20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2735)

148. mál, auknar sjúkratryggingar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir ummæli hv. flm., 2. þm. Vesturl., að hér er um þýðingarmikið mál að ræða, sem nauðsynlegt er að leysa. Annað sæmir okkur ekki á þeirri tryggingaöld, sem við lifum á. Ég vil geta þess hér, af því að mér er það mál vel kunnugt, að tryggingaráð Tryggingastofnunar ríkisins skipaði þriggja manna n. fyrir rúmu ári síðan til þess að finna lausn á þessu vandamáli. Þessi n. skilaði áliti og samdi frv. að l. í þessum efnum. Frv. þetta var sent félmrn. á sl. hausti, og var jafnframt óskað eftir því, að félmrn. ynni að framgangi málsins hér á hv. Alþ. Félmrn. mun hafa rætt málið við fjmrn., sem ekki treysti sér til að vinna að framgangi málsins að svo stöddu, sakir þess að það fæli í sér útgjöld fyrir ríkið. Þess vil ég geta, að þeir sjúklingar, sem leita læknishjálpar til annarra landa, verða sjálfir fyrir miklum fjárútlátum eða þeirra nánustu. Það kemur því úr hörðustu átt að halda því fram, að þjóðin í heild geti ekki Iagt á sig nokkrar byrðar, sem einstaka févana sjúklingar verða að taka á sig. Hér er um nauðsynlegt mál að ræða, sem verður að finna viðunandi lausn á.

Ég er þakklátur hv. flm. fyrir að flytja þessa till. hér, og ég vænti þess, að þeir noti aðstöðu sína til þess að vinna að endanlegri, viðunanlegri Iausn á þessu þýðingarmikla máli.