17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. til þál. á þskj. nr. 49 um undirbúning þess að gera akfært umhverfis landið.

Eins og fram kemur í áliti n., leitaði hún umsagnar vegamálastjóra um till., og þann 27. marz s.l. barst svo n. ýtarleg grg. um málið frá vegamálastjóra, og er álitsgerðin í heild prentuð sem fskj. með nál.

Í umsögn vegamálastjóra kemur það fram, að enda þótt sjálfsagt sé að hraða þeim athugunum, sem hér um ræðir, eftir föngum, þá telur hann með öllu óhugsandi, að hægt sé að framkvæma þær nauðsynlegu rannsóknir og mælingar, sem hér er lagt til, að gerðar verði, á einu sumri, þannig að niðurstöður geti legið fyrir á komandi hausti og þá hafðar til hliðsjónar, þegar vegáætlunin fyrir árin 1969–1972 verður afgreidd. Þessa skoðun sína rökstyður vegamálastjóri nokkuð nánar í umsögn sinni. Skýrir hann þar fyrst, hve umfangsmikið verkefni hér sé um að ræða, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skeiðarársandur nær frá Lómagnúp að vestan og að Skaftafellsheiði að austan, og er hann tæpir 30 km á breidd. Um sandinn falla 4 stórfljót, og eru þau, talin að vestan, Núpsvötn, Súla, Sandgígjukvísl og Skeiðará.

Í Súlu koma jökulhlaup úr Grænalóni uppi í Vatnajökli. Þessi hlaup falla yfir í Núpsvötn, er niður á sandinn kemur, og mynda þar einn samfelldan flaum. Talið er. að þessi hlaup geti numið 6–8 þús. teningsmetrum á sekúndu, eða 15–20-földu meðalrennsli Þjórsár, svo dæmi sé tekið. Á miðjum sandi fellur fram Sandgígjukvísl, og er hún eina vatnsfallið á Skeiðarársandi, sem fellur í nokkuð ákveðnum farvegi. Í hana koma hlaup jafnhliða Skeiðará og er talið, að vatnsmagn í þeim geti numið 4–5 þús. teningsmetrum á sekúndu. Austast fellur svo sjálf Skeiðará og flæmist hún yfir breitt svæði á sandinum, er neðar dregur. Hlaup í hana og Sandgígjukvísl koma úr Grímsvötnum, og hafa þau á undanförnum áratugum komið nokkuð reglulega á fjögurra til fimm ára fresti. Hlaup þessi hafa farið minnkandi hin síðari ár, og er þá talið, að þau hafi numið 6–8 þús., teningsmetrum á sekúndu. Áður voru meðalhlaup talin mun meiri eða 10–12 þús. teningsmetrar á sekúndu, en stórkostlegri hlaup hafa þó komið í Skeiðará í sambandi við gos í Grímsvötnum, og var talið, að í seinasta gosi þar árið 1934, hafi hlaupið í hámarki numið 40–50 þús. teningsmetrum á sekúndu.

Mjög lítið er vitað um venjulegt sumar rennsli í ánum á Skeiðarársandi, en víst er, að það mun aðeins vera lítið brot af því vatnsmagni, sem berst fram í jökulhlaupunum. Það verða því jökulhlaupin, sem ákvarða stærð þeirra mannvirkja, sem byggja þarf. Ef tengja á hringleið um landið með Iagningu vegar yfir Skeiðarársand, þá er ljóst að byggja verður brýr á vatnsföllin á sandinum það stórar, að þær taki öll venjuleg jökulhlaup eins og þau hafa verið hin síðari ár. Hins vegar er þess ekki að vænta, að unnt verði að byggja brýrnar þannig, að þær taki hlaup á borð við það, sem kom árið 1934 jafnhliða gosinu í Grímsvötnum.“

Þessu næst er vikið að því að upplýsa um þær athuganir, sem gerðar hafa verið til þessa, en þar kemur fram, að vegagerðin hefur þegar fyrir 4 árum hafið athuganir sínar og rannsóknir á þessu vandamáli. En um þetta segir svo:

„Þó mikill fróðleikur sé til um jökulhlaup á Skeiðarársandi úr Grænalóni og Grímsvötnum á undanförnum öldum, þá er þó fæst af því þess eðlis, að í tölum verði talið, er nota megi við hönnun mannvirkja. Engar nákvæmar mælingar eru t.d. til um stærð hlaupanna eða dreifingu þeirra um sandinn. Tölur þær, sem nefndar eru að framan, eru að mestu leyti ágizkanir jarðfræðinga og jöklafræðinga, sem byggðar eru á rúmmáli þeirra lóna, sem tæmzt hafa, og lengd hlaupanna. Þá er lítið vitað um það ísmagn, sem berst fram með hlaupunum, hve stór ísinn er, og þó sérstaklega, hve langt hann dreifist fram á sandinn.

Árið 1964 gerðu verkfræðingar vegagerðarinnar fyrstu frummælingar á Skeiðarársandi til þess að glöggva sig á stærð hlaups, sem væntanlegt var árið eftir. Sumarið 1965 voru teknar loftmyndir af sandinum seint í ágústmánuði. Skeiðarárhlaup kom síðan í sept., og fylgdust verkfræðingar vegagerðarinnar með hlaupinu, mældu dreifingu þess og jakaburð. Meðan hlaupið var í hámarki voru einnig teknar loftmyndir af sandinum til samanburðar við loftmyndir þær, sem teknar höfðu verið í mánuðinum á undan. Niðurstöður þessara athugana voru á þá lund, að vatnsmagnið í þessu hlaupi hefði verið 6–8 þús. teningsmetrar á sekúndu. Í nóvembermánuði sama ár kom hlaup í Súlu úr Grænalóni, en þá vildi svo óheppilega til, að svartaþoka var og því ógerlegt að fylgjast með hlaupinu.

S.l. haust fór Vegagerð ríkisins fram á það við dr. Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, að hann tæki saman eins ýtarlega lýsingu og tök væru á um öll jökulhlaup úr Grímsvötnum og Grænalóni frá því, að sögur hófust. Einnig var farið fram á það við hann, að hann semdi grg. um þær breytingar, sem orðið hafa á Skeiðarárjökli samfara hlaupunum. Er þess að vænta, að skýrsla dr. Sigurðar geti legið fyrir á þessu ári.“

Um það verkefni, sem nú bíður úrlausnar og leysa þarf, segir hins vegar svo í áliti vegamálastjóra:

„Svo sem að framan greinir, þá hafa þær athuganir, sem gerðar hafa verið á Skeiðarársandi til bessa, eingöngu verið miðaðar við að fá fram upplýsingar um hegðun jökulhlaupanna og þá sérstaklega jökulhlaupsins í Skeiðará árið 1965. Var þetta gert með það í huga, að í lok yfirstandandi vegáætlunar á þessu ári yrði sæmilega bílfært að Skeiðarársandi beggja vegna, og mundi þá verða knúið á með athugun á því, hvort tiltækilegt væri að leggja akveg um, Skeiðarársand með viðráðanlegum kostnaði, svo sem nú er gert með ofangreindri till. til þál. Hefur kostnaður við þessar athuganir verið mjög hóflegur og hann verið greiddur af fjárveitingum til verkfræðilegs undirbúnings framkvæmda. Hins vegar mun rannsókn sú, sem þáltill. gerir ráð fyrir, verða mjög kostnaðarsöm, því þá verður að rannsaka allt, er viðvíkur hugsanlegri gerð mannvirkja, er staðizt gætu venjuleg jökulhlaup.

Hver endanlegur kostnaður við slíka rannsókn getur orðið, er ekki unnt að segja fyrr en hún er nokkuð á veg komin. Eru í eftirfarandi áætlun talin upp fyrstu verkefnin, sem leysa þarf í þessu sambandi og hefja mætti þegar á þessu ári, ef fé væri fyrir hendi. Koma þar fyrst mælingar, kortagerð og verkfræðikostnaður, 600 þús. kr., botnrannsóknir, 500 þús. kr., vatnsmælingar, 600 þús. kr. eða samtals 1 millj, og 700 þús. kr. Í mælinga- og kortagerðarkostnaði er gert ráð fyrir, að gerð verði kort af stórum svæðum við Skeiðará, Sandgígjukvísl, Núpsvötn og Súlu. Þá er áformað, að gerðar verði rannsóknir á burðarþoli botnsins við Skeiðará Sandgígjukvísl, Núpsvötn og Súlu, með því að reka niður 15–20 staura á mismunandi stöðum í farveg ánna. Er þess vænzt, að með því móti fáist upplýst, hvert burðarþol botnsins er með tilliti til brúargerðar. Væri mjög heppilegt að geta lokið þessum rannsóknum í sumar, því brúarvinnuflokkur verður í Öræfasveit í ár við byggingu brúar á Hrútá í Öræfum og Fellsá. Gæti vinnuflokkur þessi gert botnrannsóknirnar á leið úr Öræfum vestur yfir sandinn. Þá hefur í samráði við vatnamælingadeild orkumálastjóra verið gerð áætlun um að koma, upp sjálfritandi vatnsmælum í ám beggja vegna Skeiðarársands og í Sandgígjukvísl, en ekki er talið tiltækilegt að koma upp slíkum sjálfritandi vatnsmælum í Skeiðará Núpsvötnum eða Súlu, sökum þess hve ár þessar renna á við og dreif. Í þeim yrðu í stað þess gerðar þversniðsmælingar nokkrum sinnum. Yrði það fyrsta skrefið til þess að fá nákvæmar mælingar af næstu jökulhlaupum á Skeiðarársandi.

Það mun fara nokkuð eftir niðurstöðum þessara rannsókna, hvernig rannsóknum verður hagað árið eftir. Líkur eru taldar á því, að næsta hlaup í Skeiðará komi árið 1370, og telur dr. Sigurður Þórarinsson, að þegar mælingar hafa verið gerðar í Grímsvötnum á vori komanda, muni mega segja fyrir um það atriði með nokkurri vissu. Fyrir það hlaup er alveg nauðsynlegt að geta byggt hluta af varnargarði eða varnargörðum af mismunandi gerðum til þess að fá úr því skorið,hvaða gerð varnargarða muni geta staðizt jökulhlaup í Skeiðará. Að fenginni reynslu af slíku hlaupi er líklegt að gera mætti sér nokkuð raunhæfa grein fyrir því, hvaða gerð varnargarða og brúa kæmi til greina við lagningu vegar yfir Skeiðarársand.“

Af þessu, sem ég hef nú lesið úr umsögn vegamálastjóra, er augljóst mál, að hvað sem fjárútvegun líður til þess að standa undir kostnaði við umræddar rannsóknir og undirbúning þeirra framkvæmda, sem þáltill. felur í sér, verður ekki gengið fram hjá þeirri staðreynd, að fullnaðarathugun verður ekki unnt að framkvæma nema að fengnum þeim tíma, sem sérfræðingar gera ráð fyrir, og kemur fram í áliti vegamálastjóra um till. Þá vil ég geta þess, að á þskj. nr. 241 er brtt. við þessa þátill. frá hv. 4. þm. Reykn., sem felur það í sér, að áætlunin nái einnig til þess að athuga um flugferju yfir vatnasvæðið á Skeiðarársandi og þá hvort í því geti falizt möguleiki á að leysa þetta vandamál. Fjvn. telur eðlilegt, að tillgr. verði orðuð á þá lund, að þessi athugun geti einnig átt sér stað. Fyrir því hefur n. leyft sér að leggja til, að tillgr, verði svo sem hér segir á þskj. 619, og hljóðar hún þá svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á samgmrh. að láta gera áætlun um samgöngubætur yfir Skeiðarársand, sem tengi hringleið um landið. Áætlun þessari skal hraðað svo sem unnt er og að því stefnt, að hafa megi afnot af henni við gerð vegáætlunar fyrir árin 1972–1976.“

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þessa þáltill., en vænti þess, að till., þannig breytt, hljóti samþykki Alþ.