02.04.1968
Efri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Mér sýnist nú, að það gæti allmikils misskilnings í ræðum þeirra tveggja hv. alþm., sem hér hafa talað núna næst á undan mér, varðandi þá till, eða viðaukatill„ sem hæstv. landbrh. hefur borið fram. Mér sýnist, að það sé mjög ljóst, að viðaukatill. er bundin síðari hluta þeirra till., sem landbn. ber fram, eða bundin við þá ráðunautaþjónustu, sem hér er talað um, en á ekki frekar við fyrri hlutann. Þetta hygg ég, að sé augljóst, þegar málið er skoðað.

Ég get ekki annað en komið aðeins inn á það efni líka, sem hér kom fram í ræðu 4. þm. Norðurl. e. um veiðimálastofnunina, þar sem mér þótti gæta vanmats á starfi hennar, og hann ræddi um það, að hún hefði verið mjög umdeild. Það má vel vera, ég geri nú ráð fyrir því, að það sé ekki eina opinbera stofnunin í landinu, sem einhver hafi eitthvað við að athuga. En ég vil benda á að það eru ekki mörg ár síðan þessi stofnun var algerlega vanmegnug þess að vinna störf, sem henni voru ætluð, vegna þess að hún hafði hvorki fjármuni né starfsmenn til þess að sinna því eins og skyldi. Á þessu hefur orðið allmikil breyting nú síðustu árin. Hún hefur fengið meira starfslið, og mér þykir rétt að upplýsa það, sem virtist ekki vera ljóst fyrir þeim ræðumanni, sem hér talaði um þetta, að veiðimálastofnunin hefur sinnt, eins og ég hef komið lauslega inn á fræðslu við bændaskólann á Hvanneyri á síðustu árum og það í vaxandi mæli. Mér er kunnugt um það, að t.d. hafa þeir menn, sem eru við framhaldsnám á Hvanneyri, verðandi kandidatar, þeir hafa tekið kúrsus í þessum efnum og veiðimálastofnunin lagt til þá kennslukrafta, sem til þessa hafa verið fengnir að skólanum. Og þessir piltar hafa tekið próf að loknum þeim námskeiðum, sem þeir hafa notið þarna. Ég er ekki að segja, að það hafi hvert verkefni heppnazt veiðimálastofnuninni, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, en ég hygg, að þegar á að meta starfsemi hennar, þurfi vel að hafa það í huga, að hún hefur fram undir síðustu tíma ekki haft þá starfsaðstöðu, sem hún þurfti, til þess að geta sinnt verkefnunum. Þetta vildi ég nú láta koma hér fram, af því að mér fannst ekki sanngjarnt, að það yrði ekki leiðrétt eða látið koma fram hér í þessum umræðum, að veiðimálastofnunin vinnur þarna verk og hefur unnið á undanförnum árum við bændaskólana, sem við að vísu teljum að beri að efla, en það verður því aðeins eflt, að hún fái til þess fjárráð og starfslið að sinna þeim verkefnum.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að þó að landbn. hafi ekki staðið að þessari viðaukatill., sem hér hefur verið lögð fram frá hæstv. Iandbrh., þá sýnist mér, að hún sé í fullu samræmi við það sjónarmið, sem landbn. hafði í þessum málum, og vil ég því mæla með samþykkt hennar.