27.03.1968
Sameinað þing: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2748)

160. mál, náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. allshn. fyrir þá alúð, sem hún hefur sýnilega lagt í að skoða þáltill þá sem við fluttum nokkrir á öndverðu þessu Alþ. og fjallaði um náttúruvernd og ráðstafanir til þess, að almenningur eigi aðgang að heppilegum stöðum til útivistar og náttúruskoðunar, eins og það er orðað.

Það var auðheyrt á því, sem hv. frsm. sagði, og einnig auðséð á þeirri þáltill., sem nú er flutt, að þeir hafa í n. sinnt vel þessu verkefni, og tel ég það mjög gott og vil þakka fyrir það. Ég set það ekkert fyrir mig, þó að gerð sé ný þáltill. í stað þeirrar, sem við fluttum, því að þessi er víðtækari, og það er reyndar greinilega tekið fram, að þessi er hugsuð sem afgreiðsla á okkar máli. Efni okkar till. er tekið hér upp að öllu leyti öðru en því, er varðar fyrirkomulag sjálfrar n.

Kemur það alveg fram, að hv. n. ætlast til þess, að endurskoðunin fari fram með svipuðum hætti efnislega séð og við höfðum gert ráð fyrir, og það er óhætt í því sambandi að vísa á þá grg., sem okkar till. fylgdi, og þá framsögu, sem fyrir henni var höfð, til viðbótar því, sem hv. frsm. sagði hér. Segi ég þetta, ef einhver nm. í þessari n. skyldi verða svo samvizkusamur að kynna sér umr. á Alþ, um þetta mál, áður en hann hæfi starfið. Vil ég koma þeirri ósk til hans inn í dálka þingtíðindanna, að hann kynni sér aðdraganda málsins með því að skoða þá grg., sem fylgdi okkar till., og lesa þær umr., sem urðu þá. Fyrir okkur vakti, að þessi endurskoðun yrði talsvert víðtæk og næði einnig til þess að athuga skilyrði fyrir ferðalögum um landið með þeim hætti, sem við gerðum þar grein fyrir. Stefnan í málinu væri sú að endurskoða í einu lagi náttúruvernd og möguleika þjóðarinnar til þess að eiga aðgang að landinu og umgangast það.

Aðeins eitt atriði vildi ég svo nefna til viðbótar. Í okkar uppástungu var gert ráð fyrir því, að þingkjörin n. fjallaði um þessi málefni, og við rökstuddum það með því, að hér væri um málefni að ræða, sem fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum þyrftu helzt að sinna þannig, að pólitísk samtök, samtök flokkanna, gætu myndazt um að gera eitthvað, sem um munaði í þessum málum.

Sumt af því, sem þarf að gera, er þannig vaxið, að það þarf að ná meiru valdi á þess um málefnum í hendur einhvers aðila á vegum ríkisins og enn fremur þarf meira fjármagn. Við höfðum gert okkur von um, að ef að þessu væri dregið lið úr öllum flokkunum, t.d. einn úr hverjum flokki eða svo, mundu verða meiri líkur fyrir því, að það næðust samtök um verulegt átak í þessu efni.

Í framhaldi af þessari skoðun okkar vil ég benda hæstv. ríkisstj. á að ég tel, að verði þessi till. samþ., væri skynsamlegt að kveðja í n. fulltrúa frá stjórnmálaflokkunum og kannske einhverja fleiri, en jafnvel þó að ekki verði fleiri í n., gætu þeir auðveldlega aflað sér upplýsinga frá þeim félagasamtökum og þeim stofnunum, sem þekkja bezt til þessara mála og fengið þeirra till. og álitsgerðir. Mætti síðan vinna úr því. Ég teldi þetta heppilegri samsetningu n. en að tína saman menn úr stofnunum, en hafa ekki fulltrúa flokkanna með. Ég rökstuddi þetta nokkru nánar, þegar málið kom hér fyrst fyrir.

Mér er algerlega ljóst, að þeir, sem hafa mesta þekkingu í þessu efni, eru á vegum Náttúrufræðistofnunarinnar, Náttúrufræðafélagsins, Ferðafélagsins o.s.frv., og jafnvel hjá Skipulagi ríkisins hafa menn þekkingu, sem kemur til greina í þessu sambandi. En ég álít, að það sé samt sem áður ekki bezta fyrirkomulagið á endurskoðuninni að fela þessum stofnunum eða fulltrúum frá þeim að vinna þetta einum út af fyrir sig. Hitt er heppilegra að fá fulltrúa frá hinu pólitíska valdi, þ.e. stjórnmálaflokkunum, og ætla þeim þetta verkefni og þeir styðjist við þá sérþekkingu, sem aflað verður frá stofnunum og félögum, annaðhvort með því að hafa einnig fulltrúa frá þeim í n. eða með því að leita þessara gagna sérstaklega, ef það þykir of fjölmennt lið að hafa fulltrúa frá öllum þessum aðilum í n.

Þetta er ábending. Ég mun fylgja þessari þáltill. og þakka n. fyrir hennar starf að málinu.