10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2643)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi I. er ráð fyrir því gert, að helmingur skemmtanaskatts gangi til félagsheimilasjóðs, og er heimilað, að úr félagsheimilasjóði sé greitt allt að 40% af byggingarkostnaði félagsheimila. Á þessu ári eru tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti áætlaðar 7,5 millj. kr. Það svarar til þess, að hægt sé að verja á árinu til byggingar félagsheimila 18–19 millj. kr. En talið er, að myndarlegt félagsheimili kosti sem svarar þessari upphæð, milli 15 og 20 millj. kr. Stuðningur ríkisins við byggingamál félagsheimila dugar m.ö.o. til þess, að meðaltali sé eitt myndarlegt félagsheimili reist á hverju ári. Og hygg ég, að ekki verði sagt með sanni, að hér sé um ómyndarlegan stuðning við þessa mjög nauðsynlegu starfsemi að ræða, að dreifbýlið, raunar landið allt, hvert hérað eignist myndarlegt félagsheimili í þágu félags- og menningarstarfsemi innan sinna vébanda. Hitt er svo annað mál, að áhugi á byggingu félagsheimila og þeirri starfsemi, sem þar er ætlað að fari fram, hefur á undanförnum ánum verið svo mikill, að miklu meira hefur verið byggt en þessu svarar. Ekki aðeins eitt félagsheimili hefur verið byggt á ári á mörgum undanförnum árum, heldur miklu meira. Hefur þetta skapað alveg sérstakt fjárhagsvandamál, sem hefur reynzt svo erfitt viðfangs, að ekki hefur tekizt að fá samstöðu um fulla lausn þess á undanförnum árum, og hefur svo málið verið í stöðugri athugun um langt skeið. En til skýringar á því, að lausn skuli ekki hafa fundizt, skal ég leyfa mér að nefna meginstaðreynd málsins og vona þá, að allir sanngjarnir menn sjái, að hér er um svo stórt og alvarlegt vandamál að ræða, að það þarf að taka alveg sérstökum tökum.

Gerð var heildarskýrsla um málefni félagsheimilasjóðs og fjárhag þeirra félagsheimila, sem í byggingu eru í des. sl. Þá kom í ljós, að áfallinn byggingarkostnaður, þegar greiddur byggingarkostnaður þeirra félagsheimila, sem félagsheimilasjóður hefur styrkt, en hefur ekki enn greitt 40% byggingarkostnaðar við, nemur 92,7 millj. kr. Það nemur hvorki meira né minna en 92,7 millj. kr. Félagsheimilasjóður hefur þegar greitt 36,5 millj. kr. af þessari upphæð, en félagsheimilasjóður á að greiða 40% af öllum kostnaðinum eins og l. heimila, en skylda ekki félagsheimilasjóð til. Og á það legg ég alveg sérstaka áherzlu. Eins og l. heimila, að gert skuli, en gera ekki að skyldu. Þá þurfti í des. að greiða 56,2 millj. kr. Það er það, sem á vantar til þess, að greidd séu 40% af áföllnum byggingarkostnaði. Um áramótin var síðan úthlutað tæplega 6 millj. kr., þannig að staðan í dag er þannig, að um það bil 50 millj. kr. vantar til þess, að unnt sé að greiða 40% af áföllnum byggingarkostnaði þeirra félagsheimila. sem nú eru í byggingu og eru á skrá hjá félagsheimilasjóði. En þau voru 76 talsins. Þau voru hvorki meira né minna en 76 talsins. Og þau skiptust þannig í 6 flokka eftir framkvæmdastigi: Framkvæmdum er lokið við 18 félagsheimilí, framkvæmdum er nær lokið við 30 önnur og framkvæmdum lokið að 50–80% við 18 félagsheimili. Rúmlega fokheld eru 3, fokheld eru 2 og 5 eru þannig á vegi stödd, að það er lokið frágangi grunns, sökkla eða kjallara. Og þegar það er athugað, hversu mörg félagsheimili eru í byggingu, þ.e.a.s. ólokið, þá ætla ég, að allt að því tvöfalda megi þá upphæð, sem ég nefndi að þyrfti að greiða, ef greiða ætti 40% af áföllnum kostnaði. Þ.e.a.s. það, sem ríkið þyrfti að hafa eða félagsheimilasjóður þyrfti að hafa til þess að geta greitt 40% af þeim félags­ heimilum, sem nú eru í byggingu, væri ekki minna en einhvers staðar milli 80 og 100 millj. kr. Af þessu má vera ljóst, að hér er um engan smávægilegan fjárhagsvanda að ræða. Ég tel, að þetta fjárhagsvandamál, sem þarna hefur komið í ljós í sambandi við byggingu félagsheimilanna, beri þess glöggan vott, að menn hafi verið mjög bjartsýnir á undanförnum árum og að menn telja mikla þörf á byggingu húsa af því tagi, sem félagsheimili eru. Það er mjög skiljanlegt og væri sannarlega æskilegt, að sem fyrst væri hægt að ljúka þeim framkvæmdum, sem hér er um að ræða. En til þess að það sé hægt, þarf sem sagt með einhverjum hætti að afla einhvers staðar á milli 80 og 100 millj. kr.

Sú hugmynd, sem á döfinni hefur verið á undanförnum árum til þess að reyna að leysa þetta vandamál, er sú, að félagsheimilasjóður fái heimild til þess með löggjöf að gefa út ríkisskuldabréf til ákveðins tíma, sem síðar yrðu notuð til þess að greiða þann kostnaðarhluta, sem Alþ. ákvæði að greiða skyldi af félagsheimilum. Það hafa farið fram ýtarlegar viðræður um það við Seðlabankann að styðja að útgáfu slíkra ríkisskuldabréfa og auðvelda sölu þeirra með sérstökum hætti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það í einstökum atriðum, hvaða háttur hér kynni að reynast skynsamlegastur og færastur, en málið er enn í athugun, og ég vil ekki gefa neitt fyrirheit um það, ég get það ekki, að það verði lagt fyrir þetta Alþ frv. um heimild í þessu efni. En ef samningar takast við Seðlabankann og aðra viðskiptabanka um sölu á slíkum bréfum, sem félagsheimilasjóður fengi heimild til þess að gefa út, væri vandinn að meginhluta leystur. Það, sem hér skiptir mestu máli, er að fá samning um sölu á skuldabréfunum, og ef tækist að ljúka samningsgerðinni við Seðlabankann og viðskiptabanka í sumar, mundi frv. um nauðsynlegar heimildir í þessu efni verða lagt fyrir Alþ., þegar það kemur saman í haust.