17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

79. mál, breytt skipan lögreglumála í Reykjavík

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti.

Till., sem hér liggur til afgreiðslu, fjallar um breytta skipan lögreglumála í Reykjavík og hljóðar svo:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa breytta skipan á yfirstjórn lögreglunnar í Rvík, þannig að bæði hin almenna lögregla og rannsóknarlögregla heyri framvegis undir yfirstjórn lögreglustjóra.“

Allshn. sendi þessa till. til umsagnar dómsmrn., og sendi það allshn. svohljóðandi bréf varðandi till.:

„Með skírskotun til bréfs hv. allshn. dags. 20. f. m., þar sem óskað er umsagnar rn. um till. til þál. um breytta skipan lögreglumála í Rvík, sem liggur fyrir þinginu, skal tekið fram, að rn. telur engum vafa bundið, að stefna beri að því að sameina lögregluna í Rvík og með því verði hægt að nýta starfskrafta og starfsaðstöðu mun betur en nú er unnt. Hefur verið gert ráð fyrir því við undirbúning byggingar nýrrar lögreglustöðvar í Rvík, að þar rúmist öll starfsemi lögreglunnar óskipt. Rn. hefur rætt viðhorf til framtíðarskipunar þessara mála við lögreglustjóra og yfirsakadómara í Rvík, og eru þeir sammála rn. um, að stefna beri að slíkri sameiningu lögreglunnar.“

Að fenginni þessari umsögn lagði allshn. til einróma, að till. væri samþ.