14.12.1967
Efri deild: 33. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það væri e.t.v. ástæða til að fara rækilegar út í einstök atriði, sem ég taldi þó, að ég hefði minnzt á í minni framsöguræðu, en virðast hafa farið fram hjá mönnum að einhverju leyti í þessum umr., en ég skal þó ekki fara út í smæstu atriði, þar sem ég veit, að form. þeirrar hv. n., sem málið fær til meðferðar, hefur þegar gert ráðstafanir til að allar þær upplýsingar, sem nm. kunna að óska, verði til reiðu í n. frá þeim, sem að þessari frv.-smið hafa staðið, og geymi mér það þá til síðari umr. málsins.

Varðandi þessi almennu atriði, sem hv. þm. hafa komið inn á, vil ég nú aðeins minna á, að það var ekki íslenzka ríkisstj., sem ákvað tímasetningu á falli enska sterlingspundsins. Gengislækkunin íslenzka átti sér stað 24. sept. s.l., og ég hygg, að þeir menn, sem að nauðsynlegum frv.- smíðum hafa staðið síðan ásamt ráðh., verði ekki með réttu sakaðir um að hafa legið á liði sínu við að koma þeim frv. saman og fyrir þing svo skjótt sem mögulegt hefur verið og nauðsynlegt er, ekki bara vegna gengislækkunarinnar einnar og ekki vegna jólaleyfis þm., heldur fyrst og fremst vegna þeirra kaflaskipta, sem eru í íslenzku atvinnulífi um áramótin og snerta þessi mál mjög mikið. Það er vegna þeirra, sem svo brýna nauðsyn ber til að ganga svo snögglega frá þeim frv., sem þessum atvinnuveg, ísl. sjávarútvegi, eru tengd, og ef að líkum lætur og vonandi verður, ætti að hefja vertíð fljótlega eftir áramótin. Þetta er meginástæðan til þess, að frv. hefur borið svo skjótt að, og er að því leyti sannleikur, að þau geta að ýmsu leyti talizt snöggsoðin. En mér er sem ég sjái hv. stjórnarandstæðinga, ef ríkisstj. hefði dregið þessa frv.- smíð fram yfir áramótin og látið allt leika í þeirri endalausu óvissu, sem hefði óhjákvæmilega gengið út yfir hinn mikilvæga atvinnuveg, sjávarútveginn, sem svo mjög er þessu máli tengdur. Frekar kýs hún þess vegna að liggja undir ásökunum um það að reka á eftir málum hér á hv. Alþ. en að láta það dragast úr hömlu að sýna þessi frv. En ég veit alveg, hverjar ádeilurnar hefðu orðið, ef frv. hefði ekki komið fram.

Annað almennt atriði vil ég einnig minnast á, sem kom fram í ræðum beggja hv. stjórnarandstæðinga, en það er, að með þessu frv. sé verið að seilast í hugsanlegar tekjur sjávarútvegsins öðrum aðilum til handa og þá sér í lagi ríkissjóði, eins og hér hefur verið minnzt á. Meginstefna þessa frv. er sú, að ekki ein einasta króna fari út úr sjávarútveginum sjálfum. Hitt er rétt, að ýmsir þeir styrkir, sem í gangi hafa verið á s.l. árum, eru felldir niður. Og vill nokkur hv. þdm. leggja það til, að hvoru tveggja sé haldið uppi, þeim gengishagnaði, sem hér er gert ráð fyrir að renni til sjávarútvegsins, og þeim föstu styrkjum, sem veittir hafa verið á því tímabili, sem þeir hafa gilt undanfarin ár? Ég efast um, að svo sé. Að þessu sögðu ætla ég að neita mér um að fara út í einstök atriði í þessu sambandi í trausti þess, eins og ég áðan sagði, að hv. þm. fái allar þær upplýsingar, sem þeir óska eftir, frá n., en mun þá koma inn á þessi atriði á síðari stigum málsins, ef nauðsyn krefur.