07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (2797)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Hv, 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson sagði, að gengi Alþfl. hefði aldrei verið meira en þegar hann hefði haft samvinnu við Framsfl., en nú sé gengi flokksins sífellt að hraka. Ég skal ekkert fullyrða um gengi eða gengisleysi Alþfl. og Framsfl. Þó hygg ég, að fylgi Alþfl. við síðustu kosningar hafi ekki verið minnkandi, heldur þvert á móti. En hitt vil ég segja hv. þm., að reynsla Alþfl. af samvinnu við Framsfl, hefur jafnan verið erfið og jafnan endað með ósköpum. Sérhagsmunir flokksins, pólitískir sérhagsmunir, hafa jafnan verið látnir sitja í fyrirúmi fyrir hagsmunum almennings. Þetta er ástæðan fyrir því, að samvinna við Framsfl. hefur ekki þótt eftirsóknarverð.

Það eru ófáar ávirðingarnar, sem stjórnarandstaðan hefur borið á ríkisstj. Hún á að hafa svikið loforð sem gefin voru fyrir kosningar s.l. vor Þeir segja, að stjórnarstefnan sé í meginatriðum röng, gengisfellingin nú óþarflega mikil, 5% lækkun íslenzkrar krónu hefði svarað til gengisfellingar pundsins, allt, sem þar sé fram yfir, sé afleiðing af rangri stjórnarstefnu, og margt fleira hefur verið fundið stjórninni til foráttu. Þessum ásökunum hefur nú verið hnekkt í öllum meginatriðum. En ég skal aðeins fara um þær nokkrum orðum.

Stjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningarnar, að þeir vildu leitast við að halda verðlaginu í skefjum, og það hefur tekizt í hálft annað ár. Frá miðju árinu 1966 og til þessa dags. En það tókst því aðeins, að hægt var að greiða niður verð á nokkrum vörutegundum með greiðsluafgangi fyrra. árs. Þegar sá greiðslu­ afgangur var þrotinn varð að taka til annarra ráða. Við það var efnahagsmálafrv. ríkisstj. miðað, sem borið var fram í upphafi þessa þings. Þegar svo þar við bættist verðfallið á íslenzkum útflutningsvörum, svo stórkostlegt, að ekki hafði annað eins átt sér stað í áratugi, varð allt erfiðara um vik. Útflutningsverðmætissamdráttur og birgðarýrnun á fyrstu 10 mánuðum þessa árs hefur numið nú hvorki meira né minna, en 1500 millj. kr., svo að augljóst er, að þessi rýrnun þjóðarteknanna hlýtur að snerta þjóðina alla. Þó var ríkisstj. staðráðin í því að leitast við að freista að ná endum saman án gengislækkunar ísl. kr. í þeirri von að útflutningsvörur okkar mundu aftur hækka eitthvað á ný. En þegar brezka gengislækkunin bættist svo við var sýnilegt, að ekki yrði fram haldið á þeirri leið og ekki yrði hjá því komizt að lækka gengið. Þá þótti eðlilegt og sjálfsagt, að gengislækkun okkar yrði meiri en Bretanna, til þess að með henni og henni einni yrði einnig hægt að rétta við hag útflutningsatvinnuveganna, og þetta hefur nú verið gert. Að stjórnarstefnan eigi einhvern mikinn þátt í þessu er hins vegar á engum rökum reist. Ríkisstj. hefur leitazt við að efla hag útvegsins með því fyrst og fremst að gera honum kleift að afla sér nýtízkulegra skipa, fullkominna vinnslustöðva í landi og með því að koma á þeirri vinnuhagræðingu sem frekast er möguleg. Það er því ekki stefna ríkisstj., sem hefur valdið því, að gengislækkunin hefur verið gerð heldur aflatregða, verðfall og aðrir utanaðkomandi örðugleikar, og síðast en ekki sízt verðfall pundsins. Gengislækkun er að vísu alltaf tvíeggjuð ráðstöfun og hún kemur ekki að fullum notum, nema því aðeins, að verðlagi og kaupgjaldi sé haldið í skefjum. Ef þetta er ekki gert, eyðast áhrif hennar furðu fljótt, og allt situr við sama, nema að gildi krónunnar hefur minnkað og verðlag innanlands hefur hækkað. Allt veltur því á því, að til verulegra kauphækkana komi ekki og ströngu verðlagseftirliti verði beitt.

Nú hafa stjórnarandstöðuflokkarnir borið fram till. um vantraust á ríkisstj., og það er hún sem hér hefur verið til umr. í kvöld og í gærkvöld. Sjálfsagt fyrst og fremst vegna gengisbreytingarinnar, skulum við segja, en vitaskuld einnig í þeirri von, að hún verði samþ. og stjórnin fari frá og þeir sjálfir komist að, þó að ekkert liggi fyrir um það hvernig þeir ætli að leysa aðsteðjandi vanda. Það má segja í þessu sambandi, að sagan endurtekur sig, eins og oft hefur verið sagt, og allur málflutningur og málatilbúningur stjórnarandstöðunnar nú minnir mjög á atburð, sem gerðist hér á Alþ. fyrir tæpum 18 árum eða á öndverðu ári 1950. Þá hafði ríkisstj., sem var minnihlutastjórn Sjálfstfl., borið fram frv. um gengislækkun til lausnar á aðsteðjandi efnahagsvanda. Framsfl. bar þá fram vantraust á ríkisstj. eins og nú. Hann fékk það samþykkt. En hvað gerði hann þá? Hann myndaði nær samstundis stjórn með þeim flokki, sem hann hafði borið fram vantraust á. Hygg ég, að þetta muni einsdæmi í allri þingsögunni, að flokkur, sem ber fram vantraust á annan myndi þegar í stað stjórn með þessum sama flokki, sem hann hafði fengið samþ. vantraust á. En hvað varð svo um gengisfellingarfrv., sem Sjálfstfl. hafði borið fram? Hvað varð um þetta frv., eftir að Framsfl. var kominn í ríkisstj.? Það merkilega skeði, að frv. var samþ. og með atkv. framsóknarmanna og með nákvæmlega sömu gengislækkuninni og Sjálfstfl. lagði til í upphafi. Þetta varð niðurstaðan af þessu vantrausti. Þetta hefur þá kannske verið einhver smávægileg gengislækkun kunna menn að spyrja. Nei, þessi gengislækkun var aldeilis ekki smávægileg. Hún var, ef svo má segja, stórkostleg. Þetta var hækkun á Bandaríkjadollar um hvorki meira né minna en 75% meira en helmingi meiri en sú gengislækkun sem nú er verið að tala um hér. En þá kunna menn kannske að spyrja enn: Það hefur kannske verið langt um liðið kannske mörg ár síðan ísl., krónan var þá síðast lækkuð? En það var ekki heldur tilfellið. Framsfl. hafði verið með í því að hækka gengið á Bandaríkjadollar um 44% réttu hálfu ári áður, réttu hálfu ári áður, svo að þá hlýtur kannske stjórnarstefnan á undanförnum árum að hafa verið mjög slæm, mjög röng, þar sem nauðsynlegt þótti að lækka gengi ísl. kr. svo ofsalega, ekki einu sinni, heldur í tvígang, En það skyldi maður þó ekki halda, að stjórnarstefnan á undanförnum árum hafi verið mjög röng, a. m. k. ekki að dómi Framsfl., því að 3 árin næstu á undan hafði Framsfl. setið í ríkisstj, og ráðið stefnunni, eins og aðrir, sem þar áttu sæti. Og skyldi maður þá halda, að þar hefði verið vel ráðið En til þess að bæta þar um, þurfti ekki eina gengislækkun á hálfu ári, heldur tvær, aðra upp á 44% hækkun á Bandaríkjadollar og hina upp á 75% hækkun 6 mánuðum síðar. En þetta fór nú svona samt. Þess er þó skylt að geta, að fyrri gengisfellingin í sept. 1949 var gerð í sambandi við það að Bretar felldu gengi síns sterlingspunds, og fylgdum við þeirri lækkun þá, en ekki heldur meira og létum óleyst vandamál okkar eigin efnahagslífs, og það leiddi til þess, að gengisfellingin í marz var gerð réttum 6 mánuðum síðar Þarna er störfum Framsfl. rétt lýst. Þeir bera fram vantrauststill. til þess að komast í ríkisstj., en þegar þeir eru komnir í ríkisstj., samþ. þeir sömu gengislækkunina og Sjálfstfl. hafði áður lagt til. Það skyldi þó ekki vera, að það sama vaki fyrir flokknum enn, að ef vantraustatill. þessi yrði samþ. og þeir kæmust í ríkisstj., að þeir mundu þá standa að sömu leiðum, sömu gengisfellingu og núverandi ríkisstj. hefur stungið upp á? Ég hygg, að með samþykkt þessarar vantrauststill. verði enginn vandi leystur, nema ef til vill sá, sem er Framsfl, sjálfum mest á höndum, vegna þess að þeir eiga ekki sæti í núv. ríkisstj.