13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2723)

142. mál, meðferð á hrossum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti Ég ætla nú að hætta á það að segja fáein orð um þetta mál, jafnvel þó að því sé haldið fram, að það geti haft slæmar afleiðingar fyrir mann síðar. En maður verður þá að taka þeim afleiðingum, og ég hef ekki fleiri orð um það.

Hv. 4. landsk. þm., flm. þessarar till., hafði orð á því, að það væri fátt í friði fyrir hrossunum úti á vegunum, jafnvel dagblöðin væru þar ofurseld þeirra græðgi, og mun það vera rétt. En ég hygg, að það muni vera almennt viðurkennt af þeim, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að slíkir hlutir gerast ekkert síður á þeim tíma, þegar grösin eru græn og hrossin hafa nóg að éta. Það mun ekki vera vegna þess, að þau hafi sérstakan áhuga fyrir bókmenntum, né heldur af hinu, að þau séu svo nærri falli komin fyrir hungurs sakir, að þau leggja sér dagblöðin til munns. Liggja til þess aðrar orsakir, sem ég ræði ekki nú. En ég vildi aðeins leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir því, að umr. fara fram um þetta mál hér í Alþ. Ég tel, að enn sé, því miður, þörf að ræða þessi mál þó að þetta sé hvergi nærri fyrsta umr. á meðal ábyrgra manna um það, á hvern hátt eigi að snúast við þeim vanda, sem hér er við að stríða.

Flm. þessarar till„ hv. 4. landsk., hafði orð á því og gat um það réttilega, að hæstv. landbrh. hefði lagt á það ríka áherzlu við Búnaðarþing, að að þessum málum yrði staðið með þeim hætti, að fyrir það yrði tekið, að fóður skorti fyrir búpening á hverjum tíma. Ég vildi mega upplýsa það hér, að Búnaðarþing hafði þetta mál til meðferðar og gerði um það ályktun, sem að sjálfsögðu mun styðja að því, að þetta komist í betra horf og betra lag en verið hefur, og er þess full þörf. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að kynna hér þá till., sem Búnaðarþing samþykkti um þetta efni. Hún er á þessa leið:

„Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að gangast fyrir fundum um fóðurbirgðamál á komandi sumri. Fundir þessir verði haldnir um allt land, einn í hverju sýslufélagi, og þeim lokið fyrir réttir. Á fundum þessum skulu mæta forðagæzlumenn, oddvitar hreppsfélaga og héraðsráðunautar í búfjárrækt eða fulltrúar þessara aðila. Helzta verkefni fundanna skal vera að taka til rækilegrar endurskoðunar lágmarkskröfur, sem gilt hafa um ásetningu og fóðurþörf búfjárins. Miðist endurskoðun þessi einkum við heyfóðrið. Reynt verði að samræma ásetninginn, eftir því sem tök eru á og hert á lágmarkskröfum um heybirgðir á haustnóttum, þar sem sýnt er, að ásetningur er ekki enn öruggur fyrir. Þá vinni fundirnir að því, að forðagæzlumenn ljúki ásetningi svo snemma hausts, að bændur hafi sem minnst óþægindi, ef um fækkun bústofns verður að ræða vegna of lítilla heyja.“

Eins og ég sagði áðan, er þetta hvergi nærri fyrsta skiptið, sem þessi mál ber á góma, að tryggja hrossum og öðrum búpeningi nægilegt fóður yfir veturinn og aðbúð, þannig að sómasamlega sé að þeim búið á allan hátt. Ég vil vekja athygli á því einnig, að í tímariti Landssambands hestamannaffélaga, 1. tbl. þess 1967, bendir ritstjórinn á það í ritstjórnargrein, að það séu núna því nær 90 ár síðan sýslunefnd Skagafjarðarsýslu samdi reglugerð í því skyni að bæta kynferði búpenings í héraðinu, en í þeirri reglugerð segir m. a:

„Hver búandi skal eiga rúmgóð hús yfir öll hross sín og hjúa sinna. Bresti húsrúm, verður hann að fækka hrossunum.“

Ráðamenn um þessi efni hafa, eins og af þessu má sjá, lengi séð það, að hér var mikilla úrbóta þörf, og maður verður að játa það, að okkar ferð hefur gengið grátlega seint í þessu efni, að komast á þann leiðarenda, sem við verðum að ná, og það er að búa þannig að þessum gripum eins og öðrum, að það sé vansalaust og þeim megi líða vel. Um þessa reglugerð sagði Theódór heitinn Arnbjörnsson einu sinni, að samþykktinni væri ætlað að gerbreyta svo allri aðbúð Skagfirðinga við hross sín, að öllu ólagi ætti að hrinda með einu átaki, en framundan blasti við fyrirhyggja, mannúð og hagsýni. „Er svo bjart yfir hugsjóninni, sem stendur á bak við frv. um þessa reglugerð, að hún má ekki gleymast.“ Og með það í huga vildi ég m.a. minna á þessi orð.

Þá vil ég minna á það, að Búnaðarsamband Suðurlands hefur á þessum vetri m.a. rætt þessi mál og gert um þau samþykktir. Ég vil fyrst minna á samþykkt, sem stjórn Búnaðarsambands Suðurlands gerði á fundi sínum 1. febr. í vetur, sem er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Samkv. forðagæzlulögunum er ráðunautum búnaðarsambandanna í búfjárrækt skylt að hafa yfirumsjón með forðagæzlunni og fóðrun búfjárins. Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands telur það mjög miklu skipta, að framkvæmd forðagæzlunnar fari að öllu leyti vel úr hendi, og til þess að auðvelda ráðunautum sambandsins yfirumsjón forðagæzlunnar heimilast ráðunautunum Hjalta Gestssyni og Einari Þorsteinssyni að ráða tvo menn sér til aðstoðar við þessi störf, og skal annar vera dýralæknir, en hinn vanur forðagæzlumaður, þannig að á sambandssvæðinu yrðu tvær forðagæzlunefndir til aðstoðar forðagæzlumönnum og hreppsnefndum.“

Þessari ályktun er ætlað að stuðla að því, að framkvæmd forðagæzlulaganna komist í betra horf en nú er, og verður maður að vona, að þessi samþykkt meðal annarra umr., sem um mál þessi verða, verði til þess að stuðla að því, að svo verði.

Þá vil ég einnig minna á að á fundi, sem Búnaðarsamband Suðurlands boðaði til alla formenn búnaðarfélaganna á sínu sambandssvæði 2. febr. í vetur, voru þessi mál mjög til umr., og mig langar til að kynna hér bæði útdrátt úr fundargerð þessa fundar og samþykkt þá, er þar var gerð. Í fundargerðinni segir svo, með leyfi forseta:

„Annað atriði fundarins var framsöguerindi, sem Hjalti Gestsson búfjárræktarráðunautur flutti um forðagæzlu. Taldi ræðumaður, að forðagæzlan væri ekki tekin nógu alvarlega í sumum sveitum. Skýrslugerð um þessi efni og öll framkvæmd þarf að vera í fullkomnu lagi og ásetningur ekki meiri en heybirgðir leyfa og mjölgjöf sé ekki notuð nema sem fóðurbætir. Þá taldi ræðumaður, að á ýmsum bæjum væri hirðingu mjög ábótavant á búfé og þó sérstaklega á hrossum, einnig væru gripahús ekki í því standi, er þau þyrftu að vera. Þetta þyrftu búnaðarfélagsformenn að hugleiða og vinna að umbótum, hver í sinni sveit, þar sem þörf gerist, og hvatti ræðumaður bændur til þess að vinna að því. Skylt mál þessu, sagði ræðumaður, að væri gæzla búfjárins, sagði, að búpeningur ætti ekki að flækjast um alla vegi og valda öðrum skaða og óþægindum.“

Flundur þessara forráðamanna búnaðarfélaganna á sambandssvæðinu gerði svo um málið samþykkt, að vísu er það fyrst og fremst um síðari lið þessa erindis, sem þarna var flutt, en það er einmitt mjög skylt þessu, sem við erum að ræða um, enda kom flm. inn á það að nokkru leyti En samþykkt fundarins er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur formanna hreppabúnaðarfélaganna á Suðurlandi, haldinn að Goðalandi í Fljótshlíð á vegum Búnaðarsambands Suðurlands 2. febr. 1968, leggur áherzlu á að búfjáreigendur haldi gripum sínum í öruggum girðingum, en láti þá ekki ganga umhirðulitla í annarra löndum eða á umferðarleiðum vegfarendum til tafar og tjóns. Fyrir því skorar fundurinn alvarlega á búfjáreigendur og forystumenn sveitanna að vinna markvisst að því, að flökkufénaður hverfi með öllu af umferðarleiðum héraðsins og sér í lagi úr löndum annarra, eftir því sem frekast er unnt.“

Ég vil þá einnig geta þess hér, að ýmis félagsskapur áhugamanna eins og t.d. hestamannafélögin í landinu og landssamband þeirra, hefur mjög haft þessi mál á dagskrá og gert um þetta samþykktir iðulega á ársþingum sínum. Ég vil rétt aðeins minna á að samþykktir hafa verið gerðar um þessi mál á þingi, sem haldið var á Sauðárkróki 1964, sem haldið var á Hvolsvelli 1965 og nú síðast á Blönduósi 1967. Ég tel ástæðulaust að lesa hér upp hverja samþykkt fyrir sig. Þær miða allar að hví að skora á ráðamenn og hestaeigendur að kippa þessum málum í lag, svo að hestunum megi líða sem bezt og þeir verði ekki eigendum sínum til skaða og skammar.

Þá vil ég einnig geta þess, sem ég raunar drap hér lauslega á áðan, að í tímariti landssambandsins hefur iðulega verið að þessum málum vikið og þó einna mest núna á árinu 1967. Ég benti áðan á ritstjórnargrein ritstjórans, en fleira hefur verið um þetta rætt í því riti. Í 2. tbl. þessa árgangs segir ritstjórinn t.d. í grein, sem hann kallar: „Um stóðhross og útigang“ — þá segir hann m.a., að það muni vera nauðsyn á að fækka hrossunum, og segir þá orðrétt:

„Framkvæmd hrossafækkunar verður vart hugsanleg nema með einu móti. Landslög verða að gilda og skera úr. Fortölur og rökræður munu litlu til vegar koma. En lög eru lög, og þegar nauðsyn styður þau, ætti ekki að þurfa að brýna neinn til þess að halda þau. Ég tel, að Landssamband hestamannafélaga og Búnaðarfélag Íslands verði sameiginlega að skora á yfirvöld, að þau láti til skarar skríða í haust og fylgi eftir lögum um ásetning hrossa í landinu. Mér er það vel ljóst, að ég er að kveða upp dóm yfir sjálfum mér. Ég veit, að svo kann að fara, að ég verði að leggja að einhverju leyti í rúst hugsjónir bernsku minnar, ræktunarstarf, sem aðeins er vísir þess, sem verða átti, tómstundastarf, sem verið hefur Iífshamingja mín að nokkru og kostað erfiði og fjármuni, en við því er ekkert að segja.“

Þessi drengilegu orð mælir ritstjóri tímaritsins Hesturinn okkar í 2. tbl. árgangsins 1967.

Þá þykir mér rétt einnig að kynna, að í þessu sama riti, sama hefti, hefur Guðmundur Þorláksson bóndi á Seljabrekku skrifað grein, sem hann kallar „Veðurskýli,“ og mundu þau vissulega, ef þau væru reist fyrir hrossin úti í haganum, verða til mikilla bóta og oft og tíðum nægileg vörn fyrir þessa gripi í stuttum hrinum, sem gerir, þegar ekki næðist til þeirra til þess að koma þeim í hús.

Mér þótti rétt að benda alþm. á þessa hluti. sem ég hef hér talið, en þetta er aðeins annar þáttur þess, sem vert væsi að ræða í sambandi við þá till., sem hér er til meðferðar.

Ég hef bent á að það mun vera liðið a.m.k. fast að 90 árum frá því að menn fóru að bollaleggja um það og gera u m það samþykktir, að nauðsyn væri að kippa þessum málum í lag, og enn erum við ekki komin þar á leiðarenda. Þá þegar svo hefur gengið, væri eðlilegt, að við leituðum eftir orsök þess, að svona hefur gengið til. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, hvað þessum hlutum veldur, og ég held, að ég verði að draga þá ályktun af þeim athugunum, að það sé hrossafjöldinn, sem þarna skapar mestan vandann, svo og að hrossin gefa ekki eigendum sínum það í aðra hönd, sem þarf til þess, að þeir geti af fjárhagasástæðum kippt þessum málum í lag, hvorki það, að þeir geti skaffað þeim það viðurværi og aðbúnað, sem vert og skylt er, heldur einnig hitt, að það er ekki hlaupið að því að fækka hrossum, þegar litið fæst fyrir þá gripina, sem felldir eru úr hjörðinni. Um aldamótin síðustu var hrossatalan í landinu um 41 þús., um 1920 var hún komin upp í 50 þús., um 1940 eru þau 56 þús., en núna, 1960, er þessi tala komin niður í 31 þús. Þessi mikli fjöldi hrossa um 1940 mun að sjálfsögðu eiga rætur sínar að rekja til þess, að á þeim árum gengu sauðfjárpestir yfir landið, og bændur höfðu það sem nauðvörn í þeim þrengingum, sem þá gengu yfir þá að fjölga hrossunum og reyna að hafa af þeim tekjur, sérstaklega með kjötframleiðslu í huga Það hefur komið í ljós, að sú atvinnugrein var ekki arðbær, þó að hún bjargaði í bili, og því hefur verið horfið frá því ráði víðast hvar vegna þess, hversu þessar kjötvörur hafa verið í lágu verði og þess vegna ekki svarað til þess kostnaðar, sem þurfti að leggja í við þessa búgrein.

Ég vil benda á að til þess að hægt sé að kippa þessum málum í gott lag, þarf að gera tvennt að mínum dómi Í fyrsta lagi að fækka hrossunum. En til þess að það sé hægt að fækka þeim, þyrfti að tryggja betra verð fyrir þau. Og ég á von á því, að það muni vera hægt að skapa og gera verðmæti úr þeim hrossum, sem til eru í landinu, ef hyggilega væri unnið að, með því að halda áfram þeirri sókn, sem verið hefur í kynbótastarfseminni í hrossaræktinni og einnig með því að vinna ötullega að því að skapa markaði fyrir þessi hross, fyrir íslenzka hesta hérlendis og erlendis. Það hefur nokkuð verið gert af því að flytja þau út til notkunar, sérstaklega í Þýzkalandi og Sviss, en það verður að játast, að að þeirri útflutningsverzlun hefur ekki verið staðið eins og þurfti. Ég álít, að vöruvöndun hafi þar ekki verið nægilega mikil, til þess að hrossin fengju þann eðlilega dóm og þær eðlilegu vinsældir, sem vænta mætti, og þess vegna þurfi að gera ráðstafanir, t.d. með því að hafa sérstakt gæðamat á þeim gripum, sem fluttir eru úr landi, til þess að hækka söluverðið erlendis. Ef þetta tækist, mundi það áreiðanlega verða drjúgur þáttur í því að leysa það mál, sem við erum hér við að fást og um er að ræða. En ég vil benda á það einnig, að það er mikil nauðsyn, að þeir menn, sem ræða þessi mál og gera um þau samþykktir, gleymi aldrei að gera kröfu til sjálfra sín og þeirra aðila, sem eru ábyrgir fyrir þessum hlutum og brýni fyrir þeim að gera það, sem þeim er ætlað, til þess að koma þessum málum í lag.