25.10.1967
Sameinað þing: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

6. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er sammála því meginatriði þessarar till., að tímabært sé orðið að endurskoða gildandi l. um náttúruvernd. Raunar hafði sú ákvörðun verið tekin í menntmrn. í s. l. mánuði í nánu og fullu samráði við Náttúruverndarráð að til slíkrar endurskoðunar skyldi efnt, þó að enn hafi ekki verið frá því gengið, hverjum skyldi falin sú endurskoðun og með hverjum hætti skyldi að henni unnið. Fleiri en eitt tilefni hafa orðið til þess, að við höfum sameiginlega komizt að þeirri niðurstöðu, Náttúruverndarráð og menntmrn., að æskilegt væri að efna til slíkrar endurskoðunar. Síðasta og stærsta tilefnið var deila sú hin mikla, sem upp kom milli náttúruverndaraðila og skipulagsaðila um staðsetningu vegar í Mývatnssveit, Kísiliðjuvegarins svonefnda. En við alla meðferð þess máls, sem er mjög vandasöm og mjög flókin kom í ljós, að allir aðilar voru sammála um, að nokkur ákvæði náttúruverndanlaga væru óljósari en svo, að æskilegt og skynsamlegt væri að láta við svo búið standa. Og þá var þetta afráðið að efnt skyldi til slíkrar endurskoðunar, þó að enn hafi sem sagt ekki orðið úr því að hleypa henni af stokkunum.

Það er ekki undarlegt, að endurskoða skuli þurfa lög, sem orðin eru rúmlega 10 ára gömul, lög, sem voru, frumsmíð á sínum tíma og mjög vandasöm lagasetning. Það er ekki reynsla okkar Íslendinga einna, að frumsmíð varðandi náttúruverndarlöggjöf þurfi endurskoðunar við eftir tiltölulega skamman tíma. Sú hefur orðið reynsla flestra annarra þjóða eftir fyrstu tilburði til lagasetningar um jafnviðamikil og vandasöm en mikilvæg mál og náttúruverndarmál hljóta að teljast.

Milli Náttúruverndarráðs, sem skipað er hinum áhugasömustu mönnum um náttúruverndarmál, og menntmrn. hefur á undanförnum árum verið ágæt og náin samvinna, og þessir aðilar báðir eru eins og ég sagði áðan sammála um það að tímabært sé orðið að efna, til þessarar endurskoðunar. Hins vegar er ég ekki viss um, að það sé rétt meðferð málsins, sem stungið er upp á hér í till. varðandi skipun n. Eins og hv. flm. gat um í lok sinnar ræðu er ekki gert ráð fyrir því, að sá aðili, sem óneitanlega þekkir langbezt til þessara mála af öllum aðilum á landi hér, mesta reynslu hefur í þeim, Náttúruverndarráð, það er ekki gert ráð fyrir, að það sé beinn aðili að nefndarskipuninni og ekki heldur Náttúrufræðistofnunin. Og í því sambandi er vitnað til þess, að hafa megi samráð við þessa aðila. En ef félög eða aðilar utan Alþ. eða utan stjórnarráðsins eiga rétt til að tilnefna í n., þá er það að mínu viti ekki síður Náttúruverndarráð og Náttúrufræðistofnunin en Hið íslenzka náttúrufræðifélag og Ferðafélag Íslands.

Ég er ekki alveg viss um, að það sé nauðsynlegt eða ástæða sé til þess, að stjórnmálaflokkarnir eigi beina aðild að jafnsérfræðilegu verki og endurskoðun náttúruverndarlaganna hlýtur að teljast. Ég mun þó ekki beita mér neitt gegn því, ef mönnum sýnist svo, að það sé eðlilegt, að flokkarnir eigi þarna beina aðild að, en þá sýnist mér n. óhjákvæmilega þurfa að vera stærri en till. gerir ráð fyrir

Í þessu sambandi vildi ég einnig benda á það að fyrir liggur önnur till. um endurskoðun á l. um Þingvelli eða þjóðgarðinn á Þingvöllum. Eitt þeirra atriða, sem upp hefur komið á undanförnum árum og valdið hefur nokkurri óvissu ég vil ekki segja deilum, en dálítil skoðanaskipti hafa komið fram um, er það hvort l. um náttúruvernd og l. um friðun Þingvalla stangist e.t.v. að einhverju leyti á. Það hefur komið upp sú spurning, sem ég skal enga afstöðu taka til og tel mig ekki geta tekið afstöðu til að svo vöxnu máli, hvort verksvið Þingvallanefndar og Náttúruverndarráðs kunni að rekast á að einhverju leyti og með einhverjum hætti samkv. ákvæðum beggja þessara l., eins og þau eru nú. Þetta tel ég vera eitt atriði, sem n. sem fengi þetta mál til athugunar, ætti einnig að fjalla um, og þá væri mikil spurning eða kæmi vel til greina, hvort Þingvallanefnd væri ekki réttur og sjálfsagður aðili að þessu verki öllu saman. Segja má, að l. um friðun Þingvalla séu fyrstu náttúruverndarlög á Íslandi, og það er spurning, sem er ósvarað, hvort náttúruverndarlögunum frá 1956 hafi að einhverju eða kannske öllu leyti verið ætlað að koma í staðinn fyrir náttúruverndarákvæði í l. um friðun Þingvalla. Un þetta hefur lögfróðum mönnum sýnzt nokkuð sitt hvað og virðist vera æskilegt að koma þessu máli á hreint, hver sem niðurstaðan um það efni yrði.

Enn fremur vildi ég minna á, að komið hafa upp nokkrar spurningar, sem ekki heldur hefur verið algerlega úr skorið varðandi það hvert sé verksvið Náttúruverndarráðs annars vegar og svo Skógræktar ríkisins eða jafnvel Landgræðslunnar hins vegar. Það hafa gerzt hlutir, sem auðveldlega hefðu getað orðið að ásteytingarsteini milli þessara tveggja stofnana, sem báðar fara með tiltekin völd eða tiltekna ábyrgð samkv. hlutaðeigandi lögun. Þetta eru líka atriði, sem ég tel fullkomlega tímabært, að athugað sé nánar í sambandi við endurskoðun náttúruverndarlaga. Ég tel sem sagt efni þessarar till, vera réttmætt og æskilegt og raunar alveg í samræmi við það, sem menntmrn. og Náttúruverndarráð hafa áður komið sér saman um og afráðið að gera, en ég tel, að hitt þurfi að athugast nokkru betur, með hverjum hætti þessi endurskoðun ætti að fara fram og þá sérstaklega hvaða aðilum ætti að fela hana.