13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

142. mál, meðferð á hrossum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er yfirleitt dauft hjá okkur hér í þinginu, og lítið líf í umr, og liggur tæpast nógu vel á þm. En hv. 4. landsk. þm. bætti ofurlítið úr því. Ég hef alltaf haft miklar mætur á þessum hv. þm. sem stílista og skemmtilegum rithöfund. Ég las bók eftir hann, Tekið í blökkina, eftir Jóngeir nokkrum. Ég hafði mikið gaman af þeirri bók. Jóngeir sagði með afbrigðum vel frá svo að þessi hv. þm. á ekki allan heiðurinn af þeirri bók, en góð var hún. Ég las einnig bók eftir hann, þar sem hann var að segja frá konu á Austurlandi, sem var mikill dýravinur. Ég átti því von á, að hann mundi útmála hér, þessi hv. þm., hvað þessum hrossum liði illa, sem við ættum úti að vetrinum, og gerast þeirra verndari og varnarmaður. En mér virtist fara furðulítið fyrir því. Ég álít, að hann hefði átt að lýsa því, hvernig þeim liði, þegar þau stæðu úti í stórhríðum, hefðu ekkert skjól, ef til vill þriggja sólarhringa byljum eða þegar krapahríðarnar gengju og þeim yrði kalt, svo kæmi frost á eftir, hrossin forkeluðust og hryssurnar létu folöldum, því að þetta er náttúrlega það, sem á sér stað. Í stað þess talaði þessi hv. þm. um það, að þau verði fyrir bílum og það vilji til að þau éti af brúsapöllum alls konar rusl. Út af fyrir sig getur það náttúrlega komið fyrir, en það er ekki aðalatriðið, því að það ætti að kenna mönnum hirðusemi að láta ekki liggja mikið á brúsapöllunum, ef þeir eiga von á, að hrossin éti það, svo að það út af fyrir sig gæti verið jákvætt. Í öðru lagi eru nú fleiri lífverur, sem éta af brúsapöllum, heldur en hross. Það eru t.d. hrafnar. sem eru alveg meinvættir. Ef lagt er smjör á brúsapall, eru þeir komnir í þetta og eins kindur, og ekki eru kýrnar beztar, því að þær eru mestu skaðræðisgripirnir, ef þær eru úti og komast að brúsapöllunum. Vitanlega geta hross orðið fyrir bílum, ef ógætilega er ekið, en það er nú þannig, að það eru fleiri skepnur en hross, sem geta verið á vegunum, þannig að þetta er ekki aðalatriði málsins. Svo er tilfellið, þó að menn fari að girða meðfram vegunum, eins og hv. 5. þm. Sunnl. var að tala um, að fundir á Suðurlandi hefðu verið að leggja áherzlu á að menn ættu að gera, og láta ekki skepnur sínar vera að flækjast á vegunum, þá er við það að athuga, að það er erfiðast að losna við skepnurnar, þegar girt er beggja vegna við veginn. Það er eins og þar sem mestar eru girðingarnar vilji það alltaf til, að skepnurnar komist inn á vegina, og þá er maður algerlega í vandræðum að losna við þær, stórir skurðir báðum megin og kannske girt nærri vegunum. Það eru raunar ólöglegar girðingar nú orðið, en girðingar, sem komnar eru, hafa yfirleitt ekki verið teknar upp, þó að þær séu nálægt vegunum. og þá er ég fyrst í erfiðleikum að losna við skepnurnar af vegunum, þegar girt er báðum megin, og þá er það endalaust, sem þær þvælast fyrir, bæði hross og kindur. Það er ákaflega æskilegt, að hross fari ekki inn á vegina og yfirleitt að skepnur séu sem minnst fyrir ferðamönnum. En það er bara e.t.v. erfiðast að fást við þetta, þar sem mest er girt.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Sunnl., að gerðar hafi verið samþykktir hestamannafélaga um meðferð á hrossum og eitthvað slíkt á Búnaðarþingi. Það er nú gott og blessað með allar þessar ályktanir, ef eftir þeim væri farið. Það er þannig, að ef farið væri eftir guðs og manna lögum, væri prýðilegt ástand í veröldinni. Það eru lög um forðagæzlu, og að það væru sjálfsagt allir vel settir, af eftir þeim lögum væri farið. En það er bara ekki gert. Ég talaði við einhvern allra raunsæjasta mann í búnaðarmálum um daginn. Ég hef alltaf haldið því fram, að það væri ekkert gagn að forðagæzlu, og held því enn fram. Hann sagði mér, að þetta væri alveg satt, það væri ekkert gagn að henni. Þetta er ekkert nema peningaeyðslan. Svo gera margir það af spotti að kjósa þá menn, sem alltaf eru heylausir, til að vera forðagæzlumenn, þannig að þetta er hreint ekki tekið alvarlega Það er snilld hjá hestamannafélagi Reykjavíkur, því að þetta eru hestavinir og hafa ánægju af hestum og allt vel um það, en ég heyrði nú annaðhvort í útvarpi eða blöðum, að þeir voru búnir að týna eitthvað milli 10 og 20 hestum í vetur í þessari líka þokkaveðráttu. Þeir voru búnir að spyrjast fyrir um það, ég heyrði það held ég í útvarpinu, hvort það gæti skeð, að þeim hefði verið slátrað einhvers staðar. Það er ágætt að gera svona samþykktir, en mennirnir þurfa fyrst að passa sín eigin hross.

Yfirleitt hef ég ekki haldið miklar ræður um þessi útigönguhross, en hryssurnar mínar, þær eru í hópum og þær koma heim, þ.e.a.s. ef einhver tekur þær ekki og passar þær, þá koma þær heim, og ég þarf ekkert að sýsla við þetta. En þessi óreiða, að vera búinn að týna 10–20 hrossum, hestum, reiðhestum, vinum sínum, — því í ósköpunum líta menn ekki eftir þessu? Ég held, að hv. flm. þessarar till. hefði átt að hnýta þessu aftan í hana og þessir hestamenn í þessum hestamannafélögum, þeir ættu fyrst og fremst að líta vel eftir sínum eigin hestum. Ég skal ekkert segja, hvað hefur orðið af þessum hestum. Sumir halda, að þeir hafi verið teknir í misgripum. Aðrir halda, að þeir hafi verið étnir. Út af fyrir sig væri það nú ekki neitt í ósamræmi við dýraverndunarlög, þó einhver hefði étið hestana, þeim leið ekkert illa á eftir. En fyrst ættu mennirnir að gæta að sínum eigin hestum, áður en þeir fara að víta aðra fyrir meðferð á hrossum.

Viðvíkjandi því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Sunnl., að hrossunum sé að stórfækka, dreg ég það ofurlítið í efa, því að við, sem eigum mörg hross, teljum ekki svo nauðsynlegt, að við vitum nákvæmlega, hvað við eigum, þannig að ég legg ekki ákaflega mikið upp úr þessu framtali, ég segi það alveg eins og er.

Viðvíkjandi því, sem þessi hv. þm. var líka að segja, að það ætti að hækka verðið á hrossunum, er það alveg rétt hjá honum, að menn hlífðust s.l. haust við að slátra hrossunum, vegna þess að það var ekkert fyrir þau að hafa. Það er búið að fara þannig með þessa hrossakjötssölu, að þetta fer mest í milliliðakostnað. En það er bara hætt við því, ef verðið hækkaði, að menn færu þá að halda, að þeir græddu á að eiga hross. En hitt vil ég taka fram, að mín skoðun er sú, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess, að hrossunum fækki í vissum héruðum a. m. k. Þau eru nú mjög fá víða. En það þarf að taka það öðrum tökum en tekið hefur verið. Það er þannig með þessa blessaða forðagæzlu og allt það, að þegar sveitarstjórnirnar eiga að sjá um framkvæmdirnar, hlífast þær við því. Það þarf alltaf einhvern að styggja, og menn hlífast við því. Það er ekki beint það, að þm. séu að sækjast eftir atkv., heldur er þetta heimamál í hverjum hreppi, og þar eru kosnar hreppsnefndir, og þá hafa atkv. á einu heimili kannske mikið að segja og þetta eru kunningjar. Bændur eru kunningjar og hlífast við að gera hver öðrum ógreiða.

Það er þannig með afréttarlöndin, að þau þola ekki, að þessi hross séu fleiri, og ég álít, að það sé nauðsynlegt að semja skynsamlega löggjöf um þetta og framfylgja henni, þannig að það sé tryggt, að það séu einhver takmörk fyrir því, hvað rekið sé í afrétt af hrossum, og í öðru lagi, að menn eigi ekki

hross, ef þeir hafa ekki yfir þau hús og hey. Ég heyrði talað um það í útvarpi, að einhver bóndi hefði sagt, að það versta, sem gert væri fyrir útigönguhrossin, væri að taka þau inn. Og þetta var, held ég, talin mesta firra og vitleysa. En sannleikurinn er sá að þetta er alveg rétt. Ef hrossið á að mestu leyti að lifa á útigangi, þá. er illa gert að fara að taka það inn í hús. En það þarf að gefa hrossunum, ef þau eru svöng, og það kom hér fram hjá hv. 5. þm. Sunnl., að menn þyrftu að eiga skýli úti í haganum fyrir hrossin, og þetta er í sjálfu sér alveg rétt og mjög vel athugað. En þá þarf að vera hey við það skýli, og það þarf að vera hægt að gefa inni. En yfirleitt er svo snöggt nálægt bæjum, síðan búin fóru að stækka, að hrossin verða að vera fjarri bænum, ef þau eiga að hafa viðunandi haga og þurfa að leita töluvert fyrir sér oft, og landlitlar jarðir þola bara alls ekki hrossaeign, þannig að þetta þarf að taka föstum og skynsamlegum tökum og koma í veg fyrir það, að menn eigi hross, sem hvorki hafa hús né hey og eru jafnvel sjálfir ekki í sveitunum, þar sem hrossin eru, eins og á sér stað í minni sýslu víða. En hins vegar get ég ekki tekið undir það, að yfirleitt liði útigangshrossum illa, ef þau eru ekki svöng. Ég held, að það sé yfirleitt skemmtilegasta líf, sem ein skepna getur lifað, það er að fá að ganga frjáls og glöð úti í náttúrunni. Það hlýtur hv. flm. að skilja. Og sérhvert dýr á gott, sem getur verið frjálst úti í náttúrunni og étið það, sem það vill, meðan það nær í það.

Svo þarf nú að fara vel með fleiri verur en hrossin. Hvernig er það með hreindýrin? Eru þau ekki látin ganga hungruð uppi á fjöllum? Ég held, að hv. flm. æti að hnýta því aftan við að skjóta þau öll, svo að þau kveljist ekki lengur í öræfunum. Það væri vit í því. Ég las það einhvers staðar, að hrafnarnir væru að kroppa í bakið á þeim og þau gætu ekki varizt. Svo má ekki svelta menn heldur. Ég hef orðið að vera mjólkurlaus og smjörlaus í marga daga núna. Og hv. flm. ætti að beita sér fyrir því, að menn væru ekki sveltir. Ég sé ekki, að neinn vinni við það að svelta fólk, ef hann á matvæli til handa því ekki sízt ef það er of mikið framleitt af þeim. Það þarf margs að gæta, bæði mannvináttu og dýraverndar.

En ég vil ekki taka undir það, sem flm. kom með, að við þurfum einkum að gæta þess, af því að við getum ekki algerlega komið í veg fyrir, að skepnur fari á vegi og geti orðið einstaka sinnum fyrir ferðamanni. Annars er það svo með suma þessa ferðamenn, að þeim liggur ekkert óskaplega á. Þeir eru að fara út í byggðirnar án þess að hafa mjög annríkt. Aftur höfum við nóg að gera, bændurnir, þó að við tefjum okkur ekki á þessu. Og brúsapallana verðum við að passa Ég veit ekki, hvort hv. flm. hefur orðið fyrir miklum skaða af brúsapöllum, hann hefur víst ekki átt svo marga En ég held, að við verðum að gæta þessarar vináttu við dýrin víðar en gagnvart hrossunum og meira að segja gagnvart mönnum.