar. Ég sé ekki betur en það sé þarna verið að gefa með annarri hendinni og taka með hinni.

Nú er það svo, að þó að hér sé að sjálfsögðu um mál allrar þjóðarinnar að ræða, þar sem er það mikla stórmál, hvort okkur getur tekizt á næstu árum að gera Ísland að fiskræktarlandi, þá álít ég þó, að það séu öðrum fremur bændur landsins, sem eiga hér ríkra hagsmuna að gæta, og þess vegna sé ekkert eðlilegra en að sú fræðsla, sem hið opinbera getur í té látið, fari fram gegnum bændaskólana, þó að þar með sé vitanlega ekki sagt, að það liggi neitt bann við því eða á neinn hátt hindrað, að fræðsla geti farið fram með öðrum hætti einnig. En ég tel, að það sé jafneðlilegt, eins og ég sagði hér um daginn, þegar þetta mál var til umræðu, að fræðsla um þetta efni sé í frammi höfð við bændaskólana, alveg eins og í öðrum greinum búskapar, öðrum greinum landbúnaðar, og einnig, að það sé jafnrökrétt, að ráðunautar á vegum bændasamtakanna og Búnaðarfélagsins séu starfandi í þessari búgrein eins og öðrum höfuðbúgreinum í landbúnaðinum. Það er að vísu svo, að í till., eins og hún er orðuð á þskj. 378, er engu slegið föstu um það, á hverra vegum ráðunautar skulu vera starfandi, hvort það er Búnaðarfélagið eða veiðimálastofnunin eða einhverjir enn aðrir aðilar. En ég vil lýsa því hins vegar sem minni skoðun, að ég tel, að þarna liggi langnæst lagi, að það sé Búnaðarfélagið, sem hafi með þessa ráðunauta að gera og þeir séu í þjónustu þess, alveg eins og aðrir ráðunautar í öðrum búgreinum.

Það er nú svo, þó að ég ætli ekki að fara langt út í þá sálma hér, að veiðimálastofnunin, eins og hún hefur verið starfrækt á undanförnum árum, er ákaflega umdeild stofnun, og hefur verið mjög um það rætt og mjög um það deilt, hvort hún hefur haldið vel og rétt á fiskiræktarmálunum, og það er, held ég, mjög vægt að orði komizt, að það sé mikill ágreiningur manna á milli og að þessi stofnun hafi hlotið mikla gagnrýni á opinberum vettvangi fyrir alla frammistöðu sína í þessu máli. Og ég tel þess vegna fráleitt, eins og nú standa sakir a.m.k. um starfsemi þessarar stofnunar, að það sé hér í till.-formi frá hæstv. Alþ. verið að gefa því undir fótinn, að þessi stofnun skuli raunverulega hafa einhvers konar einkaleyfi á allri fræðslu og leiðbeiningum um fiskrækt og jafnvel sé verið að ýta undir það, að hún sé réttari vettvangur til að skipuleggja fræðslu í fiskræktarmálum en bændaskólarnir. Hins vegar er það auðvitað alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austf., að ef þessi stofnun er rekin með eðlilegum hætti, tilraunastarfsemi hennar og annað slíkt, er það auðvitað eðllegur hlutur og sjálfsagður, að samvinna sé milli bændaskólanna og veiðimálastofnunarinnar um að dreifa þeirri reynslu og þekkingu, sem stofnunin öðlast, sérstaklega gegnum starfrækslu á fiskeldisstöð sinni í Kollafirði, en hingað til hefur það verið svo, að afrekasaga veiðimálastofnunarinnar í sambandi við þá fiskeldisstöð hefur verið heldur blaðafá og farið litlar sögur af þeirri fræðslu og þeirri þekkingu, sem þaðan hefur dreifzt út til manna í landinu um fiskræktarmál, þó að það sé svo auðvitað ekki útilokað, að framtíðin kunni að bera eitthvað annað í skauti sínu í þeim efnum en þegar hefur komið fram. Ég tel þess vegna, að eins og nú er ástatt í þessum málum, yrði samþykkt á till. hæstv, landbrh. eins og hreinn og beinn hortittur við till., mundi veikja hana í alla staði og sé ekki aðeins til stórlýta á annars ágætri till., heldur hreint og beint skaðleg. Ég tel, að hér sé sá eðlilegi háttur á gangi mála, að fræðsla fari fyrst og fremst fram í bændaskólunum, og ráðunautastörf, og til þeirra verður stofnað, verði á vegum búnaðarsamtakanna. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti brtt. eða viðbótartill. hæstv. landbrh. og vænti þess, að hún verði felld.