13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2725)

142. mál, meðferð á hrossum

Magnús H. Gíslason:

Herra forseti. Það er nú að vísu komið að lokum fundartímans, og ég get lofað því að hafa hér ekki mörg orð um þetta mál, enda er þegar búið að koma inn á ýmislegt af því, sem ég hafði annars hugsað mér að taka fram. Einkum var það hv. 5. þm. Sunnl.. Steinþór Gestsson, sem það gerði og ég get því látið nægja að segja hér aðeins örfá orð.

Ég vil þá fyrst af öllu þakka hv. flm., 4. landsk. þm., ef ég man rétt, — ég er nú ekki alveg viss á númerum á mönnum hér í þingsalnum, og má kannske virða mér það til vorkunnar, — þakka honum fyrir flutning á þessari till. og það hugarfar, sem ég veit, að býr á bak við hann tillöguflutning hjá honum. Og ég get fullkomlega tekið undir það, sem fram kemur í þessari till., bæði að því er snertir till. sjálfa, sem er nú reyndar stutt, og einnig þá grg., sem henni fylgir.

Hér var vitnað áðan í 90 ára gamla samþykkt, sem hafði verið gerð í Skagafjarðarsýslu um meðferð á hrossum. Ég verð nú að segja það, að þó að hún sé góðra gjalda verð og hafi áreiðanlega á sínum tíma verið gerð af góðum hug og í góðum tilgangi, er því miður ekki hægt að segja það, að árangur hennar hafi orðið jafnmikill í minni heimabyggð og æskilegt væri að þeir menn, sem að flutningi hennar stóðu á sínum tíma, hafa sjálfsagt gert sér vonir um. Skagafjörður er hrossamargt hérað, þó að hrossum hafi að vísu farið fækkandi þar á seinni árum. Og þó að meðferð hrossa þar sé að sjálfsögðu ekki fullkomlega í því lagi, sem hún ætti að vera, hjá öllum, vil ég þó halda því fram alveg hiklaust, að hún hafi batnað mjög verulega á siðari tímum. Sannleikurinn er sá, að þar sem ég þekki til þarna heima,er, sem betur fer, svo komið, að það er ekki einasta, að flestir hafi nægjanlegt fóður, sem eitthvað eiga af hrossum, — þeir, sem eiga fá hross, hafa að sjálfsögðu alltaf nóg fóður fyrir sín hross og einnig hús, — það er einnig komið þannig, að þeim, sem eiga fleiri hross en almennt gerist, fer sífækkandi, sem hafa ekki fóður fyrir þau, þó að þeir sér enn til, því miður. Hinir eru eitthvað fleiri, sem ekki hafa hús fyrir sín hross. Það er líka töluvert útbreidd trú hjá mönnum, sem eiga hross, eiga stóð, og það kom fram hjá hv. þm. Birni Pálssyni áðan, að það sé kannske ekki höfuðnauðsyn, a.m.k. ekki að jafnaði, að menn eigi hús fyrir hrossin. Og það er nokkuð til í þessu. Ég á að vísu ekki mörg hross, en ég er alinn upp með hrossum og þykir vænt um hross og vil ekki missa af því að umgangast þau og þeirri ánægju, sem það veitir. Þó að við heima hjá mér og mínir nágrannar getum hýst okkar hross og gerum það oft og einatt, hef ég samt sem áður lært það af því að umgangast hrossin, að þau, sem á annað borð eru vön útigangi og lifa að öllum jafnaði mest á útigangi, kæra sig yfirleitt ekki um húsvist. Við höfum haft þann hátt á, að við gefum hrossunum inni að öllum jafnaði, þó ekki alltaf, en að öllum jafnaði gefum við þeim inni, ef tíð er þannig, að bað er erfitt að gefa þeim úti. En við látum þau vera við opið, og það er nokkurn veginn segin saga, að um leið og hrossin eru búin að éta fara þau út. Það má vera illt veður til þess, að þau virðist ekki heldur vilja standa undir húsunum standa í vari við húsin heldur en að standa inni, þegar þau eru búin að fá fylli sína. Og þetta álít ég,að bendi til þess, að hrossin uni í sjálfu sér ekki húsvistinni.

Það er hægt að leysa þetta mál á einfaldan hátt, eins og hér hefur verið drepið á, og tiltölulega ódýran. Vandinn er ekki annar en sá að reisa tiltölulega ódýr hús, við skulum segja bara bragga, fyrir hrossin, setja þar upp timburgarða eða þá bara hreint og beint byggja skýli úr torfi og grjóti, sem er fremur ódýrt, en alveg fullnægjandi, hafa hey við þessi skýli, og þarna er hægt að gefa hrossunum með Iítilli fyrirhöfn, þegar á þarf að halda. Þetta er auðveld lausn og eiginlega furðulegt, að menn skuli ekki hafa tekið hana upp í ríkara mæli en orðið hefur enn.

Ég skal ekki hafa þetta öllu lengra, því að það er komið fram yfir fundartímann. Ég hefði gjarnan viljað segja hér eitthvað fleira í sambandi við þetta mál, ef tími hefði unnizt til, en fundartíminn er úti, og ég vil ekki vera að brjóta af mér við hæstv. forseta, sem leyfði mér að segja þessi fáu orð. En ég vil aðeins endurtaka þakklæti mitt til hv. flm. fyrir þessa till. Sannleikurinn er sá að þetta mál er raunverulega í höndum sveitarstjórnanna á hverjum stað. Þær hafa lög við að styðjast, og ef þær kæra sig um, geta þær fylgt þeim eftir, og það er raunverulega skylda þeirra að fylgjast með því á haustnóttum, að hrossabændur hafi fyrir hrossin, eins og annan búfénað, nóg fóður og hús. Og það, sem á vantar, er bara, að menn heima fyrir, þeir, sem vilja ekki una þessu ástandi, fylgist með því og fylgi því eftir, að þeir, sem hafa vald til þess að ráða því, hvernig á þessum málum er haldið, kippi þeim í lag, hver hjá sér. En það er ekki orðið enn, og meðan svo er ekki, tel ég þessa till., sem hér hefur komið fram, fullkomlega réttmæta og þakka hv. flm. fyrir að hafa vakið máls á þessu.