07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (2795)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Virðulegu tilheyrendur. Það er nú komið að lokum þessara útvarpsumr frá Alþ. Rædd hefur verið till. hv. stjórnarandstæðinga um vantraust á ríkisstj. Þessar umr. hófust með ekki áður ókunnum stóryrðum og miður þinglegum fúkyrðum formanns Framsfl. um hrikalegasta blekkingarvef, sem ofinn hafi verið í íslenzkum stjórnmálum af hálfu stjórnarliðsins. Við hefðum farið með ósvífnar blekkingar fyrir kosningar. Við hefðum vitað að grunnur þjóðfélagsins hafi verið orðinn holgrafinn. Það hafi þeir stjórnarandstæðingar reyndar vitað líka, en við hefðum farið með slík botnlaus ósannindi, að þeir hefðu ekki fengið rönd við reist og stjórnarliðinu því lánazt að svíkja sér út meiri hluta hjá kjósendum. Í þessum sama tón talaði bóndinn Ágúst Þorvaldsson sem var að ljúka máli sínu. Ég hef alltaf haldið að þessi bóndi væri námfúsari á annað en slíkan óhróður. Hvorki hann né aðrir þeir, sem talað hafa í þessum tón hafa nokkurn tíma vitnað til þeirra ummæla, sem við frambjóðendur Sjálfstfl. höfum átt að hafa að þessu leyti fyrir kosningar og væru önnur nú. En það er svo, að þó að ekki stæði steinn yfir steini í ásökunum í fáryrðagusu formanns Framsfl. í gærkvöld, eftir að forsrh. flutti næstur sína ræðu og hafði m.a. vitnað til ályktana og afstöðu landsfundar Sjálfstfl. hér að lútandi fyrir kosningar og eigin ummæli í stjórnmálaumr. fyrir kosningar á Alþ., hafa þeir þm. Framsóknar ekkert farið út af laginu í framhaldi umr. Þeir eru orðnir þaulæfðir í þessum talkór ónota og brigzlyrða. Ekki verður þetta lið sakað um að bresta kunnáttu í að þræða forarvilpurnar. Slík eru að mínu viti einkenni þeirra vantraustsumr. stjórnarandstöðu sem hér hafa verið settar á svið. Alþb.-menn eru meðreiðarmenn Framsóknar, en jafnvel málflutningur kommúnistanna í því liði er þó tiltakanlega manneskjulegri en framsóknarþm.

Reyna mætti að skilgreina í hnotskurn ásakanirnar, sem fram hafa komið, nú í lokin. Í fyrsta lagi. Allt var á heljarþröm fyrir kosningar, grunnurinn holgrafinn. Í öðru lagi. Augljóst var, að hverju stefna mundi. Stjórnarandstæðingar sáu það fyrir, segja þeir. Í þriðja lagi. Gengislækkunin var löngu ráðin og útreiknuð. Í fjórða lagi. Allar orsakir gengislækkunar íslenzku krónunnar umfram 5% í hlutfalli við gengislækkun sterlingspundsins eru heimatilbúnar.

Um fyrsta atriðið hefur verið fjallað í umr. af liðsmönnum ríkisstj. og ráðh. Framsóknarmenn spáðu reyndar í upphafi viðreisnar móðuharðindum af manna völdum á Íslandi, eins og það var orðað. Allir vita og viðurkenna, að aldrei hefur annar eins velgengnistími gengið yfir íslenzku þjóðina og á undanförnum árum viðreisnar. Kjör almennings aldrei betri, framþróun aldrei örari, stórvirkjanir í tengslum við stóriðju hafa haldið innreið sína og ný iðnþróun er í uppsiglingu. Kísilgúrvinnsla er að hefjast við Mývatn. Íslenzk stálskipasmíði er orðin að veruleika og verður efld. Skotið hefur verið stoðum undir íslenzkan veiðarfæraiðnað. Bifreiðayfirbyggingar og margt fleira eflt. Rismikil uppbygging iðnaðarhúsnæðis og iðnaðarsvæða hefur orðið svo sem iðngarðar hér í Reykjavík og svipuð þróun annars staðar vitnar um. Rannsóknastofnanir og vísindamenn vinna að frekari hagnýtingu náttúruauðlinda, svo sem vinnslu perlusteins við Loðmundarfjörð og sjóefnavinnslu á Reykjanesi, og fjölmargt fleira er á prjónunum eða hefur verið í íhugun svo sem hagkvæmni í ullarvinnslu, sútun o. fl. Byggðaáætlanir, aukin ræktun bættar samgöngur og vaxandi framleiðni hefur einkennt þróunina.

Já, sáu stjórnarandstæðingarnir s.l. vetur fyrir þá erfiðleika, sem við höfum verið að glíma við undanfarið? Miklir menn erum við Hrólfur minn. Þetta er annað atriði ásakana þeirra. Sáu þeir fyrir, hversu rýr mundi reynast vetrarvertíð vegna aflabrests, ógæfta og veiðarfæratjóns? Sáu þeir fyrir, að síldina þyrfti að sækja norðaustur í hafsauga með þar af leiðandi stórauknum tilkostnaði? Sáu þeir fyrir, að borgarastyrjöld brytist út og yrði viðvarandi í Nígeríu með þeim afleiðingum, að Afríkuskreið okkar hefur reynzt óseljanleg, nær öll framleiðsla ársins? Sáu þeir fyrir, að við gætum aðeins selt þriðjung skreiðar til Ítalíu miðað við sölu þangað fyrir tveimur árum, af því að hinn upphengdi fiskur fraus á

liðnum vetri í ríkara mæli en áður, en það útilokar söluna á bezta markaðinum, Ítalíu? Sáu þessi ljós fyrir, að verðfall útflutningsafurðanna mundi halda áfram og fara vaxandi?

Vel kunna þessir menn að vera spakir. En að þeir hafi til að bera yfirnáttúrlega hæfileika til þess að vita fyrir óorðna hluti, verður þó að draga í efa.

Þá var okkur sagt, að gengislækkun hafi fyrir löngu verið ráðin og útreiknuð af stjórn­ arliðinu. Annað veifið segja þessir sömu menn að vísu, að við höfum staðið eins og glópar, þegar pundið féll, og verið með öllu óviðbúnir. Staðreyndin og sannleikurinn er allt annar en varaformaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson vildi vera láta í ræðu sinni hér áðan. Strax og þing kom saman í haust skýrði ríkisstj. frá því, að hún hefði viljað forðast gengislækkun í lengstu lög og við það miðað till. sínar um efnahagsráðstafanir, þegar Alþ. kom saman. En úrlausn mála á því stigi var m.a. þeim mikla vanda bundin, hve óvissan var mikil um verðlag og viðskipti, enda vaxandi ókyrrð á hinum alþjóðlega peningamarkaði og endurtekinn orðrómur um hugsanlega gengislækkun hjá Bretum og þá jafnframt fjölda annarra þjóða, jafnvel búizt við atlögu að dollaranum.

Og þá er loks fjórða atriðið, sameiginlegar ásakanir stjórnarandstæðinga um, að gengislækkun sé að mestu heimatilbúin viðurkenning á því, að viðreisnin hafi gengið sér til húðar. 5% er eina réttlætanlega gengisfellingin miðað við pundið, segja framsóknarmenn. 8—10% lækkun er að þessu leyti réttlætanleg, segir Hannibal. Ef sterlingspundið fellur í verði, fá útflytjendur færri kr. í sinn hlut fyrir þau sterlingspund, sem þeir selja afurðir fyrir og skipta hér í bönkum í kr. til greiðslu á útgerðarkostnaði, kaupum á fiski, greiðslu launa o.s.frv. Miðað við lækkun pundsins eru, áður en krónan lækkaði, um 103 kr. í staðinn fyrir um 120 kr. fyrir hvert sterlingspund. En er einhver eðlismunur á þessu að fá hreinlega vegna verðfalls á útflutningsvörunni sjálfri 103 kr. fyrir tiltekið sama magn í stað 120 kr. áður? Verðfallið á útflutningsvörunum er bara miklu meira, í sumum tilfellum 30—40% og meira en það til viðbótar lækkun pundsins. Ef útflutningsverðmætin lækka miðað við ársframleiðslu úr allt að 6 þús. millj. kr. í rúmar 4 þús. millj. kr. eða um 1/3, þyrfti í raun og veru að hækka þessi verðmæti um allt að 40—50% til þess að útflytjandinn stæði svipað að vígi og áður að greiða innlendan kostnað framleiðslunnar eða hefði jafnmargar krónur til þess. Er þetta heimatilbúinn vandi? Kemur þetta ekkert gengisskráningu við þegar hún er framkvæmd? Ég held, að sjaldan, ef nokkru sinni áður, hafi heyrzt aðrar eins fjarstæður frá þm. eftir þm. og forustumönnum flokka, og hér hafa verið hafðar í frammi um það hvað eðlilegt væri, að fallið á okkar krónu væri, miðað við þær aðstæður, sem eru núna, annars vegar verðfellingu og hins vegar pund og þá væri í raun og veru notaður sá einfaldi reikningur að segja: Þriðji parturinn af vörunni er það sem við seljum fyrir pund. Þriðji parturinn af tæpum 15% er 5%. En hvað er verðfallið? Það er bara heimatilbúið.

Hér vil ég svo leiðrétta síendurteknar staðhæfingar um, að viðreisnarstjórnin hafi þrisvar þurft að fella gengi krónunnar vegna rangrar stjórnarstefnu sinnar, eins og margsinnis hefur verið endurtekið hér í kvöld og í gærkvöld. Fyrsta gengisbreytingin þegar viðreisnarstjórnin tók við 1959, var framkvæmd 1960 til þess að leiðrétta ranga stjórnarstefnu vinstri stjórnarinnar. Ári síðar var gerð lítils háttar leiðrétting á skráningunni vegna vaxandi tilkostnaðar, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir. Það er og enn fremur rangt, að gengi dollars hafi verið breytt úr rúmum 16 kr. við upphaf viðreisnar í 57 kr. nú. Þó er búið að margendurtaka þetta líka, bæði í umr. hér í kvöld og í gærkvöld. En meðalgengi eftir vinstri stjórn mun hafa verið nálægt 35 kr. dollar, en ekki 16 kr., en auk þess er það á almennings vitorði, að hann gekk þá kaupum og sölum á svörtum markaði á 60 kr., en ekki 57 kr., eins og hann er nú skráður. En gengin voru hins vegar svo fjölmörg í tíð þeirra manna, sem þá höfðu forustu og flytja nú þetta vantraust, í tíð vinstri stjórnar, með tugum margvíslegra uppbóta og álaga á lögskráð gengi, þ.e.a.s. seldan og keyptan erlendan gjaldeyri, að engin furða er í sjálfu sér, þótt fram hafi komið svo greinilega í kvöld og gærkvöld, að stjórnarandstæðingar kunna bókstaflega engin skil á þessu lengur.

Herra forseti. Vantraustið er rökstutt af vanefnum. Það hefur reynzt of mikill órói í huga þeirra manna flestra, sem gerzt hafa talsmenn þess, til þess að skýr og hlutlaus hugsun fái að ráða. Sumir eru líka langþreyttir á stjórnarandstöðu farnir að lýjast, eins og verða vill. Ríkisstj. mun nú kappkosta að veita í stjórnsýslu og löggjöf alveg á næstunni svör við þeim spurningum, sem forseti Alþýðusambandsins varpaði fram í gærkvöld af engri illkvittni, eins og hann sagði sjálfur, hvaða hliðarráðstafanir yrðu gerðar til varnar þeim fyrst og fremst, sem hætt er við að veigaminnstir séu til þess að mæta áhrifum gengisfellingar. Minnzt hefur verið á lækkanir tolla til lækkunar vöruverði, sparifjárverðfestingu, uppbætur á ellilífeyri og örorkubætur og aðstöðu námsmanna, erlendis og margt fleira. Um þessi atriði hefur stjórnin tjáð sig fúsa til samráðs við samtök launþega og atvinnustétta. Vandi okkar er mikill, en við eigum fyrningar frá viðreisnartímabili, nýjan skipastól, nýtízku framleiðslutæki, alhliða vélvæðingu og samgöngutæki, gjaldeyrisvarasjóð sem hefur enn reynzt nægur til þess að verjast áföllum fram að þessu samhliða öðrum ráðstöfunum. Vonandi auðnast okkur sameiginlega að búa með hagsýni að okkar, samfara batnandi árferði og viðskiptakjörum, svo að fram verði haldið til vaxandi almennrar velsældar í okkar litla, en góða landi, þótt harðbýlt sé á köflum. — Góða nótt.