20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2736)

148. mál, auknar sjúkratryggingar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðeins út af þeim upplýsingum, sem hér komu fram, um það, að n. hefði unnið að athugun þessa máls og sent félmrn. frv. til lausnar þessu máli, en á fjmrn. hefði strandað, þar sem það hefði í för með sér gjöld úr ríkissjóði. Og hv. síðasti ræðumaður taldi það koma úr hörðustu átt, að þjóðfélagið í heild gæti ekki lagt eitthvað af mörkum í sambandi við kostnað, sem margir einstaklingar þyrftu að leggja á sig mjög mikinn hver og einn í málum jafnalvarlegum og þessum. Ég vildi mega vona, að þetta yrði ekki til þess að valda misskilningi, en mín afstaða, þegar ég sá uppkastið að nefndu frv., var sú, að þar hefði verið leitað of lítið að þeirri eðlilegu lausn, sem ég tel, að ætti að vera á þessu máli og vikið er að í þessari þáltill., þ:e. að rúma þetta innan ramma tryggingakerfisins, og þá er það þjóðfélagið í heild, sem tekur á sig baggann. Hitt var ósköp auðvelt að segja, að ríkissjóður skyldi bara borga kostnaðinn af þeim sjúklingum, sem út færu, en það hefur verið mín skoðun og fleiri í þessu sambandi. að þetta ætti einmitt að leysast á þeim vettvangi, sem vikið er að í þáltill., sem við ræðum nú. Þetta verði rúmað innan ramma tryggingakerfisins, og þá erum við allir sammála, ef lausn fæst á málinu á þeim vettvangi, og mér er kunnugt um, að hæstv. félmrh. vinnur að lausn málsins á þessum vettvangi.