10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2644)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. upplýsingar hans. Ég ætla ekki hins vegar að fara að flytja aðra ræðu. Ég stend aðeins upp til þess að láta í ljós þakklæti mitt. Það er rétt, sem háttv. þm. Gísli Guðmundsson benti mér á áðan, að fundartíminn er það takmarkaður, að ef við áhugamenn um liststarfsemi úti á landsbyggðinni færum að tefja þennan fund mjög, gæti það orðið til þess, að sú till., sem hér liggur fyrir, fengi ekki afgreiðslu. Ég vil sem sagt endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir þær ágætu og glöggu upplýsingar, sem hann veitti, þó að þær gæfu ekki tilefni til mikillar bjartsýni í þessum efnum. En þó treysti ég honum til hins bezta, enda veit ég það, að honum er það áhugamál að efla menningarstarfsemi úti á landsbyggðinni ekki síður en annars staðar.