30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2668)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Karl Guðjónsson:

Herra forseti Eins og hv. 1. flm. þessarar till. sagði í sinni framsöguræðu, hafa komið fram hugmyndir um akfæra leið á þeim slóðum, þar sem nú er í þessari till. gert ráð fyrir, að reistar verði brýr og vegur, þ.e.a.s. um Skeiðarársandssvæðið, löngu fyrr en þessi til kemur fram í hinum gömlu vegalögum. sem nú eru reyndar afnumin með tilkomu hinna nýjustu vegalaga, sem nú eru í gildi Var sagt, að Suðurlandsvegur skyldi ná frá Reykjavík austur á Höfn í Hornafirði Það sjá auðvitað allir menn, að við setningu þeirra l. hefur sú hugmynd verið býsna ofarlega í hugum manna, að á þessu svæði hlyti fyrr eða síðar að koma akfær leið. Á hinum síðari árum hefur sífellt tognað úr þeirri leið, sem akfær er á þessu svæði, raunar bæði frá austri og vestri, og þegar fyrir um það bil 5 árum var sýnilegt, að, að fáum árum liðnum mundi ekki vera eftir á þessari leið óakfært meira en kaflinn úr Öræfum að Núpsstað við Lómagnúp. En það mun vera um það bil 40 km langur kafli. Leiðin öll frá Reykjavík austur á Hornafjörð er hins vegar tæpir 500 km. Nú er reyndar svo komið, eða sjá má fram á, að þegar á næsta sumri verður ekki stærri kafli ófær af þessari Ieið en einmitt um 40 km, og það er einmitt þessi kafli, sem einan vantar í, svo að hringleiðin um Ísland sé gerð akfær. Það liggur þess vegna í augum uppi, að það er miklu til þess kostandi að opna þessa leið.

Máske hef ég verið heldur fljóthuga í þessu máli, þegar ég fyrir 5 árum síðan lagði hér fram ásamt hv. 4, þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, till. um það, að þessi leið yrði gerð akfær þá á allra næstu árum. Hugleiddar voru tvær meginhugmyndir, en þær eru og hafa reyndar alltaf verið með þeim hætti, að vegna jökulhlaupa, sem öðru hvoru koma á þessu svæði, en virðast greinilega fara minnkandi hin síðari árin, kemur til mála að brúa vatnsföllin á þessari leið með tiltölulega ódýrum staurabrúm, sem þá mætti reikna með, að í jökulhlaupum flytu burt eða þær gætu lent uppi á þurru, eins og hæstv. samgmrh. drap hér réttilega á í sinni ræðu. Þá er og hitt, að það er komið svo nálægt með það vegna tækniframfara á hinum síðustu árum, að hugsanlegt sé að brúa þetta varanlega, þannig að brýrnar standi af sér jökulhlaupin og vegirnir þá væntanlega Iíka, nema máske mundu jökulhlaup brjóta í vegina einhver skörð. Þessar tvær hugmyndir koma auðvitað báðar til greina, þegar hugleitt er, hvernig eigi að gera þetta og hve mikið fé muni kosta að gera það.

Nú er hins vegar komin svo almenn hreyfing um málið að það er ekki hægt að láta hjá líða með það öllu lengur að gera raunhæfar áætlanir og efna til framkvæmda, sem miða að því að opna þessa leið. Maður sér það t.d. á þeim till.-flutningi, sem hér er fram kominn. Hann er að því leyti óvenjulegur, að hér hafa þm. úr öllum flokkum sameinazt um mál. sem greinilega verður ekki framkvæmt ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Þá er komið að því, hvernig eigi að afla fjár til þessarar framkvæmdar. Það er eins og hæstv. ráðh. drap á, að ýmsir munu nú hafa leitt hugann að því, hvaða leiðir væru þar færar og ég vil þegar koma hér á framfæri hugmynd, sem í mínum huga er mjög ofarlega í þessu máli. Það er eins og ráðh. réttilega sagði,að hér þarf til milljónir og milljónatugi.

Í fjárlögum yfirstandandi árs eru ætlaðar 34 1/2 millj. kr. með vissum hætti til vegamála, enda þótt á fjárlögum sé sú upphæð færð undir dóms- og kirkjumrn., það er kostnaður ríkissjóðs af þeirri breytingu að flytja umferðina af hinum vinstra vegarkanti yfir á hægri kant. Þessi fjárveiting hefur þann kost í för með sér, að hún er ekki eilíf, henni verður væntanlega lokið á þessu yfirstandandi ári Það hefur lengi þótt siður stjórnvalda að afnema aldrei þau útgjöld, sem lögð hafa verið á einu sinni, og ekki þætti mér fráleitt að hugsa mér það. að þessi útgjöld yrðu fastur liður í útgjöldum ríkissjóðs á næstunni, að minnsta kosti meðan ekki er kominn hringvegur um Ísland.