26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (2844)

44. mál, Vatnsveita Vestmannaeyja

Flm. (Karl Guðjónsson) :

Herra forseti. Það verður vart sagt, að mál, sem þm. leggja hér fyrir, fljúgi í gegnum þingið. Sú till., sem hér er tekin á dagskrá, mun hafa verið lögð fram hinn 6. nóv. s.l. og hefur ekki komið til umr. fyrr en þetta og má þá telja, að nærri láti, að liðinn sé ársfjórðungur frá því að till. kom fram og þar til hún kemur til umr. hér á þinginu. Ég vildi nú aðeins vekja athygli hæstv. forseta á þessu að á þeirri öld hagræðingarinnar, sem við lifum á, væri nú kannske vert að skoða það svolítið í ljósi slíkra staðreynda hvort við vinnum hérna með þeim hætti, sem svarar til þeirrar hagræðingar, sem við teljum sjálfsagt, að t.d. atvinnuvegir þjóðarinnar byggi sig upp eftir. En nóg um það. Ég skal taka það alveg sérstaklega fram reyndar, að þó að ég hafi beint orðum mínum til forseta sem nú situr á forsetastóli, þá er mér það mjög ljóst, að hann á enga sök á þeim hægagangi, sem orðið hefur á þessu máli.

Svo vill nú til. að ég get sparað mér það að fara mjög ýtarlega orðum um þá till., sem hér liggur fyrir, því að bæði koma aðalatriði málsins fram í grg., sem till. fylgir, og einnig hef ég flutt hluta af þessu máli í sambandi við afgreiðslu fjárl., því að það virðist nú vera einasta leiðin til þess að koma því við, að mál komi hér til athugunar og umr., að þau geti komizt í samband við einhver þau mál, sem verða að fá afgreiðslu. Till. fékk ekki byr í því máli, enda má kannske segja, að hér sé um stærra mál að ræða en svo, að við því sé að búast, að þm. séu reiðubúnir til þess að taka afstöðu til þess í sambandi við fjárl. til eins árs.

Svo er mál vaxið að Vestmannaeyjabær býr við mjög lélega möguleika til vatnsöflunar. Hann hefur nýtt þá, eftir því sem bezt má verða á undanförnum árum. Hann hefur nú safnað regnvatni af húsaþökum í þrær, og það hefur verið neyzluvatn bæjarbúa um margra ára bil. Þetta verður stöðugt erfiðari aðferð og kemst stöðugt fjær því að fullnægja þörfinni, sem tímar líða lengra fram. Auk þess liggur það fyrir, að þessi aðferð fullnægir ekki hreinlætiskröfum þeim, sem gera verður, eða heilsuf arslegum kröfum á hinum síðustu tímum, þar sem með auknu þéttbýli blandast æ meira saman við regnvatnið sem á húsaþökin fellur, bæði ryk og ýmiss konar upprót, sem fylgir lífi í bæjum, en auk þess er vatn sem svona er aflað, í stöðugt meiri geislunarhættu en vatn úr öðrum vatnsbólum.

Vestmannaeyjabær hefur á undanförnum árum gert ítrekaðar og kostnaðarsamar tilraunir til þess að afla sér vatns með öðrum hætti, með jarðborunum, grunnum og djúpum, og er þess skemmst að minnast, að fyrir fáum árum var gerð djúpborun niður á 1700 m dýpi, og hafðist ekki árangur sem erfiði. Þessi borhola mun hafa kostað 6 millj. kr., sem bæjarfélagið greiddi að hálfu en styrkt var að hálfu af ríkinu.

Allir nútímalifnaðarhættir manna kalla á stöðugt meiri vatnsnotkun og þá vatnsnotkun er ekki hægt að auka eftir þeirri reglu eða eftir þeirri leið, sem Vestmanneyingar hafa orðið að notast við. Það hefur því rekið að því á hinum síðustu árum, að þetta byggðarlag hefur orðið að hefja mjög kostnaðarsamar framkvæmdir við að afla sér hæfs og góðs neyzluvatns. Og ég ætla, að öllum hv. alþm. sé það kunnugt, að nú er einmitt í framkvæmd vatnsveita, þar sem ráðgert er að leiða vatn úr Vestur-Eyjafjallahreppi niður á Landeyjasand og þaðan í gegnum neðansjávarpípur út til Vestmannaeyja. Þetta er stórkostlegri vatnsveita en gerð hefur verið áður á Íslandi og miklu dýrari en nokkurt byggðarlag hefur þurft að leggja í miðað við sína möguleika og miðað við sinn fólksfjölda. Það hefur verið áætlað af Efnahagsstofnuninni, að vatnsveita þessi muni kosta rösklega 100 millj. kr. — 102—103 millj. kr. var áætlun sem gerð var á s.l. ári af Efnahagsstofnuninni. Nú mun sýnt, að þessi framkvæmd verði a.m.k. 30 millj. kr. dýrari en þar var reiknað með, enda hafa orðið verðbreytingar í landinu síðan. Það er alveg auðsæilegt, að eitt tiltölulega lítið byggðarlag hefur ekki möguleika til þess að standa undir þessum kostnaði og reyndar eins og nú er komið um lánsfjárkreppu og annmarka á því að geta losað fjármagn til framkvæmda blasir ekkert annað við en að það verði að hætta við þessa framkvæmd eða skjóta henni á frest um nokkurt skeið ef ekki fæst betri fyrirgreiðsla af ríkisins hálfu en enn er séð að verði. Þess má geta, að af þeim 102—103 millj. kr., sem Efnahagsstofnunin áætlaði að væri kostnaður við þessa vatnsveitu þegar hún gerði um það áætlun á s.I. ári, var talið að um það bil 20 millj. kr. mundu vera fé, sem ríkissjóður tæki í tolla af því efni, sem til vatnsveitunnar þarf. Þessi upphæð er þá auðvitað nú orðin allmiklu hærri, sökum þess að verðlag á þeirri vöru, sem til þessa þarf, hefur auðvitað hækkað og það sést ekki enn bóla neitt á þeirri tollalækkun sem hæstv. ríkisstj. hefur látið í veðri vaka að hún ætlaði að framkvæma og kallaði reyndar Alþ. saman fyrr eftir jólaleyfi að þessu sinni en vant er til þess að fást við þau mál. En það mál hefur sem sagt ekki sézt hér enn þá og ekki líkur til þess, að tollalækkunin verði nokkru sinni slík, að þetta mannvirki þurfi ekki miklu meiri fjárstuðning af opinberri hálfu en ráðgerður hefur verið.

Til eru lög, sem almennt gera ráð fyrir því, að ríkið styrki og styðji vatnsveituframkvæmdir. Þar virðist vera gert ráð fyrir því, að ríkið geti greitt allt að því helming kostnaðar við slík mannvirki. Á fjárl. þeim, sem nýlega hafa verið samþykkt, er ætlað til slíkra framkvæmda á öllu landinu á yfirstandandi ári, 6 1/2 millj, kr., svo að það geta allir séð að sá stuðningur, sem hugsanlegt væri, að til þessa mannvirkis fengist samkv. þeim, er svo lítill, að það tekur vart að nefna hann í sambandi við þá fjárfreku framkvæmd, sem er næsta skref í þessari vatnsveitu.

Það hafa margir menn brotið heilann um það með hverjum hætti væri hugsanlegt að fá meiri stuðning við þetta verk og fá stuðning, sem eitthvað verulega munaði um, þannig að þessi vatnsveita gæti notið þeirrar fyrirgreiðslu af ríkisins hálfu, sem hin almennu lög um vatns,veitur gera ráð fyrir að ríkið geti veitt, þ.e.a.s. svo sem helmingsgreiðslu. Kemur þá auðvitað mjög til mála að ríkið gefi eftir tolla af efni til mannvirkisins. Um það hafa ekki verið fluttar till. mér vitandi enn sem komið er, enda er það reynsla, að ríkissjóður er yfirleitt mjög tregur til þess að styðja framkvæmdir með þeim hætti og mér finnst það í rauninni mjög skiljanlegt.

Í þeirri till., sem við hv. 4. þm. Sunnl. höfum borið hér fram sameiginlega, gerum við ráð fyrir og viljum láta það koma til athugunar og afgreiðslu Alþ., hvort ekki sé hugsanlegt að koma við sérstökum stuðningi við þetta mannvirki umfram það sem gert er ráð fyrir í hinum almennu vatnsveitulögum, með því að viss hundraðshluti af sölu einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki í Vestmannaeyjum megi renna til þessa verks, Við höfum gert ráð fyrir því í till., að 15% af heildarsölu áfengis- og tóbaksverzlunarinnar í Vestmannaeyjum megi renna til verksins. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins er í raun réttri aðeins einn af tekjuöflunarliðum ríkisins. Það er ekki hægt að líta á þetta eingöngu sem verzlunarfyrirtæki, heldur hlýtur það að skoðast jafnframt sem tekjuöflunar- eða skattheimtufyrirtæki af ríkisins hálfu. Þess eru allmörg dæmi, að í þennan sjóð eða á þennan tekjustofn hafi verið sótt og ríkið hafi veitt af honum stuðning ýmsum þeim málefnum, sem greinilega þurfa stuðnings við en ekki lá í augum uppi að taka mætti fé til með öðrum hætti. Nefni ég þar, að af þessum tekjustofni hafa Landgræðslusjóður, Krabbameinsfélagið og Slysavarnafélagið fengið nokkurn stuðning, eins og hv. alþm. mun vera kunnugt. Hér er því ekki um það að ræða að með samþ. þessarar till. sé farið inn á nýja og óþekkta braut. Hitt mundi torvelda í flestum tilfellum að nota samþykkt þessarar till. sem fordæmi fyrir öðrum gjöldum ríkisins með þessum hætti, að hér er um það að ræða, að eitt tiltekið fyrirtæki ríkisins á einum tilteknum stað leggi hluta af tekjum sínum til hins mesta nauðsynjamáls þar á staðnum. Í þessu ljósi vildi ég gera ráð fyrir, að sú n, sem fær till. þessa til athugunar, skoði málið. Fé, sem gæti runnið til þessa fyrirtækis, ef till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, mundi ég álykta að gæti orðið um 45 millj. kr., þar eð fyrirtækið virðist selja á ári fyrir 30 millj. kr. Á s.l. ári seldi þetta fyrirtæki fyrir 28.4 millj., en starfaði ekki allt árið starfaði ekki nema tæplega 10 mánuði ársins. Með öðrum stuðningi, sem veittur yrði, m.a. samkv. hinum almennu reglum um vatnsveitur. tel ég, að þarna væri orðið um að ræða stuðning, sem gæti orðið þess valdandi, að fyrirtækið kæmist upp og gæti þjónað þeim tilgangi, sem svo mjög er nauðsynlegt að það geri.

Ég lét þess getið að ég færi ekki eins mörgum orðum um þetta mál og vert væri, þar eð það hefur áður komið hér að hluta til umr. og grg. gerir nánar grein fyrir því, hvernig þessu máli er varið. Skal ég ekki hafa mál mitt lengra að þessu sinni

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði, að umr. lokinni, vísað til síðari umr. og hv. fjvn.