02.04.1968
Efri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru ekki mörg orð. Ég sagði það hér, að mér væri kunnugt um það, að veiðimálastofnunin væri umdeild stofnun og einnig það, hvernig hún hefði yfirleitt haldið á fiskræktarmálunum, og teldi ég ekki ástæðu til að taka upp um það almennar umræður hér og nú. Það má vel vera, að hún hafi á einhverju sviði komið að gagni, og það er vel, ef það er, en ég er þó þeirrar skoðunar, að það sé tiltölulega lítil gagnsemi miðað við það stórfellda fjármagn, sem til þeirrar stofnunar hefur verið varið á undanförnum árum, og það hefði e.t.v. verið hægt að verja því betur í þágu fiskræktarmálanna en gert hefur verið. En hitt er aðalatriði málsins, eins og það liggur nú fyrir, það er sú brtt., sem hæstv. landbrh. hefur flutt hér, og ég get ekki fallizt á, að það er enginn misskilningur, hvorki hjá mér né hv. 2. þm. Austf., að með samþykkt þeirrar brtt. sé því gefið undir fótinn, að öll fræðsla og leiðbeiningar um fiskrækt eigi að fara fram á vegum veiðimálastofnunarinnar. Það getur ekki verið neinn misskilningur um það, hvað öll fræðsla er. Það hlýtur einnig að vera sú fræðsla, sem áður er talað um að eigi að fara fram í bændaskólunum. Ef þetta er hins vegar svo, að hv. landbn. eða frsm. hennar hefur á þessu annan skilning, að þetta eigi aðeins við um síðari hluta seinni málsliðs till., ber vitanlega að orða þetta á annan hátt, og þá ber að fresta enn umræðunni og athuga um annað orðalag. En ég vil hins vegar segja það, að jafnvel þótt þarna sé aðeins um ráðunautastarfið að ræða, breytir það í engu afstöðu minni til till. Ég er jafnmikið á móti henni fyrir því.