28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2778)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þau ár, sem núv. ríkisstj. hefur farið með völd, eru mestu framfaraár í sögu þjóðarinnar. Alhliða uppbygging hefur átt sér stað á öllum sviðum. Aldrei hafa verið byggð fleiri og fullkomnari skip, síldarverksmiðjur og fjölmörg iðnfyrirtæki. Ræktun og byggingar í sveitum hafa verið meiri en áður. Í samgöngumálum hafa framfarir aldrei verið meiri og stórstígari. Í menningarmálum hefur mikið áunnizt og í félagslegri uppbyggingu hefur náðst undraverður árangur á skömmum tíma. Lífskjör almennings hafa aldrei verið betri, um það bera þúsundir alþýðuheimila í landinu gleggst vitni. Það hefur ríkt í þessu landi trú og bjartsýni. Ánægjulegast af þessu öllu er, að þessar framfarir hafa náð til allra landsfjórðunga, þótt óneitanlega séu til einstaka hreppsfélög, þar sem framfarir hafa verið alltof hægfara, en því hafa valdið atvinnuerfiðleikar vegna stórminnkandi afla í þeim byggðarlögum og tilfærsla á fólki til þeirra staða, þar sem uppbyggingin hefur verið örari. Allt þetta hefur getað gerzt, vegna þess að atvinna hefur verið mikil og meginhluti þjóðarinnar hefur lagt hart að sér til þess að ná þessum árangri Samfara þessu var verð á flestum útflutningsafurðum okkar hagstætt, einkum á árunum 1964 og 1965 og átti það hvað drýgstan þáttinn í því, að þessar miklu þjóðfélagsumbætur áttu sér stað. Hinn mikli hraði, sem verið hefur í allri uppbyggingu okkar, hefur gert það að verkum. að fjárfesting atvinnuveganna hefur verið mikil, og þeir þess vegna ekki haft nægilegt rekstrarfé til að mæta versnandi stöðu á sölu afurða okkar á erlendum markaði.

Það mikla verðfall, sem hófst seinni hluta s.l. árs í flestum greinum útflutningsafurða okkar, hefur leitt til mikilla erfiðleika hjá flestum útflutningsfyrirtækjum í landinu og enn fremur haft óhjákvæmilega erfiðleika í för með sér fyrir flestar aðrar greinar atvinnulífsins. Verðfallið á útflutningsafurðum okkar hefur kostað þjóðina á þessu ári ekki minna en 1500 millj. kr., og samhliða, því hefur afli skipa okkar minnkað verulega og tilkostnaðurinn við veiðarnar vaxið hröðum skrefum einkum síldveiðiflotans, sem orðið hefur að sækja á fjarlæg mið. Þetta er mikið áfall. það mesta sem hefur yfir okkur dunið frá því á árum heimskreppunnar miklu, eftir árið 1930.

Hv. stjórnarandstæðingar og alveg sér í lagi framsóknarmenn hafa í ræðum sínum hér á hv. Alþ. og í málgögnum sínum gert lítið úr þessu verðfalli og gengið svo langt að halda því fram, að stjórnarflokkarnir hafi fyrir síðustu kosningar blekkt þjóðina og hreinlega neitað því, að hætta steðjaði að í efnahagsmálum hennar. Í þessu sambandi á að nægja að minna á að um síðustu áramót og á fyrstu mánuðum þessa árs var svo komið. að bátaflotinn hefði stöðvazt, ef fiskverð hækkaði ekki, og frystihúsin og annar fiskiðnaður gátu ekki vegna verðfallsins greitt hærra fiskverð. Þá leysti ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar þann vanda með því, að ríkissjóður greiddi alla fiskverðshækkunina, sem mun nema um 100 millj. kr. á þessu ári. Þetta var gert með því að lækka útgjöld á fjárl. þessa árs. Jafnframt tók ríkissjóður á sig að greiða allt að 75% af verðlækkuninni á frystum fiski, til þess að hraðfrystiiðnaðurinn gæti haldið áfram starfrækslu sinni. Það hefur verið stefna núv. stjórnarflokka að gæta varfærni við afgreiðslu fjárl. og spenna ekki bogann það hátt, að ekkert sé til að mæta ófyrirsjáanlegum erfiðleikum. Þessi stefna leiddi það af sér, að rekstrarafgangur varð hjá ríkissjóði á síðasta ári, sem gerði það kleift, að hægt var að greiða verðfallsbætur á frystan fisk á þessu ári, sem munu nema 110 millj. kr., án þess að Ieggja nýja skatta á þjóðina.

Það veltur á miklu. að þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar í efnahagsmálum, komi framleiðsluatvinnugreinunum að gagni til frambúðar. Það er tvímælalaust höfuðatriðið fyrir verkamenn og sjómenn, sem og alla aðra landsmenn, að atvinnufyrirtækin í landinu séu rekin með eðlilegum hætti og útflutningsatvinnuvegirnir búi við hallalausan búskap. Það er bezta tryggingin fyrir því, að atvinna sé nóg.

Sjávarútvegurinn er hornsteinn efnahagslegs sjálfstæðis okkar, sem skapar grundvöllinn fyrir aðrar atvinnugreinar í landinu. Við verðum að gera miklar breytingar á starfrækslu hans og leggja höfuðáherzlu á að sá afli, sem á land kemur, verði sem bezt nýttur, vinna hann heima sem mest og gera hann eins verðmætan til útflutnings og frekast er unnt. Við verðum að nota okkur allar tækninýjungar til þess að auka verðmæti afurða okkar, en það þýðir jafnframt, að breyta verður um vinnuaðferðir og spara vinnuaflið til þess að lækka framleiðslukostnaðinn. Það verða nóg verkefni fyrir það vinnuafl, sem sparast, í nýjum greinum, og við eigum auðveldara með að auka fjölbreytni atvinnulífsins og taka í okkar eigin hendur margþætta framleiðslu og verkefni. sem við nú verðum að kaupa frá öðrum þjóðum. Til þess að ná sem mestum árangri á þessu sviði verða atvinnurekendur og launþegasamtök að taka upp nánari samvinnu en hingað til hefur verið. Verkalýðshreyfingin er það sterkt afl í landinu, að þjóðfélagsumbótum verður ekki komið á að neinu gagni, nema hún sé með í ráðum og virkur þátttakandi í breytingum, sem nauðsynlegt er að koma á til þess að tryggja heilbrigðan atvinnurekstur og raunverulegar lífskjarabætur almennings.

En það er ekki heldur nóg að auka verðmæti útflutningsafurða okkar, við verðum einnig að tryggja sölu þeirra á erlendum mörkuðum. Þar er gífurlegt starf að vinna. Við verðum að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að selja afurðir okkar til fleiri þjóða en við gerum nú. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef við vinnum meira úr afla okkar hér heima, gerum hann að verðmætari vöru, verðum við fyrst og fremst að leita markaða á meðal þeirra þjóða, þar sem lífskjörin eru bezt, því að þær hafa það fram yfir aðrar að geta keypt dýrar vörur. Við getum ekki lengur haldið áfram að standa utan við markaðsbandalög, þegar svo að segja allar þjóðir Evrópu eru orðnar aðilar að markaðshandalögunum. Þjóðir þær, sem standa að Fríverzlunarbandalaginu og Efnahagshandalaginu, telja tæpar 300 millj. íbúa. Við getum ekki í framtíðinni selt afurðir okkar þessum þjóðum, ef við eigum að vera háðir síhækkandi innflutningstollum. Flestar þessar þjóðir eru þróaðar iðnaðarþjóðir, þar sem lífskjör almennings eru góð og kaupgeta mikil. Við verðum að auka fjölbreytni í vinnslu sjávarafla og öðrum þeim afurðum, sem við flytjum út. Við fáum með hverju árinu, sem líður, sífellt fleira ungt fólk til starfa í þjóðfélaginu, ungt fólk, sem öðlazt hefur betri og meiri menntun en áður var. Á síðustu árum hefur mikið af ungu fólki sérmenntað sig á mörgum sviðum. Tæknimenntun færist í aukana, og við erum nær því marki en áður að auka fjölbreytni í starfi þjóðarinnar. Unga fólkið í þessu landi á gullin tækifæri til að víkka og treysta starfssvið þjóðarinnar. Við eigum að auka áhrif unga fólksins á sviði atvinnulífs og í menningar- og félagsmálum, gefa því tækifæri til að bera í vaxandi mæli ábyrgð og auka á þann hátt þroska þess.

Fyrir tæpum áratug voru menn við völd í landinu, sem flm. þessarar vantrauststill. ættu bezt að þekkja. Þá steðjaði nokkur vandi að, sem þó var ekki nema svipur hjá sjón miðað við þann, sem nú er við að etja. Þann vanda treystu þeir sér ekki til að leysa. Þegar þjóðarskútan kenndi þá grunns, urðu þeir hræddir og stungu sér fyrir borð, svo að sást í iljar þeirra. Þá urðu sjálfstæðismenn að taka við stjórnarforustunni og stýra úr þeim vanda, og þeim tókst það giftusamlega. En veður eru válynd og nýr vandi og stærri er nú fyrir hendi. Sjálfstæðismenn og stjórnarflokkarnir báðir eru staðráðnir í því að hopa hvergi, heldur sigrast á erfiðleikunum. Það er skylda þeirra, sem þjóðin hefur valið til forustu, að berjast við erfiðleikana og finna. leiðir til að sigrast á þeim. Þeir, sem það gera, glata ekki trausti þjóðarinnar, þó að í bili verði að gera ráðstafanir, sem krefjast fórna af öllum landsmönnum. Við trúum því, að hér sé við stundarerfiðleika að etja og þess sé ekki langt að bíða, að áfram haldi sóknin til aukinna framfara og betri lífskjara. – Góða nótt.