06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2829)

32. mál, atvinnuráðning menntamanna erlendis

Flm. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt þrem öðrum framsóknarþm. leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka, hvort mikil brögð séu að því, að íslenzkir menntamenn ráði sig að námi loknu til starfa erlendis, og ef svo er, hverjar ástæður liggi til þess.“

Ástæðan til þessarar till. er sú, að það er almenn skoðun sem hefur ríka stoð í þeim upplýsingum, sem þegar liggja fyrir hendi, að allmikil og að mínum dómi allt of mikil brögð séu að því, að ýmsir sérmenntaðir menn, svo sem læknar og verkfræðingar, ráði sig til starfa erlendis og setjist þar að námi loknu taki sér þar fasta búsetu og komi jafnvel ekki aftur hingað til lands. Hefur allmikið verið rætt um þetta að undanförnu og hafa ýmsir látið í ljós ugg út af þessum búferlaflutningum menntamanna til útlanda. Frá því hefur t. d. verið skýrt í dagblaði ekki alls fyrir löngu að í Svíþjóð einni mundu nú starfa 60—80 læknar. Skv. upplýsingum frá landlæknisskrifstofunni er talið öruggt, að talsvert á 2. hundrað íslenzkra lækna dveljist nú erlendis, en þess er að gæta, að allmargir þeirra eru við framhaldsnám eða dveljast þar til bráðabirgða Samkv. upplýsingum frá skrifstofu verkfræðingafélagsins munu 35 íslenzkir verkfræðingar, sem eru félagsmenn í verkfræðingafélaginu starfa erlendis um þessar mundir. Þar að auki geta svo verið einhverjir og eru áreiðanlega einhverjir, sem ekki eru á skrá verkfræðingafélagsins. Og ekki alls fyrir löngu las ég það í dagblaði einu hér, að 60 íslenzkir verkfræðingar störfuðu erlendis, en ég veit ekki, á hverju það er byggt. Auk þess munu svo ýmsir íslenzkir tæknimenntaðir menn stunda atvinnu erlendis, og eru það sjálfsagt ekki allt háskólamenntaðir menn, en sérmenntaðir eigi að síður. Um þá menn liggja ekki fyrir neinar upplýsingar, svo að mér sé kunnugt um.

Eftir að þessi till. var flutt, hefur mér borizt vitneskja um skoðanakönnun sem Bandalag háskólamanna hefur efnt til, en það mun hafa verið seint á þessu sumri eða í haust, sem um það var rætt meðal þeirra, að það væri nauðsynlegt að láta fara fram slíka könnun, og í septembermánuði mun það hafa verið sem framkvæmdastjóra félagsins var falið að undirbúa þvílíka könnun, og var hún eftir það sett, af stað og bréf sent þeim háskólamönnum, sem erlendis dvelja ásamt spurningalista þar sem sérstaklega var gert ráð fyrir því, að reynt væri að upplýsa, hvað ráðið hefði starfsvali þeirra og búsetu erlendis. Þegar mér var síðast kunnugt um, var búið að senda slíkan lista eða bréf til 220 háskólamenntaðra manna. En það var vitað um talsvert fleiri, sem þó hafði ekki tekizt að afla upplýsinga um, hvar heima ættu, og hafði því ekki enn verið skrifað.

4. nóvember s.l. hafði borizt rúmlega þriðjungur svara frá þeim, sem skrifað hafði verið, og sjálfsagt hefur eitthvað borizt síðan, þó að mér sé ekki kunnugt um tölu í því efni. Þessi skoðanakönnun sem Bandalag háskólamanna hefur efnt til. er að sjálfsögðu mjög góðra gjalda verð. Upplýsingar þær, sem þar fást, geta sjálfsagt komið að notum við frekari rannsókn á þessu máli. Þessari skoðanakönnun sem Bandalag háskólamanna hefur efnt til, verður hins vegar ekki jafnað til þeirrar rannsóknar, sem hér er gerð till. um. því að það eru líka aðrir háskólamenntaðir menn, sem hér eiga að koma til athugunar og rannsóknar.

En það er þannig alveg óvéfengjanlega ljóst, að það eru margir og ég vil segja óeðlilega margir menntamenn, sem hafa leitað atvinnu utan landsteinanna. Óeðlilega margir af því að verkefni eru hér fyrir þá og hér er þeirra þörf. Það eru hins vegar ekki fyrir hendi fullnægjandi upplýsingar um það hve margir sérmenntaðir Íslendingar stundi atvinnu erlendis um þessar mundir. Að áliti okkar flm, þessarar till. er æskilegt og nauðsynlegt, að það fari fram rækileg athugun á því, hve marga menn er hér um að ræða, og jafnframt þarf að kanna — og það er að sjálfsögðu höfuðatriðið og höfuðröksemdin fyrir þessari till., sem hér er flutt, - hverjar ástæður liggja til þess, að þessir sérmenntuðu menn kjósa að setjast að erlendis. Það er auðvitað það sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur flm., að upplýst sé með þeirri rannsókn sem hér er lagt til. að fram fari.

Sumir kasta steini að þessum mönnum, finnst þeir hafa launað fóstrið illa. Ég vil nú vara við hnútukasti í garð þessara manna að órannsökuðu máli. Til dvalar þeirra og búsetu erlendis liggja sjálfsagt ýmislegar ástæður, sumar skiljanlegar, aðrar aftur á móti, sem mönnum gengur verr að skilja, en þessar ástæður allar er rétt að kanna, áður en menn fella þunga dóma. Hitt liggur alveg í augum uppi, að það er mikið tjón fyrir Ísland að missa þessa sérmenntuðu menn. Hér vantar t.d. tilfinnanlega, eins og öllum er kunnugt, lækna. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um læknaskortinn. Það er öllum hv. þm. svo kunnugt um hann, þar sem vitað er jafnvel um heil héruð og heilar sýslur, sem eru læknislausar, og lítið útlit að því er virðist því miður fyrir, að úr rætist í þeim efnum. Og allir minnast þess, er s.l. sumar átti að ráða lækni til aðstoðar síldveiðiflotanum, en af því gat ekki orðið. Ég verð að segja, að það er ömurleg staðreynd og það er eiginlega vansæmd fyrir þjóðfélagið að geta ekki séð þessum mönnum, sem þjóðfélagið stendur í svo mikilli þakkarskuld við fyrir læknishjálp. Ég skal ekkert dæma um það á hverju það hefur strandað og skal ekki hér í þessu sambandi ræða neitt frekar um þennan alkunna lækna­ skort, en nefni hann aðeins sem staðreynd, sem öllum er kunn.

Um það ætti nú ekki að þurfa að deila, að framtíð og gengi íslenzkrar þjóðar er ekki hvað sízt undir því komið að hún eigi á að skipa nægilegum fjölda sérmenntaðra manna og tæknimenntaðra manna. Þjóðfélagið þarf á þessum mönnum að halda. Þjóðfélagið hefur kostað miklu til menntunar þessara manna. Þjóðin hefur á ýmsan hátt lagt á sig mikið vegna þessara manna. Það er ekki verið að telja eftir það fé. Því fé hefur almennt verið vel varið og kemur yfirleitt aftur til skila að mínum dómi. Oft er sagt, að menntun sé bezta fjárfesting. Fyrir því má vissulega færa haldgóð rök. Ég vil að vísu fyrir mitt leyti vara við því, að það efnishyggjulega viðhorf verði alls ráðandi eða of mikils ráðandi í viðhorfi manna til menntunar. En hitt er ljóst, að sú fjárfesting, sem felst í menntun manna, sem hverfa að fullu til starfa á erlendum vettvangi,

ganga í þjónustu erlendra aðila og taka sér þar fasta búsetu, skilar ekki arði hér, kemur ekki okkar þjóð og okkar landi að beinu gagni. Orsakirnar til þessa þarf að kanna og reyna að ráða bót á því. Það er að sjálfsögðu svo, að það er fyrir margra hluta sakir æskilegt og nauðsynlegt, að íslenzkir menntamenn dvelji erlendis um stundarsakir og að sérmenntaðir menn eigi þess kost að stunda þar framhaldsnám. Þar auka þeir við sína kunnáttu. Þar fá þeir reynslu sem ekki er alltaf kostur að fá hér. Þó að sæmilega hafi verið gert við okkar háskóla og reynt að gera hann svo úr garði sem unnt er, er það auðvitað mál, að hann getur aldrei haldið til jafns við aðra stærri háskóla, þar sem kostur er miklu fjölbreyttari og margbreyttari menntunar en hér er. Þess vegna er það síður en svo, að það sé amazt við því í þessari till., að menntamenn sæki til útlanda þekkingu og reynslu sem getur svo aftur komið okkar landi að margföldu gagni, þegar þessir menn koma aftur En það, sem er öfugþróun í þessum efnum, er það, að þessir menn taki sér fasta búsetu erlendis og ráði sig þar til starfa til frambúðar og komi ekki aftur hingað til landsins. Ég vil segja það að við Íslendingar höfum ekki að mínum dómi efni á því að flytja út fólk og við höfum allra sízt hefni á því að flytja út sérmenntað fólk.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að æskja þess, að umr. þessari verði frestað og till. vísað til athugunar hjá allshn.