13.02.1968
Efri deild: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2768)

116. mál, styrjöldin í Víetnam

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það geti allir verið sammála hv. 1. flm. þessarar till. um það, hversu ægilegar og hörmulegar þær styrjaldaraðgerðir, sem nú eru framkvæmdar í Víetnam, séu og að nauðsynlegt sé, að þeim linni. Hins vegar hafa menn ekki verið sammála um orsakir þessara átaka og engum, sem reynt hafa, hefur enn tekizt að koma með till., sem að gagni mætti verða til lausnar deilunni. Þessi mál voru hér til umr á síðasta þingi, þar sem borin var fram tili. um það, að Alþ. lýsti sig sammála sáttatill., sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, U Thant, hafði þá borið fram. Þessi till. náði ekki fram að ganga, því að hún kom seint fram og var ekki afgreidd. En mér þykir vænt um að heyra það hjá hv. flm., hv. 6. þm. Sunnl., að hann lætur þetta mál bera nokkuð öðruvísi að en gert var í fyrra. Í fyrra virtist það vera meginatriði hjá flm. þeirrar till., sem þá var hér til umr., að gera hlut annars styrjaldaraðilans sem minnstan og reyna að koma sök á hann, að því er sumum virtist umfram það, sem eðlilegt var. Nú hefur hv. flm. þessarar till. ákveðið að leiða allar slíkar deilur hjá sér, og ég er honum út af fyrir sig þakklátur fyrir það, því að það er ólikt vænlegra, til þess að ná fram til einhvers árangurs, heldur en fyrri aðferðin, sem hér var höfð um hönd í fyrra. Ég skal þess vegna ekki fara frekar út í það að ræða um hinar mismunandi skoðanir, sem eru á því, hverjum hér sé um að kenna, heldur eingöngu snúa mér að þeirri till., sem hér liggur fyrir.

Það hafa margir reynt sættir. Það er bæði víst og satt. Það hafa verið reyndar sættir af hálfu ýmissa ríkja, af hálfu Englands, Frakklands, Kanada, Ítalíu og margra fleiri, en þær hafa ekki borið árangur. Það hafa líka verið gerðar tilraunir til að hafa áhrif á Sovétríkin til þess að reyna að miðla málum, en þær tilraunir hafa ekki heldur borið árangur, vegna þess að Sovétríkin hafa ekki talið rétt að blanda sér í málið og segja, að þetta sé mál, sem aðilar sjálfir verði að gera upp við sig. Það hafa líka einstakir menn, eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna eins og ég sagði, eins og páfinn og eins og enn fleiri menn hafa gert, reynt að koma á sáttum, þó að ekki hafi tekizt. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna bar fyrst fram till. þá sem hér var til umr. á síðasta þingi. Hún var á þá lund, að skora á Bandaríkin að hætta loftárásum á Norður–Víetnam og í öðru lagi, að þjóðfrelsis­ hreyfingin yrði aðili að þeim sáttaumleitunum, sem fram kynnu að fara og í þriðja lagi skoraði hann í sinni fyrstu till. á Suður-Víetnam að draga úr hernaðaraðgerðum sínum. Allar þessar ályktanir hans voru í þeirri veru, að skora á annan styrjaldaraðilann að hætta þessum átökum. Síðan breytti aðalritarinn þessum till. sínum á þann veg, að í staðinn fyrir að skora á Suður–Víetnam að hætta átökunum, eftir að loftárásum væri hætt, að skora á Norður–Víetnam að draga úr sínum átökum. Engin af þessum till. náði fram að ganga.

Nú er hér komin fram ný till., sem segir í grg., að sé í meginatriðum sniðin eftir ályktun hollenzka þingsins frá 25. ágúst 1967. Það er alveg rétt, að till. er að langsamlega mestu leyti sniðin eftir þessari hollenzku till. Þó vantar í þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, 4. liðinn, sem er í hollenzku till., sem er á þá leið að einbeita sér fyrir því við alla þá aðila, sem málið snertir, að Genfarsamningurinn frá 1954 verði skoðaður sem grundvöllur fyrir samningaviðræðum. Ég skal ekki segja, hvort þetta hefur nokkurt hernaðarlegt gildi, en þessi till. er nú einnig í hollenzku ályktuninni. Þessi hollenzka ályktun var að vísu ekki samþ. shlj. í þinginu. Hún var samþ. með 77:54 atkv., þannig að þingið virtist þar ekki sammála.

Nú hefur mér borizt í hendur blaðafrétt. Ég hef ekki fengið hana eftir diplómatískum leiðum, en ég hef aðeins séð hennar getið í Herald Tribune frá 9. þ.m., þar sem þess er getið, að Holland reyni nú að safna liði um þessa till. og í hollenzka þinginu hafi utanrrh. landsins skýrt frá því, að hann mundi snúa sér til ýmissa þjóða um það að beita sér efnislega fyrir því, sem þessi till. hefur farið fram á. Hann skýrði þá frá því, að hann mundi snúa sér til stjórnarinnar í Belgíu, til stjórnarinnar í Lúxemburg, til stjórna skandinavísku landanna og til nokkurra fleiri landa, sem hann tilgreindi ekki, um það, að þær byndust samtökum til þess að beita sér fyrir framgangi málsins. Ég veit ekki nánar, hvernig þetta hefur borið að eða hvað á bak við er. Það eina, sem ég hef, er þessi greinarstúfur, sem birtist, eins og ég sagði, í Herald Tribune 9. febr. s.l. En ég verð að segja það þegar á þessu stigi, að mér lízt mjög vel á það, ef hugsað er til þess að ná árangri í þessu máli, sem ég vona að sé vilji allra, sem hér um fjalla, þá sé þetta kannske ein sú allra líklegasta leið, að mörg ríki, þótt smá séu, sameinist í einni heild til þess að beita sér fyrir málinu. Þessi till. um að beita sér fyrir, að nokkrar þjóðir sameinist um málið, var ekki heldur samþ. shlj. í hollenzka þinginu. Hún var samþ. með 107:26 atkv., en það þýddi þó, að andstaðan gegn henni var sýnu minni en á móti hinni fyrri.

Það er að vísu rétt, að það hafa margir áhrifamiklir aðilar, eins og ég hef lýst, beitt sér fyrir því að ná árangri í þessu máli, en eins og ég líka sagði, þá hefur það ekki tekizt. Ég er því fyrir mitt leyti alveg samþykkur, að Ísland láti sitt orð heyrast í þessum hópi, því að vissulega erum við Íslendingar, sjálfsagt allir, á þeirri skoðun, að hér sé bæði um hættulegt mál að ræða, að styrjöldin haldi áfram, eins og hún hefur verið að undanförnu, og eins mál, sem mætti kannske kalla tilfinningamál, það snertir hugarhræringar allra Íslendinga, að þetta gangi eins og það gengur. Og sem dæmi um það vildi ég geta þess, að Rauði kross Íslands hefur í gær, eftir að hafa rætt þetta mál við ríkisstj., tekið sér fyrir hendur að safna fé til þess fólks, sem á nú við mikið böl að búa í þessu landi. Hins vegar held ég, að það sé alveg ljóst og hafi komið mjög greinilega fram að undanförnu, að það þýðir ekki að beina tilmælum um að draga úr hernaðaraðgerðum til annars aðilans. Það verður að beina tilmælunum til beggja aðilanna, ef nokkrar líkur eiga að vera til að ná árangri, og það virðist mér einnig vera gert í þessari till, sem hér liggur fyrir, að verulegu leyti, þó að kannske mætti orða það öðruvísi, ég skal ekki segja um það, meiningin tel ég að eigi að vera sú, að þessi tilmæli eða áskorun beinist til beggja styrjaldaraðilanna. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt líka, að styrjöldin virðist nú vera að færast í aukana og þar með vaxandi hætta á því, að hún nái meiri útbreiðslu en áður, þess vegna er bráð nauðsyn, að allt verði gert, sem hugsanlegt er, til þess að reyna að koma í veg fyrir áframhald á styrjöldinni.

Ég skal svo ekki fara frekar út í að ræða þetta mál og það alveg sérstaklega ekki vegna þess, hvernig hv. frsm. hélt á málinu. Ég er samþykkur því, að það verði gert hlé á umr. og málinu vísað til n., sjálfsagt allshn., því að hér er ekki hægt að vísa því til utanrmn., sem væri þó náttúrlega eðlilegasti vettvangurinn til þess að fjalla um málið, og þá væntanlega að mestu leyti um það, hvernig orðalag till. skuli vera, það sé miðað við, að allir geti þar við unað og ekki þurfi að koma til þess, sem var í hollenzka þinginu, að það væri samþykkt aðeins með meiri hl. atkv. og í öðru tilfellinu með tiltölulega naumum meiri hl. Ég vildi, að till væri hægt að orða þannig, að við gætum allir sameinazt um hana. En það verður sú n. að fjalla um, sem málinu er vísað til. Annars er sjálfsagt rétt að bíða þess að kanna það, hvort utanrrh. Hollands, hr. Luns, muni ekki leita til okkar eins og til annarra skandinavískra þjóða, sem h ann hefur skýrt hollenzka þinginu frá að hann muni leita til, þannig að við getum þá gerzt aðilar að þeim hópi, sem hann reynir að safna saman um málið.